fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Áfalla-og neyslusaga Gunnars hófst í grunnskóla – Varð faðir 16 ára: „Hún hefur síðan bjargað lífi mínu mörgum sinnum“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 27. maí 2024 12:00

Mynd: Unsplash.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður á þrítugsaldri með stóra áfallasögu kemur nafnlaus til þess að vernda fjölskyldu sína og vini í nýjasta þætti hlaðvarpsins Sterk saman. Köllum hann Gunnar.
Hann hefur gengið í gegnum meira en flestir en hefur í dag snúið lífi sínu við og verið í bata frá fíknisjúkdómi í rúmt ár, eftir átján ár í ljótum heimi fíkniefna og öllu sem því fylgir. Gunnar ólst upp hjá báðum foreldrum en man vel eftir rifrildum og óstöðugleika allt frá barnsaldri.

„Ég held það sé mikilvægt að „fuck-a“ ekki í innsæi barna. Þegar það eru til dæmis mikil rifrildi foreldra og barn spyr hvað sé að. Þá má ekki alltaf segja að það sé allt í góðu, þó það þurfi ekki að segja frá öllu þá þarf að staðfesta að innsæi barnsins sé rétt um að það sé ekki allt eins og það á að vera.“
Gunnar ólst upp við alkóhólisma en faðir hans drakk mikið og eftir að hann hætti vann hann ekki í sér og komst því ekki í bata.

„Ég var mjög ungur farinn að efast um mitt innsæi og átti reiðan pabba, hann var samt besti vinur minn.“

Varð fyrir einelti í grunnskóla

Gunnar var ofvirkur og var settur á lyf aðeins sex ára gamall. Skólagangan gekk upp og niður. Hann lenti í miklu einelti en í dag segir hann það skrifast á hans andlega mein. „Ég þurfti alltaf eitthvað meira, ég var með þessa orku. Ég skipti um skóla en lenti samt í einelti.“

Hann rifjar upp atvik þar sem hann keypti strokleður handa stelpu í skólanum fyrir laugardagspeninginn sinn. „Ég var spenntur og gaf henni það á mánudeginum en þá sagði hún að hún mætti ekki leika við mig lengur. Mamma hennar sagði að ég væri villingur og yrði dópisti í framtíðinni. Ég vissi ekki hvað það þýddi en það var mikil höfnun.“

Gunnar flutti erlendis og leið mun betur þar, skólakerfið var mannlegra, eins og hann orðar það. Þar var mikið unnið í náttúrunni og útivist mikil. Þar lenti hann ekki í einelti.

Fyrrverandi kærasta kærði hann fyrir nauðgun

Fjórtán ára flutti hann aftur til Íslands og þá í lítinn bæ úti á landi sem lagðist ekki vel í ungling sem hafði fundið sig vel á nýjum stað í útlöndum. Gunnar lenti í stóru áfalli sem unglingur þegar fyrrverandi kærasta hans, sem hann hafði hafnað kærði hann fyrir nauðgun. „Ég hafnaði henni og fór að vera með öðrum stelpum. Hún átti erfitt, missti pabba sinn og var að missa mömmu sína líka úr krabbameini þegar hún og mamma hennar komu í heimsókn til okkar mömmu. Hún sat á rúminu mínu og ég sneri bara baki í hana og var í tölvunni í stað þess að vera til staðar fyrir hana.

Nokkrum dögum seinna kom lögreglan og tók mig fyrir nauðgun.“ Gunnar fékk heilt bæjarfélag á móti sér eftir þetta og reyndi að hengja sig úti á sjó. „Ég gat ekki séð fram úr þessu. Ég fór á bíladaga einhverju eftir þetta og þar hópaðist fólk saman og kallaði mig nauðgara.“ Þremur mánuðum seinna mætti hann í skýrslutöku hjá lögreglu en þá hafði stelpan komið daginn áður og beðist afsökunar á þessu, sagt sannleikann og þar með lauk málinu, hjá lögreglu.

