fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

„Ég get gert milljarða díl án þess að finna minnsta stress, en svo get ég ekki valið mér jakkaföt“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 29. maí 2024 10:30

Baltasar Kormákur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Baltasar Kormákur segir eina mestu gæfu lífsins hafa verið að hætta að drekka áfengi. Baltasar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist hafa farið af krafti í drykkjuna, eins og annað sem hann tekur sér fyrir hendur og að hann hafi öðlast nýtt líf eftir að hann hætti:

,,Ég gerði það bara eins og annað af miklum myndugleik og keypti mér bar og komst að því að það væri ódýrara en að borga reikningana mánaðarlega fyrir áfengið. Ég notaði áfengi til að slökkva á mér og slökkva á hausnum. Það var svo mikil orka í gangi að maður þurfti stundum að slökkva á þessu bara. Þegar ég var að leika á kvöldin fyrir framan 500 manns náði maður ekkert að fara bara heim að sofa. En svo verður þetta bara að vítahring. Það er bara mín gæfa að hafa stoppað drykkjuna og ég leit aldrei til baka. Ég hef ekki drukkið í meira en tuttugu ár og það að hætta því er eitt það besta sem ég hef gert. Þetta getur verið allt í lagi á meðan maður er ungur, en svo verður þetta bara súrara og súrara. Ég sakna ekki eins né neins við þann lífsstíl sem fylgdi áfenginu. Það er svo frábært að eiga alltaf sjö daga í viku. Þú eignast bæði tíma og lífsgæði við að hætta þessu.”

Baltasar segir sjálfsvinnu skemmtilegasta verkefni sem hann hefur tekist á við. Hann segist hafa þurft að breyta mörgu í eigin fari og þó að það sé ekki auðvelt, sé það á endanum stærsta verkefnið í lífinu:

,,Það er frábært verkefni að leiðrétta sig og vinna í sér. Ég fer reglulega til sálfræðings og hef á undanförnum árum unnið mikið í sjálfum mér og það er skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekist á við. Þegar ég var ungur var viðkvæðið það að það væru bara aumingjar sem færu til sálfræðings, en í dag er það frekar þannig að það séu aumingjar sem þora ekki að vinna í sjálfum sér og horfast í augu við sjálfan sig. Það er miklu meiri aumingjaskapur. Ég hef þurft að grafa mjög djúpt til þess að ná að skilja ákveðin hegðunarmynstur hjá sjalfum mér og breyta þeim. Hvort sem það kemur að kynhegðun eða öðrum mynstrum sem koma líklega að mestu frá uppvextinum og æskunni. En það er ekki þar með sagt að eitthvað þurfi að vera einhvern vegin að eilífu. Kynslóðirnar sem komu á undan höfðu ekki sömu tækifæri til að slíta á keðjuna með því að vinna úr eigin áföllum. Það er ekkert betra en að eiga möguleika á að breyta sjálfum sér sem manneskju til að verða betri við fólkið í kringum sig,”

Baltasar hefur brugðið sér í mörg líki í gegnum tíðina og eitt af því er að vera viðskiptamaður og gera trekk í trekk mjög stóra samninga upp á háar upphæðir. Hann segist líta á sig sem bæði listamann og bisnessmann:

,,Ég hef alltaf verið listamaður, en ég er líka bisnessmaður. Það fer örugglega í taugarnar á einhverjum, en mér er alveg sama. Ég er með töluheila og stærðfræði var alltaf sterkasta greinin mín í menntaskóla. Mér finnst rosalega gaman að gera díla. Ég var að gera einn stærsta díl sem ég hef gert bara síðustu helgi og það er eitthvað við það sem gefur mér mikið. En svo ætlaði ég að fara að kaupa mér jakkaföt fyrir frumsýninguna á Snertingu, en þá fékk ég bara kvíðakast. Ég get gert milljarða díl án þess að finna minnsta stress, en svo get ég ekki valið mér jakkaföt. Þetta hljómar eins og þversögn, en það er eitthvað við það að gera stóra samninga og klára díla sem mér finnst bara rosalega gaman og ég veit að það er líka einn af mínum styrkleikum,” segir Baltasar, sem segir virkilega gaman að horfa yfir farinn veg og ferilinn og stundum átti hann sig ekki á því hve merkilegt margt af því sé:

