fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

Guðmundur var pönkari en vill nú verða biskup – „Sumum fannst það pirrandi að ég skuli hafa hætt að djamma“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 31. mars 2024 09:00

Guðmundur hefur þjónað í Lindakirkju frá því hún var byggð, og reyndar áður en hún var byggð. DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Karl Brynjarsson er einn af þeim þremur sem hefur fengið flestar tilnefningar til embættis biskups Íslands. Þessi hógværi Suðurnesjamaður hefur ekki alltaf gengið á guðs vegum og um tíma tók hann biblíutextann full bókstaflega. En hann er ekki hræddur við að endurskoða sjálfan sig og verða farvegur fyrir gott fólk að vinna góð verk innan kirkjunnar.

Við hittum séra Guðmund fyrir í Lindakirkju í Kópavogi, þar sem hann hefur þjónað í rúm tuttugu ár. Hann tekur á móti okkur með Marvin, sjö vetra vinalegum rakka og leiðir okkur um kirkjuna.

Lindakirkja er ein af nýjustu kirkjum landsins, byggð árið 2008 og margt er enn þá óunnið. Þetta er  verk í vinnslu og stöðugum breytingum. Inni í kapellunni er altarið hrátt vinnuborð frá Ístak með prjónuðum dúk, og í inni í kirkjunni standa endurnýttir bekkir úr Keflavíkurkirkju ásamt stólum úr gamla félagsheimilinu í Kópavogi. Altaristöfluna vantar en Guðmundur segir að stefnan sé sett á að koma fyrir skjá eða myndvarpa, lifandi altaristöflu.

Guðmundur hefur þjónað hérna frá upphafi, reyndar áður en kirkjan var byggð, en þá hafði hann aðsetur í litlu timburhúsi og messurnar fóru fram í húsnæði Lindaskóla.

„Áherslan hefur verið á að byggja upp starfið. Bygging kirkjunnar hefur auðvitað liðið fyrir það að einhverju leyti,“ segir Guðmundur. Steinsteypan skiptir okkur minna máli en fólkið en Lindasókn er í dag á meðal þeirra þriggja fjölmennustu á landinu. Hún telur um 15 þúsund sálir og hefur fleiri fermingarbörn en nokkur önnur.

Pönkari í Keflavík

Guðmundur er 58 ára gamall, fæddur árið 1966 í Keflavík. Hann er yngstur af þremur börnum hjónanna Brynjars Vilmundarsonar og Kristínar Guðrúnar Torfadóttur og eini sonurinn, fordekraður vitaskuld.

Faðir hans rak fiskverkun, útgerð og hrossaræktarbú og öll fjölskyldan starfaði í fiskinum. Guðmundur segir það hafa verið gott að alast upp í Keflavík á þessum árum og sem barn var hann ljúfur sem lamb.

Guðmundur söng með pönkbandinu Vébandinu í Keflavík. DV/KSJ

En allt breyttist þegar hann komst á unglingsárin. Þá gerðist hann anarkisti og pönkari. Þetta var árunum upp úr 1980 þegar pönkbylgjan var allsráðandi á Íslandi. Guðmundur var söngvari í pönksveit í Keflavík sem kallaðist Vébandið.

„Þetta þótti nú ekki smart nafn á pönkhljómsveit. Við spiluðum einu sinni á Hótel Borg með Purrki Pillnikk og fleirum. Þeir treystu ekki hljómsveit með þessu nafni þannig að við urðum að senda þeim hljóðupptöku til að sýna þeim að við værum alvöru pönkband,“ segir Guðmundur og skellir upp úr.