„Málinu lauk hjá þeim en ég var ennþá bara í sjokki.“ Aðspurður hvort hann sé reiður út í stelpuna segir hann: „Nei, ég er ekki reiður, ég hafnaði henni, henni leið mjög illa og var að enda ein eftir með litla bróður sinn. Erfiðast var að fá alla upp á móti sér. Ég var í skóla þrjá daga í viku og aðra daga á sjó.“
Gunnar var á leið heim úr skólanum einn daginn í 10. bekk þegar hann fékk símtal og honum óskað til hamingju með prinsessuna. Hann var orðinn pabbi. „Ég gleymi aldrei tilfinningunni þegar ég hélt á henni í fyrsta skipti. Hún hefur síðan bjargað lífi mínu mörgum sinnum.“

Byrjaði í fíkniefnum 16 ára

Aðeins 16 ára var hann farinn að braska með fíkniefni og var í mörg ár á flótta undan vanlíðan sinni. Lífið breyttist og þróaðist eftir því hvernig neyslu hann var í hverju sinni.
Hann flutti mikið á milli landshluta, var á sjó og í öðrum störfum ásamt því að vera í neyslu. Áföll héldu áfram að elta hann en hann rifjar upp stórt áfall þegar hann var nýlega kominn úr meðferð í eitt skipti.

„Kærastan mín spurði mig hvort mér væri sama hvort hún færi að drekka með vinkonum sínum. Ég hugsaði að ég gæti ekki stjórnað því. Ég hrökk upp um fjögur um nóttina í kvíðakasti. Ég var farinn að selja gras en hafði ekki notað þarna en án þess að hugsa reykti ég og fór að sofa eftir að hún svaraði ekki símanum.“

Morguninn eftir kom í ljós að kærasta Gunnars hafði lent í hræðilegu bílslysi og lést í kjölfarið. Hann missti tök á neyslunni í kjölfarið. „Við vorum búin að taka ákvörðun um að vera saman, sama hvað, svo var hún tekin frá mér. Ég var bara tómur. Ég var edrú í jarðarförinni og því en fólk hélt að ég væri undir áhrifum því ég var svo týndur.“

Í einni innlögn á Vogi, þar sem hann ætlaði sér ekki að vera edrú, heldur aðeins að rétta sig af, fékk hann að vita að hann ætti þriggja ára gamlan strák.
„Ég vissi þetta allan tímann, enda var hann alveg eins og ég. Ég fékk samt smá sjokk og klóraði mér í hausnum.“

Drengurinn barðist svo við krabbamein og lést af völdum þess eftir að hafa verið í meðhöndlun erlendis.

„Ég reyndi allt sem ég gat til að komast út en ástandið á mér var hrikalegt. Ég átti að fá fylgdarmann en ég hreinlega man ekki hvað ég reyndi. Á þessum tíma svaf ég úti því það var svo mikið rugl í herberginu sem ég leigði.“

Kom að föður sínum látnum

Faðir Gunnars sem hafði alltaf barist fyrir honum og hans edrúmennsku fór að veikjast aftur sjálfur, hans alkóhólismi tók sig upp og honum leið illa. Gunnar kom að honum og náði að bjarga honum eftir sjálfsvígstilraunir í tvígang. „Maðurinn sem vildi alltaf að ég væri edrú var farinn að mæta með bjór og sterkt og biðja mig að koma í skúrinn með sér.“ Hann drakk ekki fyrstu tvö kvöldin en þriðja kvöldið fékk hann sér bjór. Þarna var hann búinn að vera í nokkuð góðu jafnvægi, kominn með konu og annað barn og þráði bara að vera fjölskyldufaðir.

„Ég fór til hans síðasta kvöldið og hann var svo orðljótur að ég fékk vini með mér. Við enduðum á að fara á bar, eins og hann vildi.“ Kvöldið endaði ekki vel og Gunnar ákvað að kíkja á pabba sinn daginn eftir.

„Ég var fyrir utan skúrinn og fannst ég heyra eitthvað inni, opnaði svo skúrinn og sá pabba hangandi.“
Gunnar var búinn að sækja um í meðferðum og neyslan orðin óviðráðanleg auk þess að hafa ofskammtað nokkrum sinnum þegar lögreglan bankaði upp á og hann fann fyrir miklum létti. „Ég fékk dóm fyrir akstur undir áhrifum og þess háttar, þrjú ár og fjóra mánuði, fyrst á Hólmsheiði og síðan á Litla-Hraun. Ég tók ákvörðun um að nýta tímann og verða betri maður. Auðvitað má gera margt betur en ég tók þessa ákvörðun, setti allt mitt til hliðar og hef eignast nýtt líf.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.

Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“