Dögg Guðmundsdóttir meistaranemi í klínískri næringarfræði hefur ritað grein sem birt er á Vísi en í greininni færir hún rök fyrir því að hið sívinsæla Ketó mataræði sé ekki heppileg lausn.
Í meginatriðum gengur þetta mataræði út á lága inntöku kolvetna og þeim mun meiri neyslu próteins og fitu. Helsta markmiðið er þyngdartap sem næst oftast í upphafi en Dögg segir málið ekki svo einfalt:
„Þyngdartapinu fylgir í langflestum tilfellum þyngdaraukning aftur. Bætt heilsa, aukinn skýrleiki, meiri orka, jafnvægi á hormónastarfsemina og fleiri fullyrðingar hafa einnig verið notaðar til að dásama kosti mataræðisins. Einnig hafa sumir talað um að mataræðið sé góð forvörn gegn krabbameinum og sykursýki 2, líkt og önnur mataræði og kúrar hafa lofað.“
Dögg segir að Ketó byggi á því að 60-70 prósent af allri inntöku sé fita, prótein eigi að vera 15-30 prósent en kolvetnaneysla eigi ekki að fara umfram 50 grömm en hún segir einn banana og eina brauðsneið innihalda um 40 grömm kolvetna.
Dögg segir að sýnt hafi verið fram á með rannsóknum að einstaklingar á ketó séu ekki líklegri til að haldast á mataræðinu en á öðrum mataræðum eða kúrum. Sú krafa sem mataræðið leggi á herðar fólks að fylgjast náið með kolvetnainntöku sinni geti orsakað hræðslu í garð kolvetna og ýtt undir óheilbrigt samband við mat.
Dögg segir að Ketó mataræðinu geti fylgt aukaverkanir eins og hægðatregða og/eða niðurgangur, vöðvakrampar, hausverkur, vítamínskortur, andremma og auknar líkur á nýrnasteinum.
Hún segir að samkvæmt rannsóknum sé mataræði eins og ketó, þar sem mikil áhersla sé lögð á þyngdartap, án annarra inngripa séu ekki líkleg til að viðhaldast til lengri tíma.
Eftir 12 mánuði sé þyngdartap fólks á kolvetnaríku mataræði og ketó sambærilegt. Þyngdartap á ketó sé hratt í fyrstu en líklegra sé að það sé vegna vökvataps.
Dögg segir að á meðan einstaklingur sé á ketó virðist vera lítil aukning á hormóninu grehlin sem sé oftast kallað hungurhormónið. Þegar hefðbundin neysla á mat hefjist aftur aukist myndun grehlin aftur og einstaklingurinn finni þá fyrir meiri svengd en áður og hætta aukist þá á því að viðkomandi leiti í næringarsnauðari orkugjafa og þyngist aftur.
Dögg segir að með þeirri miklu fituneyslu sem fylgir ketó geti einnig fylgt hækkun á slæmu LDL kólesteróli. Kólesteról sé nauðsynlegt í líkamanum en of mikið af slæma kólesterólinu geti orsakað stíflu í slagæðum og leitt til blóðtappa sem geti valdið heilablóðfalli eða hjartaáfalli.
Trefjaneysla geti lækkað kólesteról en almennar ráðleggingar um hæfilegt magn trefjaneyslu séu nær ógerlegar á ketó. Trefjaneysla dragi meðal annars úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki og ákveðnum krabbameinum.
Hún segir að Ketó mataræðið geti einnig aukið hættu á skorti á vítamínum og steinefnum sem séu að finna í grænmeti, ávöxtum og heilkornum.
Dögg segir að minnkandi kílófjöldi, sem er helsta markmiðið með ketó, sé ekki endilega merki um bætta heilsu:
„Það sem meira máli skiptir er með bættu fæðuvali og venjum fylgir oftar en ekki meiri orka, betri líðan og aukin einbeiting. Auk heilbrigðari þarmaflóru og öflugara ónæmiskerfi, lækkar LDL kólesteról og dregur úr lífstílstengdum sjúkdómum, segir Dögg að lokum.“
Grein Daggar í heild sinni er hægt að nálgast hér.