„Við gátum ekki farið í stúdíó, sem var heilmikið batterí á þeim árum, en við áttum kasettutæki sem við tókum upp á. Þetta hljómaði allt hrikalega illa þangað til við áttuðum okkur á því að hljóðið kom best út ef ég lægi á bakinu með hausinn inn í bassatrommunni,“ segir hann. „ En ég var alveg tvo þrjá daga að jafna mig í hausnum eftir það.“

Reiður og réði ekki við neysluna

Guðmundur gekk í Fjölbrautaskólann í Keflavík en félagslífið skipti hann meira máli en námið. Hann skrifaði í skólablöðin og sá fyrir sér að verða blaðamaður og starfa á fjölmiðlum eða við kvikmyndagerð í framtíðinni. En mikill tími fór líka í djammið.

„Það voru ákveðnar kringumstæður sem urðu til þess að ég áttaði mig á því að ég réði ekkert við þetta,“ segir Guðmundur.

„Ég var reiður ungur maður, að segja má byltingarmaður án málstaðar. Ég horfði á heiminn með mínus fyrir framan,“ segir Guðmundur. Honum voru kenndar bænir í æsku en önnur trúarinnræting var ekki á heimilinu en engu að síður var hann í mikilli uppreisn gegn trúnni.

„Ég var guðsafneitari og Jesús fór sérstaklega í taugarnar á mér. Það er vegna þess að Jesús er svo afgerandi persóna að þú verður að taka afstöðu til hans. Svona gekk þetta í nokkur ár.

„Það var ekki fyrr en ég fann að ég var ekki lengur við stjórnvölinn, að ég réði ekki við eigin neyslu, að það opnaðist leið að trúnni,“ segir Guðmundur. „Allt í einu var ég orðinn opinn og leitandi. Rosalega eirðarlaus. Ég fann að ekkert var að ganga upp hjá mér.“

Eftir margra ára eirðarleysi fann Guðmundur loks svarið hjá vinkonu móður sinnar. DV/KSJ

Guðmundur var þá orðinn rúmlega tvítugur að aldri. Svarið sem hann var að leita að kom úr óvæntri átt.

 „Einn daginn var ég í eldhúsinu heima og vinkona mömmu var þar í heimsókn. Ég heyrði hana segja að hún væri nú ekki mjög kirkjurækin kona en hún endaði  hvern dag á að þakka guði fyrir allt sem hún hefði að þakka fyrir.“ Ákvað Guðmundur að slá til og prófa að gera slíkt hið sama. „Þetta var eins og að stilla gamalt útvarp og allt í einu finna réttu tíðnina. Ég fann að bænin skapaði frið í hjartanu mínu og það opnaðist fyrir mér að guð væri veruleiki.“

Nýr vinahópur og ný lífssýn

Umbreytingin á Guðmundi sem persónu var gríðarlega mikil. Hann viðurkennir að hafa verið of ákafur á köflum.

„Á vissu tímabili var ég alltaf prédikandi yfir fólki. Mér lá mikið á hjarta enda hafði ég orðið fyrir mikilli uppljómun sem mér fannst skipta öllu máli að deila með öðrum. En kappinu fylgdi ekki alltaf forsjá hjá mér,“ segir Guðmundur og brosir.

Hvað sögðu vinirnir við þessari breytingu á þér?

„Ég eignaðist eiginlega nýjan vinahóp. Það sneri enginn við mér bakinu en við fundum að við áttum ekki lengur samleið og deildum ekki lengur sömu lífssýn. Sumum fannst það pirrandi að ég skuli hafa hætt að djamma. Svo þegar ég hætti að reykja líka þá tók steininn úr,“ segir Guðmundur. „Einn vinur minn passaði upp á að skilja eftir sígarettu eftir heima hjá mér „alveg óvart“ þegar hann kom í heimsókn.“

Ætlaði í kristniboð til Afríku

Á þessum tíma var Guðmundur kominn í ballhjómsveit með aðeins yngri strákum sem sóttu mikið í starf KFUM og K í Keflavík. Kynntu þeir hann fyrir starfinu.

