Embla ræðir um áhrifavaldabransann í London, þar sem hún er búsett, upphafið á ferlinum, hvernig venjulegur vinnudagur lýsir sér, ráð fyrir aðra sem vilja fylgja í hennar fótspor og svo margt fleira. Horfðu á þáttinn hér að neðan.
Það er hægt að hlusta á Spotify, Apple Podcasts og hlaðvarpsþjónustu Google.
DV ræddi síðast við Emblu í desember 2020. Þá var hún með samtals um 500 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlum. Í dag er hún með 2,5 milljónir fylgjenda á TikTok og yfir 220 þúsund á Instagram.
Embla fann sína köllun snemma. Hún hefur frá barnsaldri haft mikinn áhuga á förðun og beið eftir því að verða nógu gömul til að byrja að mála sig. Þegar hún var átján ára fór hún í Reykjavík Makeup School og þá var ekki aftur snúið. Hún stofnaði í kjölfarið Instagram-síðu með áherslu á förðun og byrjaði að deila myndum af sér og viðskiptavinum. „Sumarið 2018 byrjaði ég að prófa mig aðeins áfram og taka þessu alvarlega,“ segir hún.
Þá fór boltinn að rúlla og hefur ekki stoppað síðan. Árið 2019 stofnaði hún aðgang á TikTok, sem á þeim tíma var mun minni miðill en hann er í dag. Í Covid sprakk TikTok og jukust vinsældir Emblu gífurlega utan landsteina.
Fyrsta myndbandið sem varð „viral“ hjá Emblu var „White Christmas“ myndbandið.
@emblawigumday 2! so happy this is kinda trending again 😌✨♬ Snow meiser Heat meiser mix by Mike DiNardo – Mike DiNardo
Það fékk yfir 22 milljónir áhorfa og fjögur milljónir manna líkuðu við það, sem eru hreint ótrúlegar tölur. Aðspurð hvernig tilfinningin hafi verið á þessum tíma að fá slík viðbrögð segir Embla:
„Það er ótrúlega skrýtið. Þetta er náttúrulega geggjað og ótrúlega gaman, sérstaklega eins og þarna var ég búin að vera að gera þetta í smá tíma og setja mikla vinnu í þetta. Þannig maður fær svona aðeins: „Vá, loksins er þetta að skila sér.“ En svo er þetta líka svo óraunverulegt. Maður sér þessar tölur, tíu milljónir, tuttugu milljónir, en manni líður ekki endilega eins og það sé svona mikið af fólki að horfa á mann. Sem er rosalega skrýtið.“
Þegar Embla byrjaði að reyna fyrir sér sem áhrifavaldur var hún enn í menntaskóla. „Ég var að gera þetta á kvöldin heima hjá mér. Þannig kannski svona í kringum 2019 þegar TikTok byrjaði að stækka ennþá meira þá ákvað ég að prófa að setja almennilegt púður í þetta,“ segir hún.
Haustið 2021 flutti hún til London ásamt þáverandi umboðsskrifstofu sinni, Swipe Media. Hún segir mikinn mun á bransanum úti miðað við hér heima.
„Það er alveg rosa mikill munur finnst mér. Í fyrsta lagi er þetta miklu stærra í London og miklu fleiri sem eru að gera þetta og vinna við þetta í fullu starfi. Og miklu fleiri fyrirtæki og merki sem eru að vinna með áhrifavöldum. Ég veit ekki hvort þetta hefur breyst á Íslandi síðan ég flutti út, en úti, það er svo rosalega mikið í gangi í kringum þetta. Endalaust af viðburðum og einhverju að gerast. Þetta er svo rosalega stór heimur og samfélag,“ segir hún.
Bara síðustu mánuði hefur Emblu verið boðið á fjölda viðburða á vegum risa í bransanum, eins og NYX, Rare Beauty og meira að segja á sérstaka sýningu á nýju kvikmyndinni „Damsel“ á vegum Netflix.
Prófaðu að endurhlaða síðuna ef þú sérð ekki færsluna hér að neðan.
View this post on Instagram
Margir halda að það sé mjög auðvelt að vera áhrifavaldur og átta sig ekki á allri vinnunni sem liggur að baki. Eins og það þarf að taka upp myndböndin, það er stundum margra klukkutíma vinna á bak við mínútu förðunarmyndband. Svo þarf að klippa myndbandið, hlaða því upp, svara spurningum fylgjenda, svara tölvupóstum frá samstarfsaðilum og svo framvegis. Við fengum Emblu til að lýsa venjulegum vinnudegi í hennar lífi.
„Það fer rosalega eftir [hvað er í gangi]. Sumar vikur er ég með fullt af einhverjum fundum og viðburðum sem ég er að fara á og þarf að plana í kringum. En annars fer venjulegur vinnudagur mikið í það að taka upp. Þetta er rosalega mikið ég heima hjá mér að taka upp myndbönd, bara eitthvað ein. Síðan að klippa og eitthvað svoleiðis. En mér finnst það ótrúlega gaman og ég held að það sé það mikilvægasta í þessu ef fólk vill vinna við þetta, því þér þarf að finnast gaman að gera myndböndin. Það er ótrúlega gaman að fara á þessa viðburði og fá fullt af tækifærum, en manni þarf líka að finnast gaman að búa til efnið.“
Fylgstu með Emblu á Instagram, TikTok og YouTube.
Horfðu á þáttinn með Emblu í spilaranum hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.