Samkvæmt ID mun þáttaröðin „afhjúpa eitrað og hættulega menningu á bak við nokkra af frægustu barnasjónvarpsþáttum á árunum 1990 til 2010.“
Fjallað er um vinsælu krakkastöðina Nickelodeon og þættina sem voru í loftinu á umræddu tímabili. Á þeim tíma vann framleiðandinn Dan Schneider að mörgum þáttum hjá Nickelodeon, eins og All That, The Amanda Show, Zoey 101, iCarly og Victorious. Hann var kallaður „gulldrengur“ Nickelodeon.
„Í 20 ár mótaði hann afþreyingu og menningu fyrir börn. En það markaði einnig einn svartasta kafla bransans,“ kemur fram í stiklunni.
Síðastliðinn áratug hafa komið upp ásakanir um „misnotkun, kynjamismunun, kynþáttafordóma og óviðeigandi sambönd leikara undir aldri og starfsmanna á tökustað.“ Og verða þær ásakanir reifaðar í þáttaröðinni.
Rætt er við fyrrverandi barnastjörnur, eins og Giovonnie Samuels, Kyle Sullivan og Alexa Nikoals, í þáttaröðinni sem lýsa því sem átti sér stað á bak við luktar dyr. Einnig er rætt við fyrrverandi starfsmenn stöðvarinnar sem komu að framleiðslu þáttanna, eins og handritshöfunda sem lýsa hrottalegu vinnumhverfi.
„Að vinna fyrir Dan var eins og að vera í ofbeldissambandi. Hegðun hans gagnvart starfsmönnum sínum var eins og leyndarmál sem allir vissu,“ segir einn fyrrverandi starfsmaður.
Þrír barnaníðingar unnu fyrir Nickelodeon á stuttum tíma. „Ég hafði ekki hugmynd um það sem ég var að bjarga syni mínum frá. Þetta var hryllingshús,“ segir móðir fyrrverandi barnastjörnu.
Horfðu á stikluna hér að neðan.
Dan Schneider var látinn fara frá Nickelodeon árið 2018 þegar sögur um óviðeigandi og hrottafengna hegðun hans voru orðnar svo háværar að ekki var hægt að hunsa þær. Elva Björk Ágústsdóttir, sálfræðikennari og umsjónarkona Poppsálarinnar, skrifaði um Schneider og meint tásublæti hans árið 2021:
„Dan Schneider var einn vinsælasti og farsælasti framleiðandinn hjá Nickelodeon í mörg ár […] Ógeðfelldar kenningar um kynferðislegan áhuga hans á tám og hvernig hann nýtti börnin sem léku í þáttum hans til að fullnægja tásublæti sínu, hafa lengi verið á kreiki. Í þáttunum má sjá ófá atriði þar sem tær koma við sögu og er kynferðislegur undirtónn í mörgum atriðum í þáttum hans. Til að mynda má sjá þegar börnin kreista tómatsósu yfir tærnar sínar, reyna að sleikja og bíta eigin tær og binda samleikara sína fasta til að fikta í tám þeirra. Einnig hafa nokkrir einstaklingar stigið fram og sagt frá sérkennilegri reynslu sinni af því að mæta í áheyrnarprufur til Dan Schneider. Þar áttu börnin að ganga um gólf á tánum og lýsa tilfinningunni fyrir framleiðandanum.“