„Ég hafði ekki góð áhrif á þá en þeir höfðu góðu áhrif á mig,“ segir hann. „Sumum fannst það skrýtið að ég væri að taka þátt í þessu, eldri en hinir, en þarna fann ég mig. Það hafði mikil áhrif á mig að kynnast ungu fólki sem var trúað.“

Ég var líka foringi í sumarbúðunum í Vatnaskógi fimm sumur í röð og hef verið viðloðandi það starf nánast allar götur síðan. Að starfa í Vatnaskógi hafði mjög mótandi áhrif á mig. 

Guðmundur sökkti sér í biblíulestur og hafði hug á því að fara í kristniboðastarf til Afríku. Hann flutti í eitt ár til Noregs í biblíuskóla sem rekinn er af Norska Kristniboðsambandinu. En eftir það fannst honum köllunin samt ekki nægilega skýr. Taldi hann sig þurfa að hafa guðfræðimenntun á bakinu líka og sótti hana í Háskóla Íslands.

Guðmundur kynntist einnig vel starfi kristilegu skólahreyfingarinnar, KSS og KSF. Undir lok háskólanámsins fékk hann köllunarbréf frá þeim til þess að verða svokallaður skólaprestur. Var hann vígður til þess starfs árið 1996.

Beðið fyrir stúlkunni Kamillu

Það var líka mikið að gerast í einkalífinu hjá Guðmundi á þessum árum. Hann kynntist eiginkonu sinni en hún er einmitt alin upp í kristniboðastarfinu og fædd í Eþíópíu.

„Á fyrsta fundinum sem ég fór á hjá KSS með vinum mínum í Keflavík, á sínum tíma, var sagt frá því að það hefði verið keyrt á gangandi stúlku sem héti Kamí. Þetta var mjög alvarlegt slys og mikil mildi að hún skyldi lifa það af. Á fundinum var beðið fyrir henni og henni send Biblía með árituðu korti frá okkur sem vorum á fundinum,“ segir Guðmundur.

Lindakirkja er ein af fjölmennustu sóknum landsins og telur 15 þúsund sálir. DV/KSJ

Löngu seinna kynntist Guðmundur þessari stúlku, Kamillu Hildi Gísladóttur, þegar hún fór að spyrja hann út í reynslu sína af biblíuskólanum í Noregi.

„Við byrjuðum að skrifast á og svo áttuðum við okkur á að það var eitthvað í gangi á milli okkar í þessum bréfaskriftum. Ég fór til Noregs í páskafrí og þá small þetta hjá okkur,“ segir hann.

Guðmundur og Kamilla eiga þrjú uppkomin börn, Kristínu Gyðu, Felix og Arnkell og Brynjar, og tvö barnabörn.

Alinn upp af Skagstrendingum

Eftir vígslu sá Guðmundur fyrir sér að verða skólaprestur um ókomna framtíð. Það breyttist þó sumarið 1998 þegar hann leysti prestshjónin Bjarna Karlsson og Jónu Hrönn Bolladóttur af í Landakirkju í Vestmannaeyjum.

„Þá laust því niður í mig hvað það er magnað að þjóna í kirkjunni,“ segir Guðmundur.

Skömmu seinna sótti hann um brauð í Skagastrandarprestakalli og fékk það. Hann horfir til tímans á Skagaströnd með miklum hlýhug.

„Skagstrendingar ólu mig upp sem prest og ég lít á Skagaströnd sem minn annan heimabæ,“ segir Guðmundur. Á Skagaströnd þjónaði hann þó aðeins í tæp þrjú ár, frá 1998 til 2000. Þá opnaðist gluggi í Hjallakirkju í Kópavogi. Guðmundur segir það alls ekki hafa verið auðvelda ákvörðun að sækja um þar og fara frá Skagaströnd. En mögulega kæmi sams konar tækifæri ekki aftur upp.

Guðmundur fékk stöðuna í Hjallakirkju og tveimur árum síðar sótti hann um Lindasókn, sem þá var innan umdæmis Hjallakirkju en uppbyggingin var gríðarlega hröð á þeim árum. Það var tækifæri sem hann gat ekki látið fram hjá sér fara.

