Í viðtalinu er farið um víðan völl og ræðir Murad meðal annars um tilfinningarnar sem fylgdu því að taka þátt í keppninni og vera jafn nálægt sigri og raun bar vitni.
Bashar segir að fjölskylda hans heima í Palestínu, um 40 manns, hafi fylgst spennt með. Var gleðin eðlilega mikil þegar í ljós kom að hann væri annar af tveimur efstu keppendunum. Vonbrigðin leyndu sér þó ekki þegar nafn sigurvegara einvígisins var lesið upp.
„Eftir á voru allir svo miður sín og grátandi. Þetta var of gott til að vera satt, ég var einu skrefi frá því að komast á alþjóðlegt svið, alþjóðlegan vettvang sem er svo valdamikill.“
Í viðtalinu kemur Bashar líka inn á umræðuna í samfélaginu sem hefur verið um hann.
„Ég hef verið svolítið afmennskaður,“ segir hann en Bashar hefur meðal annars verið kallaður hryðjuverkamaður. Segir Bashar að það sé speglun á viðkomandi að nota slíkan merkimiða. „Ég veit hver ég er,“ segir hann.
Umræðan hefur þó ekki farið framhjá honum og í viðtalinu við Heimildina kveðst hann lesa nær allt sem sagt er um hann. „Næstum því. Ég vil vita, ég vil ekki lifa í tálsýn. Vegna þess að þetta orð bergmálshellir er notað mikið á Íslandi. Og ég vil ekki lifa í bergmálshelli. Ég vil vera meðvitaður um allt sem er verið að segja.“