,,Ef ég hefði sagt þegar ég var ungur að ég ætlaði að fara til Hollywood að leikstýra Denzel Washington hefði ég bara verið keyrður beint á Klepp. Hugmyndin um að einhver frá Íslandi gæti gert þessa hluti var einfaldlega ekki til. En um leið og það verður til fyrirmynd sem sýnir að þetta sé hægt fer huglæga fyrirstaðan og fleiri geta fylgt í kjölfarið. Björk er algjör ,,Icebreaker” í því að sýna Íslendingum að við getum náð langt erlendis. Hún opnaði þann möguleika að þetta væri yfir höfuð hægt. Vonandi hef ég gert eitthvað svipað í kvikmyndagerð og hún hefur gert í tónlist.”

Baltasar segist eiga frábært líf á Íslandi og að hann hafi engan áhuga á að búa í Los Angeles eða vera meira í Hollywood:

,,Mín staða er þannig að ég gæti bara verið úti í Los Angeles að gera myndir og búið bara þar. En ég sé það sem mikla gæfu að ég var búinn að móta mitt líf talsvert mikið þegar ég fór að fá athygli erlendis. Ég á börn, fjölskyldu, líf og hesta og í raun bara líf sem ég er ekki tilbúinn til að skipta út fyrir að vera í Hollywood. Ég sé það líka sem gæfu að standa aðeins utan við þennan heim sem er í gangi þar. Ég finn það oft þegar ég kem til Los Angeles að maður fer mjög hratt inn í hvirfilvindinn og verður samdauna því sem er að gerast þar, en það gerir mann alls ekki

að betri leikstjóra. Ég á frábært líf í dag og er virkilega þakklátur fyrir það og myndi ekki vilja skipta því út fyrir neitt.”
Þegar Baltasar horfir yfir farinn veg segist hann stoltastur af kvikmyndaverinu í Gufunesi, sem hann segir verkefni af stærðargráðu sem fæstir gera sér grein fyrir:

,,Í raun og veru er byggingin á stúdíóinu í Gufunesi það langstærsta sem ég hef gert á ferlinum. Ég er ekki viss um að fólk kveiki yfir höfuð á því hvað það er stórt dæmi. Það að ráðast í að byggja stúdíó á ruslahaugunum í Gufunesi sem er notað í stórar Hollywood myndir er meira en að segja það. Ég lít stundum til baka og hugsa hvernig mér datt þetta í hug og hvar ég fann kjarkinn í að láta vaða í að fara ,,all in” í þetta verkefni. Þessi staður í Gufunesi var á tímabili kallaður ,,Chernobyl” og ég held að margir hafi haldið að ég væri endanlega búinn að missa það. Ég tók allt sem ég var búinn að eignast úti og setti það í þetta verkefni. Ég er mjög vel launaður í myndum sem ég geri úti og hefði bara getað haldið mig við öryggið í því. Ég sagði nei við því að leikstýra ,,Fast and the Furious”. Mér var boðið að gera tvær svoleiðis myndir og launin við það eru eitthvað sem fæstir myndu segja nei við. En ég fann bara að ég vildi ekki fara niður þann veg og festast í þeirri vél. Það er ótrúlega gefandi fyrir mig að koma inn í stúdíóið á Gufunesi þegar allt er á fullu í upptökum og ég er gríðarlega stoltur af þessu verkefni.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Birgi og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gerard Butler ofkældist við tökur á Íslandi

Gerard Butler ofkældist við tökur á Íslandi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjasta vendingin í stóra Hollywood-dramanu – Disney dregið inn í málið út af þessari persónu í Deadpool-myndinni

Nýjasta vendingin í stóra Hollywood-dramanu – Disney dregið inn í málið út af þessari persónu í Deadpool-myndinni