Söngkonan Lizzo hefur lýst því yfir að hún ætli að hætta í tónlistarbransanum og draga sig alfarið úr sviðsljósinu, til að mynda með því að hætta á samfélagsmiðlum. „Mér líður eins og heimurinn vilji ekki að ég sé þátttakandi í honum,“ segir Lizzo í færslu á Instagram-síðu sinni.
Í ágúst í fyrra stigu þrír fyrrverandi dansarar söngkonunnar fram og sökuðu hana um kynferðislega áreitni, þyngdarsmánun og fyrir að skapa fjandsamlegt vinnuumhverfi og var í kjölfarið höfðað mál gegn Lizzo fyrir dómstól í Los Angeles í Kaliforníu. Sjálf hefur Lizzo lýst sakleysi sínu yfir og að hún sé fórnarlamb lyga og blekkinga.
Málið hefur ekki enn verið tekið fyrir en haft mikil áhrif á orðspor söngkonunnar. Í vikunni var þó tilkynnt að hún myndi stíga á stokk á stórum á góðgerðartónleikum en við það gusu upp mótmæli sem lögfræðingur dansaranna kom af stað.
Má leiða að því líkum að þetta hafi verið kornið sem fyllti mælinn hjá söngkonunni en hún hefur reglulega greint frá því að hún hafi verið skotspónn brandara og stríðni út af útliti sínu. „Ég skráði mig ekki í þetta, ég er hætt,“ segir Lizzo í áðurnefndri færslu.