fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Laufey vaknaði með slæman hausverk – Lá nokkrum tímum síðar á milli heims og helju á sjúkrahúsi

Fókus
Miðvikudaginn 8. maí 2024 10:03

Laufey Karítas. Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Laufey Karítas Einarsdóttir gjörbreytti öllu í lífi sínu eftir áralanga streitu sem endaði með heilablóðfalli. Laufey, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir að upplifunin að hún væri að fara að deyja hafi vakið hana til vitundar og hún hafi séð hvað skipti máli í lífinu.

„Ég var drottningin í því að lifa þessari klassísku tegund af lífsstíl í samfélaginu okkar. Að vera með alla bolta á lofti og vera alltaf til í allt og í raun halda uppi leikriti þar sem allt átti að vera fullkomið. Egóið mitt nærðist á því að geta tikkað í öll boxin sem samfélagið krefst af okkur. Það þurfti mjög mikið til að kippa mér út úr þessu. Þegar ég horfi til baka sé ég hvað ég var ótengd. Það leit allt frábærlega út á yfirborðinu, en samt vantaði mjög mikið og ég var í raun og veru að missa af lífinu,“ segir Laufey, sem breytti fyrst um takt árið 2020 þegar hún klessti harkalega á vegg.

„Þá kom fyrsta stóra viðvörunarbjallan. Ég hafði í mörg ár verið í vinnunni sem yfirmaður nánast öllum stundum á milli þess sem ég var móðir margra barna og ætlaði líka að vera fullkomin í öllu öðru, en var samt með stöðugt samviskubit. Ég gerði allt, var alls staðar, sagði aldrei nei, bara já og ætlaði aldrei að valda neinum vonbrigðum. Ég var upptekin af því að vera betri móðir, betri dóttir, betri yfirmaður og betri starfsmaður og var alltaf að drepast úr samviskubiti yfir öllu. En þarna fæ ég einhvers konar taugaáfall og var bara í grátkasti í tvær vikur. Taugakerfið hrundi og ég átti ekkert eftir á tanknum. Þarna fyrst fór ég að átta mig á því að ég gæti ekki lengur verið á tveimur stöðum í einu og rekið fjölskyldur í tveimur löndum ásamt fullu starfi sem yfirmaður með mikla ábyrgð. En samt tók mjög langan tíma fyrir mig að bremsa og raunverulega meðtaka skilaboðin.”

Hlustaði ekki á líkamann

Þó að Laufey hafi þegar þarna var komið sögu byrjað að hægja aðeins á sér segist hún samt ekki hafa verið tilbúin að sleppa raunverulega tökunum og hlusta á það sem lífið var að segja henni. Hún var með æðagúlp í höfðinu, en hún var orðin vön því að halda bara áfram og hlusta ekki á líkamann.

„Ég var orðin vön því að drepast í hausnum, en hélt alltaf bara áfram að poppa pillur til að geta höndlað daginn og haldið áfram að vinna og sinna því sem mér fannst ég eiga að gera, þar til að lífið kippti mér bara niður á jörðina.”

Þann 6. janúar 2022 rann upp örlagaríkur dagur í lífi Laufeyjar, sem hún segir að hafi í raun breytt öllu. Hún vaknaði með óvenju slæman hausverk og lá nokkrum tímum síðar á sjúkrahúsi á milli heims og helju.

„Ég var óvenju slæm þennan dag, en tók samt bara verkjapillur eins og venjulega og ætlaði bara að halda áfram. Ég hringdi í yfirmanninn minn og sagðist aðeins ætla að hvíla mig en svo myndi ég byrja að vinna. Svo leggst ég út af í 20 mínútur, en þegar ég ætlaði að byrja daginn aftur fann ég eitthvað smella í hausnum á mér. Maðurinn minn var í símanum og ég kallaði á hann að hann yrði að skella á og hringja á sjúkrabíl. Þarna upplifði ég að ég væri að fara að detta út í síðasta skipti og deyja. Ég hugsaði bara: „Er ég að fara að deyja.” Það sem fór í gegnum hausinn á mér var hvort ég ætti eftir sekúndur, mínútur eða klukkutíma hér á jörðinni. Þarna kom ég virkilega inn í núið og fannst ég skilja allt á einu augabragði. Ég hugsaði hvort það yrði í lagi með stelpurnar mínar ef þær ættu ekki móður og ég man að ég hugsaði: „Já þær eru svo vel gerðar og æðislegar að það verður í lagi með þær. Þær munu spjara sig.“ Ég áttaði mig loksins á því að vinnan og annað sem ég hafði sett svo mikla orku í væri ekki það sem skipti raunverulega máli í lífinu. Það kom yfir mig eitthvað æðruleysi og sátt við það ef ég væri að fara,” segir Laufey, sem komst á sjúkrahús í tæka tíð, þar sem tókst að stoppa blæðinguna. Hún lá milli heims og helju í tvo sólarhringa á sjúkrahúsinu, en kom svo aftur til fullrar meðvitundar og í kjölfarið hófst uppbygging og löng endurhæfing.

Meðtók skilaboðin frá lífinu

„Þetta breytti öllu og ég meðtók skilaboðin sem lífið var að færa mér. Ég sé núna úr baksýnisspeglinum að ég hafði lifað lífi mínu ótengd sjálfri mér og uppfull af hraðanum í samfélaginu. Þarna játaði mig endanlega sigraða í þessu ofurkonukapphlaupi og hef aldrei verið meira til staðar heldur en eftir að ég breytti öllu. Ég er í dag svo innilega þakklát fyrir þessa lífsreynslu og það hvernig líf mitt er í dag.“

Hún kennir í dag bæði yoga, hugleiðslu og dans og segist ástríðufull í starfi og leik:

„Ég fann á ákveðinn hátt tilgang minn í lífinu með því að miðla af vegferð minni og hugsa um heilsu, vellíðan og þakklæti í öllum skilningi. Það gefur mér gríðarlega mikið að fá að kenna öðru fólki yoga, hugleiðslu, dans og bara almennt að hlúa vel að sjálfu sér,” segir Laufey, sem segist vona að hennar saga muni hugsanlega vekja aðra til umhugsunar um mikilvægi þess að taka ábyrgð á eigin heilsu.

„Þetta hljómar örugglega eins og versta klisja, en við vitum flest að við þurfum að hægja á okkur, hlúa að heilsunni og því sem raunverulega skiptir máli í lífinu. En samt erum við einhvern vegin föst í þessu kapphlaupi sem tekur engan enda af því að það er enginn endastaður á hraðanum og kapphlaupinu. Við lifum í samfélagi þar sem áreitið dynur á okkur úr öllum áttum og á endanum missum við tenginguna við okkur sjálf. En við megum ekki gleyma því að við erum frjálsar manneskjur með frjálsan vilja og getum hlustað á innsæi okkar. Ég vona innilega að saga mín muni vekja einhverja til umhugsunar áður en það verður of seint.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Laufey og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“