Birgir Örn Sveinsson segist hafa kynnst sjálfum sér upp á nýtt þegar hann var nærri fjóra sólarhringa í algjöru myrkri án matar. Birgir, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, segir stóran hluta vandamála nútímamannsins stafa af allt of miklu áreiti á skynfærin, sem ræni okkur því að geta slakað almennilega á.
„Ég eyddi nýlega fjórum nóttum og þremur dögum inni í herbergi án nokkurrar birtu. Svokallað „dark retreat“, þar sem þú ert í algjöru myrkri og veist ekki hvort það sé dagur eða nótt. Ég ákvað líka að fasta yfir þennan tíma til þess að útiloka öll áreiti frá skynfærunum. Þetta tók auðvitað á, en það sem mér fannst merkilegast var hvað mér byrjaði að líða vel yfir því að vera laus við allt þetta áreiti sem dynur á okkur. Ég sat bara eða lá og á einhverjum punkti áttaði ég mig á því að það eina sem ég þyrfti að gera væri að slaka almennilega á og mæta sjálfum mér. Það getur gerst að líkaminn framleiði svo mikið melatónín að hann fer á endanum að brjóta það niður í DMT, sem er hugvíkkandi efni sem líkaminn getur framleitt sjálfur. Ég var ekki að gera þetta til þess að ná fram þessum áhrifum, heldur meira bara til að mæta sjálfum mér og skoða hvað er á bakvið allt áreitið og skilyrðingarnar. Við erum flest uppfull af spennu og kvíða, en þegar þú nærð að slaka alveg á gerast magnaðir hlutir. Það fer ekki saman að vera óttasleginn og alveg slakur. Í slakanum ferðu inn í þakklæti og kærleika og sérð hvað þessi ótti okkar er í raun órökréttur,“ segir hann.
Birgir hefur upplifað margt í gegnum tíðina, en segir að eitt það magnaðasta hafi verið þegar vitund hans fór úr líkamanum og hann breyttist í vitund sem uppgötvaði svo sjálfa sig:
„Ég er nokkuð sannfærður um að Miklihvellur sé að gerast margsinnis á sekúndu og þetta sé allt að gerast ennþá. Ég var fyrir sérstakri reynslu fyrir einhverjum árum sem sat með mér. Þá hljóp vitund mín út úr líkamanum og inn í rými sem ég gæti kallað „singularity“ eða eitthvað tóm. Ég var ekki ég og upplifði ekki mig, heldur bara einhvers konar vitund. Svo þegar vitundin uppgötvar sjálfa sig og segir „ég er“ þá sprakk hún í Miklahvelli og ég horfði á veröldina byggjast upp frá þessum hvelli og svo varð ég allt í einu maður og svo varð ég Biggi. Þessi lífsreynsla tók um 45 mínútur, en ég sá hana hægt og það fór allt tímaskyn. Ég hef alltaf haft áhuga á eðlisfræði og ef að Miklihvellur gerðist, þá þýðir það væntanlega að þú sért þessi hvellur að gerast núna. Alheimurinn er enn að þenjast út,” segir Birgir og heldur áfram:
„Ég hef alltaf haft áhuga á eðlisfræði og mikið velt því fyrir mér hvernig alheimurinn varð til. Það bendir margt til að fyrst hafi það verið þetta frumhljóð „om“, sem síðan fellur niður í ljós og ljósið tvístrast í þessar bylgjulengdir og þannig verða hlutirnir til. Öll sköpun er einhvers konar takmörkun. Ég er að vinna við að gera tónlist og þegar ég sest niður við tölvuna eru allir möguleikar heimsins opnir. En svo byrjar maður að takmarka hljóðin og þannig verður sköpunin til. Því meira sem maður takmarkar, því sérhæfðari er sköpunin. En í grunninn trúi ég á einingu og að í grunninn séum við öll eitt og á einhvern hátt öll tengd. Það er bara erfitt að ná utan um það og finna það í raun og veru í daglegum veruleika.”
Birgir var einn sá fyrsti til þess að kynna hugvíkkandi efnið Ayahuasca fyrir Íslendingum, eftir að hafa búið um tíma í Perú, þar sem hann lærði undir handleiðslu lækningamanna í Amazon frumskóginum.
„Ég fékk bara mjög skýr skilaboð um að ég ætti að fara og kynna þetta efni fyrir fólkinu mínu á Íslandi. Það var verkefni sem mér var ætlað og ég skilaði því af mér, en hef talsvert mikið stigið út úr þessum heimi á undanförnum árum. Ég hélt lengi athafnir þar sem mikið af fólki kom til mín og ég veit að það fólk hefur síðan tekið sína vegferð lengra og er að vinna með þessi efni. En ég kláraði mitt verkefni þegar kemur að hugvíkkandi efnum og hef ekki fundið mikla þörf fyrir að vinna með þetta á undanförum árum,” segir Biggi, sem hefur sem fyrr segir upplifað mjög mikið og á vegferð sinni hefur hann sannfærst um það að við séum fjölvíddarverur:
„Ég ætla að bjóða þér inn í nýja heimsmynd. Hvað ef við erum fjölvíddarverur? Við vitum að það er miklu meira þarna úti en við sjáum og nemum. Það er vitað að skynfæri okkar geta bara numið brot af þeirri tíðni sem er til. En ef við tengjumst kjarna okkar nógu sterkt getum við farið að sjá og upplifa meira. Mín tilgáta er að við séum fjölvíddarverur sem eru tengdar inn í marga veruleika í einu. Egóið okkar aftengir okkur frá því að tengjast öllu og við þurfum ákveðinn aðskilnað bara til þess að geta náð utan um tilveruna. Hvar erum við stödd þegar okkur dreymir? Hvaðan koma tilfinningarnar? Hvaðan koma hugsanirnar? Ég upplifi hlutina svolítið þannig að því meira sem ég veit, því sannfærðari verð ég um hvað við vitum rosalega lítið. Alheimurinn er stór og vegir hans eru órannsakanlegir.”
Hægt er að nálgast viðtalið við Birgi og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is