Tónlistarkonan Laufey, sem slegið hefur í gegn um allan heim á undanförnu ári, er að gefa út nýja útgáfu af plötunni Bewitched. Er um svokallaða lúxusútgáfu að ræða.
Bewitched kom út í september á síðasta ári og rauk út eins og heitar lummur. Þetta er önnur plata Laufeyjar í fullri lengd.
Nú gefur Laufey út útgáfu með fjórum nýjum lögum, sem hún samdi um það leyti sem platan var að koma út. Þá gefur hún einnig út smáskífu fyrir lagið Goddess.
„Goddess er heiðarlegasta lagið mitt til þessa. Ég samdi það einsömul við píanóið þar sem mér leið eins og einhverjum sem hefði orðið ástfanginn af þeirri útgáfu af mér sem þeir sáu á sviði, aðeins til að sjá að ég var ekki sú sama þegar ég kom niður af sviðinu,“ sagði Laufey í tilefni útgáfunnar. „Þegar glamúrinn vék var ég ekki þessi skínandi hlutur, heldur aðeins skinn og bein.“
Laufey er núna á tónleikaferðalagi í Evrópu til að fylgja eftir plötunni. Hún heldur þrenna tónleika í Hörpu um helgina.