Tók við sókn án kirkju

„Mér fannst þetta svo heillandi. Það var enginn til staðar til að segja við mig: Þetta hefur alltaf verið svona og þarf að vera svona áfram. Mér fannst spennandi að byggja upp eitthvað alveg frá grunni,“ segir Guðmundur.

Bendir hann á ljósmynd á veggnum af timburhúsinu sem stóð á kirkjulóðinni áður. Það var hans vinnustaður í sex ár. Eftir að kirkjan var vígð árið 2008 var aðeins lítill hluti af henni opnaður en þá var hörgull á fjármagni vegna bankahrunsins. Árið 2014 var sjálft kirkjuskipið tekið í notkun. Byggingin er hins vegar ekki enn þá fullkláruð. Vonast hann til þess að það verði innan fárra ára.

„Á fyrstu árunum voru messur haldnar innan um gráa steinveggi og fólk sat í alls konar stólum, héðan og þaðan. Það hefur myndast ótrúlega góð stemning hérna. Þetta hrun var því í raun blessun fyrir söfnuðinn. Þetta hefði orðið allt öðruvísi ef við hefðum fllutt hingað í kirkjuna með allt tilbúið og fínt,“ segir Guðmundur. „Stærsta blessunin hefur verið hversu gott fólk hefur fengist til bæði sjálfboðaliðastarfa og starfa hérna.“

Guðmundur nefnir einnig tónlistarstarfið í kirkjunni sem er orðið landsþekkt, undir stjórn Óskars Einarssonar tónlistarstjóra og Áslaugar Helgu Hálfdánardóttur djákna og kórstjóra barna og unglingagospelkórs. Guðmundur sjálfur semur einnig tónlist, spilar á gítar og ukulele og syngur. Hann sýnir okkur upptökuver sem opnað var í kjallaranum þar sem tónlistin er tekin upp.

Sálgæslan um tíma þungur baggi

Hvað er mest gefandi við þetta starf?

„Það er mjög gefandi að fá að starfa með öllu þessu góða fólki hérna. Mér finnst gaman að pæla í prédikunartextanum, útskýra hann  og túlka til nútímans, fermingarbörnin eru  frábær og skírnir skemmtilegar.“

En erfiðast?

„Erfiðustu augnablikin eru í kringum svipleg andlát, sérstaklega þegar ungt fólk fellur frá og börn,“ segir Guðmundur. „Sálgæsla reyndist mér um tíma nokkuð þungur baggi. Mér fannst að ég þyrfti að leysa úr öllum málum þeirra sem leituðu til mín í sálgæslu og þótti ég vera algjör lúser því ég hafði ekki svör á reiðum höndum við öllu. Það var mér opinberun einn daginn á námskeiði og heyrði sagt að við bærum ekki ábyrgð á velferð skjólstæðinga okkar. Við gerum eins og við getum. Þetta er einfaldur sannleikur, sem ég vissi auðvitað innst inni en fannst það ekki gilda um mig. Það var samt eins og ég væri sleginn utanundir að heyra þetta og það létti mér mjög mikið aðkomu mína að sálgæslu.“

Breytti um skoðun á hjónavígslu samkynhneigðra

Guðmundur lýsir einnig annarri opinberun sinni, sem olli því að hann breytti afstöðu sinni til giftingar samkynhneigðra. Framan af var hann mjög bókstafstrúar að því leyti að hjónaband gæti aðeins verið á milli karls og konu en það breyttist.

Guðmundur segir að endalaus fækkun í Þjóðkirkjunni geti ekki gengið. DV/KSJ

„Ég öðlaðist trúna þegar hjónavígslur samkynhneigðra voru ekkert í umræðunni. Ég kom úr íhaldssömum farvegi, til dæmis úr biblíuskólanum í Noregi.
Hann segist hafa átt í basli með þetta. „Þetta stóð alltaf í mér. Mér fannst það leiðinlegt að þurfa að vera svona stífur. En þetta var gert í einlægni og aldrei af neinum illvilja gagnvart fólki. Mér fannst það á þeim tíma einfaldlega ekki vera erindi kirkjunnar að gefa saman annað en karl og konu. En í rauninni finnst mér ég ekki þess umkominn að dæma ást fólks og hvort að guð hafi velþóknun á lífi þeirra saman.“

Hann segir að ritningin hafi opnast fyrir sér á nýjan hátt hvað þetta varðar þegar hann var að lesa dæmisöguna um þjónana sem var trúað fyrir talentunum.

