Fjölmargir útlendingar eru búsettir á Íslandi sem svokallaðir expats, sem er enskt orð sem notað er yfir þá einstaklinga sem eru búsettir eða starfandi í öðru landi en þeir hafa ríkisborgararétt í. Þetta er gjarnan tímabundið og tengist atvinnutækifærum.
Fimm slíkir einstaklingar hér á landi hafa nú deilt með Business Insider helstu áskorunum sem þeim mættu hér á landi.
Flestir viðmælenda miðilsins sögðu erfitt að venjast því hvað nóttin er löng á veturna og dagurinn langur á sumrinn.
„Mér finnst þetta enn mjög erfitt á sumrin,“ sagði Shruthi Basappa, sem flutti frá Barcellona til Íslands fyrir 11 árum. „Það er alltaf erfitt að sofa. Og á veturna er alltaf erfitt að halda sér vakandi.“
Bandaríkjakonan Jewells Chambers flutti hingað fyrir þremur árum og segir að til að byrja með hafi hún óttast veturinn og Bretinn Sonia Nicolson sem hefur búið hér í átta ár mælir með því að fólk hreinlega leggist í dvala og hafi það notalegt í myrkrinu.
Þau nefndu einnig að það sé erfitt á sumrin að átta sig á tíma dags, hvenær rétt sé að koma sér í ró og jafnvel hvenær tími er kominn á kvöldmatinn. Þau mæla með því að sofa með andlitsgrímu og að kaupa myrkvunargluggatjöld.
Þau segja erfitt að venjast því hversu dýr matur er á Íslandi, en einnig nefna þau að hér sé erfitt að fá ferskar matvörur, þá sérstaklega græntmeti og ávexti.
Jeannie Riley flutti frá Texas til Íslands árið 2016 og segist ekki geta eldað sumar uppskriftir sem hún hafi notað í heimalandinu hér á landi þar sem hún hreinlega geti ekki keypt hráefnin.
„Þú getur ekki fengið góð avocado á Íslandi. Það er jafn ólíklegt og að vinna í lottó. Ávextir eru virkilega dýrir og mygla hratt.“
Sem betur fer hafi úrvalið aukist undanfarin ár, en Kanadakonan Alice Olivia Clarke flutti til Íslands fyrir 30 árum, en þá hafi ekki einu sinni verið hægt að panta heimsenda pitsu.
Chambers segir að meginreglan á Íslandi sé sú að fólk fer ferða sinna í einkabíl. Basappa segir að þegar hún kom fyrst til landsins hafi hún til að byrja með ekki séð hversu hörmulegar almenningssamgöngurnar eru hér. Hún taldi sig geta farið flestar ferðir sínar fótgangandi, en eftir fyrsta veturinn áttaði hún sig á því að hér þyrfti hún að eiga bíl.
Hér séu engar lestir, strætisvagnar séu seinlegir, dýrir og ferðirnar of fáar. Chambers mælir gegn því að ferðamenn ferðist um landið í strætó og varar við því að leigubílar eru óeðlilega dýrir.
Riley segir það erfiðasta við að flytja til Íslands sé að kynnast fólkinu og eignast vini.
„Þér finnst þú aldrei hafa aðlagast samfélaginu. Íslendingar eru frekar lokaðir og eru ekki að fara að víkja sér að þér til að spjalla um daginn og veginn.“
Nicolson segir marga Íslendinga enn eiga í nánum vinskap við félaga sína úr skólum og oft virðist sem svo að þeir hafi hvorki þörf né vilja til að stækka vinahópinn.
Expatarnir segjast í staðinn hafa nýtt sér hópa fyrir fólk í sömu stöðu og þau í gegnum Facebook svo dæmi séu tekin, en Facebook sé í raun yfirhöfðingi Íslendinga.
„Ég held að ferðamannastraumurinn hafi verið dásamlegur fyrir Ísland. Lífsgæðin okkar urðu mun betri með fjölgun ferðamanna. Göturnar eru líflegri, það eru töluð fleiri tungumál á götum úti og veitingastaðir eru farnir að bjóða upp á betra úrval af mat,“ segir Basappa og bætir við að áhrifin á efnahaginn hafi eins verið góð.
Nú sé þó komið bakslags og andúð geng ferðamönnum sé að aukast. Þetta byggi á ótta við að íslensk arfleifð sé í hættu, sem dæmi tungumálið. Sumir ferðamenn gangi illa um náttúruna og á Laugaveginum hafi venjulegar verslanir flestar vikið fyrir lunda-búðum. Clarke segir erfitt að fylgjast með þeirri þróun. Eins séu margar íbúðir gerðar út á Airbnb sem hafi gert að verkum að erfitt sé að finna húsnæði í langtímaleigu, leiguverð hafi sömuleiðis hækkað og húsnæðisverð líka.
Þrátt fyrir þetta segja expatarnir að Ísland hafi sigrað hjarta þeirra, þá einkum náttúran sem sé ólýsanlega falleg. Eins sé heillandi að Ísland er almennt öruggt land í samanburði við aðrar þjóðir og hér sé rekið velferðar- og menntakerfi sem sé ekki einkavætt og dýrt.
„Allt virðist bara svo einfalt á Íslandi,“ segir Riley. Chambers segir að hér upplifi hún ró, eftir allt áreitið í Brooklyn. Nicolson segir ótrúlega staðreynd að hér geti börn gengið alein í skólann, jafnvel í miðborginni, og svo leikið sér úti á götu. Það sé lífsins lukka að slíkt sé mögulegt.