fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Árni Pétur segir að bandarískir ferðamenn séu orðnir mikið erfiðari – Þetta er ástæðan

Fókus
Þriðjudaginn 26. mars 2024 09:07

Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Pétur Guðjónsson leikari segir lífið hafa kennt sér að sjá hlutina í stóra samhenginu. Árni Pétur, sem er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar, segir að erfiðustu tímabilin í lífinu hafi á endanum reynst mesta blessunin.

„Í Búddismanum er kennt að helvíti sé bæði jákvætt og neikvætt. Maður lærir það með reynslunni að það sem maður heldur að sé slæmt í upphafi er oft mikil blessun og það sem maður heldur að sé gott fyrst er það ekki endilega. Auðvitað er hægt að marinerast á botninum, en botninn er líka staðurinn þar sem maður getur spyrnt sér upp. Þegar ég horfi til baka á líf mitt sé ég að þau tímabil þar sem mér fannst ég fastur í helvíti voru yfirleitt undanfari einhvers mjög góðs. Sérstaklega eftir að ég hætti í drykkju og dópi. Þá hafa flottustu hlutirnir í mínu lífi komið eftir mjög erfið tímabil,“ segir hann.

Sér ekki eftir því

Árni lét lífið bera sig í óvæntar áttir sem ungur maður og hefur aldrei séð eftir því.

„Ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera á árunum eftir stúdentinn og ég man þegar ég gekk með vinkonu minni upp í háskóla og hún sagðist vera að fara í sálfræði og ég sagðist bara ætla að fara með henni. En svo hitti ég bekkjasystur mína sem sagðist vera að fara til Frakklands að læra leiklist og þá vildi ég bara fara með henni þangað. Ég endaði þar og þetta var dásamlegur tími. Við vorum ekkert hrædd við framtíðina og það var allt opið einhvern veginn. Lífið gekk út á að vera til, finna ævintýri og njóta þess að vera ungur. Ég held að þetta hafi breyst mikið. Ég man eftir því hvað mér brá fyrir nokkrum árum þegar ég hitti 15 ára strák í sundi og spurði hann í hvaða menntaskóla hann sagðist ætla í. Hann sagðist langa mest í Hamrahlíðina en MR væri líklega bestur fyrir framtíðina og starfsmöguleika. Mér brá bara að sjá svona ungan mann strax orðinn hræddan við framtíðina og að hann yrði að verða eitthvað. Samfélagið okkar er orðið svo skilyrt af því að allir verði að verða eitthvað og komast upp metorðastigann alveg frá unga aldri. Mér finnst það óhugnanleg þróun,“ segir Árni, sem segir ungt fólk hafa horft talsvert öðruvísi á hlutina þegar hann var ungur.

„Það var auðvitað ákveðinn uppreisnarandi í gangi þegar ég var ungur á hippatímanum, en ég minnist hans með mikilli hlýju í hjarta. Þetta var tíminn þar sem fólk stundaði kynlíf án afleiðinga og frelsið var mikið. Ég átti stórkostleg ár þegar ég bjó í kommúnum bæði á Íslandi og annars staðar og var innan um vini mína að njóta lífsins. Við eyddum mjög litlum peningum og bjuggum mörg saman og brutumst út úr því sem hafði verið normið. Að allir ættu að fara í sama mótið og enda í einhvers konar þrælabúðum peningaaflanna og verða að vinnuþræl strax á unga aldri. Hver sagði að það væri lífið sem allir ættu að lifa?“

Var fyrir utan normið

Árni Pétur segist alltaf hafa verið talsvert fyrir utan normið og að hann hafi horft á það sem sinn styrkt í gegnum tíðina.

„Ég hef stundum sagt að það sé minn styrkur að geta gefið fingurinn og að geta brotið normið og reglurnar. Ég er bæði hommi og alkóhólisti og þannig er ég strax kominn á skjön við samfélagið. Mér hefur alltaf fundist spennandi að ögra sjálfum mér og samfélaginu í leiðinni. Hver einasta kynslóð verður að enduruppgötva hlutina og færa þá áfram. Þess vegna finnst mér svo gaman að vinna með frjálsum leikhópum og ungu fólki. Þau eru sannfærð um að það sem þau eru að gera skipti máli fyrir heiminn og það er svo fallegt,“ segir Árni Pétur, sem var orðinn saddur á tímabili, en fann svo aftur neistann.

„Ég missti metnaðinn fyrir einhverjum árum og fór á eftirlaun. Ég þurfti ekki lengur peningana og var búinn að fá þá viðurkenningu sem ég þurfti sem leikari, þannig að ég þurfti ekki lengur að sanna mig. En svo fékk ég aftur hungrið til að leika. Listamaður er alltaf með þörf fyrir að skapa eitthvað, eiginlega alveg sama hvað það er. Mér líður best ef ég er að skapa eitthvað og ef ég fæ enga útrás fyrir sköpunarþörfina byrja ég að éta sjálfan mig að innan. En ég hef stundum horft á líf mitt þannig að ég hafi komist í gegnum það án þess að vinna ærlegt handtak. Ég hef bara sungið og dansað þar til ég fór á eftirlaun.“

Gaman að vera leiðsögumaður

Árni Pétur starfaði líka sem leiðsögumaður um árabil með mjög góðum árangri og segir starfið lengst af hafa verið frábært.

„Það er dásamlegt að fá að vera með ferðamönnum sem eru komnir hingað til lands til að skemmta sér og eru þar af leiðandi alltaf að sýna sínar bestu hliðar. Upp til hópa er það mjög skemmtilegur þverskurður af fólki sem kemur hingað til lands. Ekki fólk sem lætur vont veður slá sig út af laginu og fólk sem vill ævintýri. Starf leiðsögumanns er fullkomlega sniðið fyrir leikara. Ég virkilega naut þess að vera leiðsögumaður, en svo varð einhver breyting fyrir einhverjum árum og hóparnir sem komu urðu erfiðari, sérstaklega Bandaríkjamennirnir,“ segir Árni Pétur, sem segist eiginlega vilja kenna Donald Trump um þessa breytingu.

„Ég vil kenna Trump um þetta. Hann gaf einhvern vegin skotleyfi á það að fólk færi að vera með almenn leiðindi. Það voru kannski einn eða tveir „Trumparar“ í hópnum og þeir náðu einhvern vegin að smita út frá sér og gera stemmninguna leiðinlega. Þessi ömurlega skautun og pólarisering hefur smitað mikið út frá sér og hefur haft áhrif á allt saman.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Árna Pétur og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“