Gleðin er svo sannarlega við völd í kosningagleðskap Baldurs Þórhallssonar sem haldin er á Grensásvegi. Þó að fyrstu tölur hafi ekki litið sérstaklega vel út fyrir Baldur var honum ákaft fagnað af gestum og hann steig í pontu nú á tólfta tímanum þar sem hann þakkaði kærlega fyrir allan þann stuðning sem hann hefur fengið.
„Mig langar sérstaklega að þakka öllum sjálfboðaliðunum út um allt land, sem hafa unnið dag og nótt að þessu framboði frá því við tilkynntum það 20. mars,“ sagði Baldur meðal annars. „Við hefðum ekki getað þetta án ykkar. Þetta framboð hefði ekki orðið að veruleika án ykkar,“ bætti hann við. „Við erum rétt að byrja,“ sagði hann svo í lokin.