Þorsteinn V. Einarsson, umsjónarmaður netmiðilsins Karlmennskunnar og samnefnds hlaðvarps, segir að fjöldi einstaklinga í menntakerfinu hafi kvartað undan fótboltastrákum í mörg ár. Hann tjáði sig um málið á X, áður Twitter, í gær eftir að fréttir bárust að Kolbeinn Sigþórsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hafi verið ákærður fyrir alvarlegt kynferðisbrot gegn barnungri stúlku.
„Vissuði að kennarar, foreldrar og skólastjórnendur um allt land hafa kvartað undan sömu tegund af hópi í mörg ár? Fótboltastrákum.
Þarf ekki að skoða með róttækum hætti hvað veldur því? Svona sérstaklega kannski í ljósi allra kynferðis- og ofbeldisbrota sem hafa komið upp?“
Skrifaði Þorsteinn á X, áður Twitter, í gær. Færslan hefur vakið mikla athygli. Sumir gagnrýna Þorstein fyrir að alhæfa um alla fótboltastráka og fyrir að útskýra ekki nánar yfir hverju sé verið að kvarta.
Hvert er umkvörtunarefni? Þá nánar
— Random_Gaæ (@GummiBessi) May 3, 2024
Einhverjir kennarar, einhverjir foreldrar og einhverjir skólastjórnendur – einhversstaðar á landinu – hafa kvartað undan einhverju hjá einhverjum. Sumir þeirra æfa fótbolta. 🤯👏
— pbp (@peturbpeturs) May 2, 2024
Fótboltastrákar eru eins mismunandi og þeir eru margir. Þú ert að gera það sama og þeir gera sem níða kvenfólk eða kynþætti. Dæmir fólk út frá því hvaða hóp það kann að tilheyra í einhverju samhengi. Óskilvirk leið til að nálgast rauvöruleg vandamál.
— Þráinn Guðbjörnsson (@GuThrainn) May 3, 2024
Aðrir tóku undir með Þorsteini og sögðu meðal annars að menningin í fótbolta sé ólík öðrum íþróttum.
Mín kenning er sú að klefamenningin í karla fótboltanum sé gegnum sýrð af kvennfyrirlitningu og annari ómenningu!
Ég hlustaði á rúmlega fertugan kall núna nýlega lýsa þessari „banter“ menningu sem þrífst þarna inni!— Dori Bjoss (@DoriBjoss) May 2, 2024
Èg á tvo fótboltastráka, þeir hafa einnig æft körfu og handbolta. Það er áþreifanlegur munur á stemmningu og anda þessarra íþrótta og harkan, niðurrifið og stælarnir í fótbolta töluvert meiri miðað við okkar reynslu. Það er þó jákvætt að það sé meira rætt um það og verið að tækla
— Valgerður Árnadóttir (@ValaArna) May 3, 2024
líka aðrir nemendur. Veit um ófáa krakka sem hafa lagt ansi mikið á sig til að þurfa ekki að vera í td. hópavinnu með fótboltastrákum.
— Edda Rós (@eddaros) May 3, 2024
Þorsteinn svaraði gagnrýnendum og sagði viðbrögðin við færslunni segja ýmislegt. Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, var meðal þeirra sem svaraði honum, en færsla Flosa hefur fengið 219 „likes“ á meðan upphaflega færsla Þorsteins hefur fengið 91 „likes.“
Þetta kjarnar kannski vandann. Bæði þetta svar, fjöldinn sem er mættur að læka á núll einni og þeir sem læka. – Flott að einhver taki upp hanskann fyrir okkar viðkvæmasta hóp, fótboltastrákana. https://t.co/A8bOzHKvgz
— Þorsteinn V. (@thorsteinnv__) May 2, 2024
Fleiri íslenskir landsliðsmenn í knattspyrnu hafa verið sakaðir um kynferðisbrot.
Albert Guðmundsson var kærður fyrir kynferðisbrot síðasta sumar. Málið var fellt niður í febrúar þar sem héraðssaksóknara þótti ekki líklegt að það myndi leiða til sakfellingar. Niðurfellingin var kærð en Albert fékk að spila með íslenska landsliðinu á móti Ísrael í mars.
Gylfi Þór Sigurðsson var handtekinn þann 16. Júlí árið 2021 grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Honum var sleppt úr haldi stuttu síðar en var úrskurðaður í farbann. Í apríl 2023 var niðurstaðan sú að hann yrði ekki ákærður og var laus allra mála.
Í ágúst 2022 staðfesti ríkissaksóknari niðurfellingu héraðssaksóknara á kynferðisbrotamáli gegn Aroni Einari Gunnarssyni og Eggerti Gunnþóri Jónssyni. Kona kærði þá fyrir hópnauðgun í Kaupmannahöfn sumarið 2012.