Er eitthvað í þessum heimi betra, á jafn gráum og óspennandi föstudegi, heldur en góð samsæriskenning? Líklega ekki. Þá er um að gera að hlusta á félagana hlaðvarpinu Álhatturinn, sem hafa tekið að sér það óeigingjarna starf að fræða landsmenn um þær fjölbreyttu samsæriskenningar sem lagðar hafa verið fram, og er úr nægu að taka.
Að þessu sinni taka þeir félagar fyrir eina stærstu ráðgátu heimsins – Pýramídana í Egyptalandi. En í samantekt þáttarins segir:
„Pýramídarnir í Egyptalandi eru að flestra mati eitthvert merkasta byggingar- og verkfræðiafrek mannkynssögunnar og eru þeir eitt af upphaflegu sjö undrum veraldar sem enn standa í dag. Pýramídarnir í Egyptalandi eru fjölmargir og vissulega mismerkilegir og áhugaverðir en þekktastir og langumtalaðastir eru pýramídarnir þrír í Gísa. Þar sem Pýramídinn mikli í Gísa er langvinsælastur og mikilfenglegastur.
En hvernig má það vera að Egyptar hafi búið yfir svona gífurlega mikilli verkkunnáttu og skipulagi fyrir svo óralöngu síðan? Hvernig náðu Egyptar að gera Pýramídana svona nákvæmlega hornrétta og fullkomna? Má það virkilega vera að Egyptar hafi byggt hinn mikla Pýramída í Gísa á einungis 20 árum? Þrátt fyrir að í Pýramídanum mikla séu u.þ.b 2-3 miljónir steina sem eru á bilinu 2-80 tonn hver? Ef það er satt þá hefðu Egyptar þurft að hlaða á bilinu einn stein á fimm mínútna fresti allan daginn, alla daga í 20 ár samfleytt án þess að stoppa nokkurn tímann.
View this post on Instagram
Þá hafa ýmsir bent á að Egyptar hefðu einnig þurft að ferja þessa þungu steina rúmlega 800km leið að byggingarsvæðinu sem má ætla að sé heljarinnar verk og krefjist bæði gífurlegra mannafla og enn frekari verkfræði kunnáttu. Aðrir hafa einnig bent á að varla séu til nægilega sterkir byggingarkranar í dag til þess að lyfta svo þungum steinum og jafnvel ef þeir kranar væru til þá væru ef til vill ekki til neinir vírar eða kaplar sem réðu við þungann. Hvernig má þá vera að slík tækni og kunnátta hafi verið til fyrir mörg ár þúsundum síðan?
Getur mögulega verið að sögubækurnar séu einfaldlega að ljúga að okkur? Og er þá vísvitandi verið að ljúga að okkur í einhverjum annarlegum tilgangi eða hafa sagnfræðingar og fornleifafræðingar einfaldlega rangt fyrir sér af því að þau vita ekki betur?
Þetta og svo margt, margt fleira í þessum fyrri þætti af tveimur þar sem vinirnir Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór velta því fyrir sér hvort að sögubækurnar séu mögulega að ljúga að okkur um pýramídana í Egyptalandi. Málsmetandi aðili þáttarins er Ólafur Jóhann Sigurðsson séntilmaður, lífskúnstner og „næstum því fornleifafræðingur“.“