„Húsbóndinn sem fer að heiman táknar guð, hann  treystir þjónum sínum fyrir talentum sínum en ein talenta var mikils virði, í raun fjársjóður.  Tveir þjónanna náðu að tvöfalda það sem þeim var trúað fyrir meðan húsbóndinn var í burtu en einn þjónninn gróf talentuna í jörðu á öruggum stað og skilaði henni jafnstórri til baka. Og ég hugsaði: Hvað í ósköpunum tákna talenturnar, fjársjóðirnir? Þær hljóta að tákna kærleika guðs sem okkur er gefinn, okkur er trúað fyrir. Ergo – Tveir þjónanna létu kærleikann njóta vafans og tvöfölduðu það sem þeim var trúað fyrir en þessi eini óttaðist reiði húsbóndans ef honum mistækist og gróf talentuna eða öllu heldur kærleikann sem honum var trúað fyrir í jörðu. Þá var eins og sagt væri við mig: Hvaða þjónn af þessum þremur ert þú gagnvart samkynhneigðum? Og þá breyttist eitthvað í hjarta mínu.“ segir Guðmundur.

Ekki valdsækinn

Guðmundur er einn þeirra þriggja presta sem hlutu flestar tilnefningar til að verða biskup Íslands. En hann hafði verið orðaður við embættið síðan í desember á síðasta ári.

„Ég hef ekki lagt sérstaka áherslu á að vera alltaf í fararbroddi sjálfur, frekar að vera farvegur fyrir starfið. Að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum og leyfa fólki að blómstra í kringum mig,“ segir hann aðspurður um hvers vegna hann gefi kost á sér í þessa æðstu stöðu Þjóðkirkjunnar. „Ég tel mig geta gert gagn.“

Að sögn Guðmundar er ógrynni af hæfileikafólki innan Þjóðkirkjunnar sem hann langar til að starfa með. Einnig telur hann að kirkjan hafi ekki náð að sýna sitt rétta andlit í fjölmiðlum á undanförnum misserum.

„Umræðan um Þjóðkirkjuna hefur verið mjög lengi frekar á neikvæðu nótunum en jákvæðu,“ segir hann. „Fólk sem sækir þjónustu kirkjunnar, til dæmis í barnastarfi og fólk sem deilir með okkur sínum dýpstu tilfinningum, finnur frið og gleði og elskar kirkjuna sína en ásýndin út á við er einhvern veginn allt önnur. Við þurfum að miðla réttri ásýnd kirkjunnar.“

Stöðug fækkun gengur ekki

Aðspurður um fækkunina í Þjóðkirkjunni, hvort hægt sé að snúa henni við og hvort það sé sérstakt markmið telur Guðmundur að svo verði að vera.

„Það á alltaf að vera markmið kirkjunnar að laða fólk til Jesú. Ef hægt er að snúa þróuninni við er það stórkostlegt og það er allt hægt,“ segir hann. „Endalaus fækkun gengur ekki upp. Ég vil að Þjóðkirkjan haldi áfram að þjóna öllu fólki, standi á traustum trúargrunni en sé um leið nútímaleg og opin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gerard Butler ofkældist við tökur á Íslandi

Gerard Butler ofkældist við tökur á Íslandi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjasta vendingin í stóra Hollywood-dramanu – Disney dregið inn í málið út af þessari persónu í Deadpool-myndinni

Nýjasta vendingin í stóra Hollywood-dramanu – Disney dregið inn í málið út af þessari persónu í Deadpool-myndinni