Hlustaðu á Spotify, Apple Podcasts eða hlaðvarpsveitu Google.
Nína fæddist á Akureyri og bjó þar fyrstu æviárin en flutti með pabba sínum í Grafarvoginn um sjö ára aldur.
„Það voru svolítil viðbrigði, eins og þeir sem þekkja umrætt þorp á Akureyri þá er þetta mjög gróið hverfi en síðan kemur maður í nýbyggt Rimahverfi, það var ekki búið að tyrfa lóðir eða neitt […] Það var svolítið högg en ég er búin að sættast við Grafarvoginn í dag.“
Þó Nína hafi að lokum tekið Grafarvoginn í sátt býr hún nú í Vesturbænum ásamt fjölskyldu sinni og nýtur sín þar vel.
Á þessum tíma, um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, var ekki algengt að feður væru einstæðir með börn.
„Ég er einkadóttir hans pabba og á tvær hálfsystur. Við pabbi bjuggum þarna tvö og þetta var frekar sérstakt. Ég átti vinkonur sem máttu ekki koma heim til mín því það var einstæður faðir, fólki þótti þetta svo skrýtið, það skildi þetta ekki,“ segir hún.
„Pabbi er úr sveit, úr Bárðardal, og uppeldið einkenndist svolítið af því. Þarna var maður í nýju hlutverki að fóta sig.“
Nína fæddist með skarð í vör og þurfti að gangast undir margar aðgerðir sem barn og unglingur. Hún var lögð í einelti í grunnskóla og ekki hjálpuðu viðbrögð fullorðinna henni.
„Viðkvæðið var rosa oft eitthvað svona: „Þegar það er búið að fara með þig í aðgerð þá munu krakkarnir hætta. Þegar það er búið að laga þig. Þegar þú ert komin inn í ríkisstaðalinn þá verðurðu í lagi.“ En það er náttúrlega ekkert þannig og einelti er samfélagslegt fyrirbæri sem þrífst í öllum kimum samfélagsins og það að einhver sé lagður í einelti er ekki vegna þess að hann lítur út á ákveðinn hátt.
Það hefði kannski þurft að vera aðeins þroskaðri nálgun á þetta allt saman, en á sama tíma veit ég að fólk var að gera sitt besta en það er mikilvægt að halda umræðunni á lofti því ég var ekki síðasta barnið sem var lagt í einelti á þessu landi og þetta eru vandamál sem eru alls staðar, líka hjá fullorðnu fólki.“
Nína man það vel að hafa fengið síendurtekið þau skilaboð frá samfélaginu að útlit hennar væri mikilvægara en nokkuð annað. Hún var reglulega tekin úr skóla til að fara í aðgerðir og man vel eftir því að hafa þurft að missa af lokaprófum í tíunda bekk til að gangast undir enn aðra aðgerðina. Hún vill sjá að betra verði gripið utan um börn sem fæðast með sýnilegan fæðingargalla og sálarlíf þeirra.
„Að vera að fara í aðgerð sem í fyrsta lagi tekur toll líkamlega og í öðru lagi, af hverju þarf að laga mig og þá hvernig og hverju ræð ég. Af hverju er ég að sleppa því að taka lokapróf í tíunda bekk og það bitnar á námsárangrinum mínum og hefur áhrif á hvaða framhaldsskóla ég kemst í því ég þurfti að fara í aðgerð til að laga einhverja misfellu í nefinu á mér. Hvað er þetta?!“
Nína fékk engu um það ráðið hvenær hún færi í aðgerð. „Bara það er laus tími hér og þú verður að fara hér. Því einhver uppi hérna segir að þú megir ekki líta svona út og það þarf að laga þig. Þá er líka verið að segja þér að útlit þitt skiptir meira máli en menntun þín.“
Þetta hafði mikil áhrif á sjálfsmynd Nínu sem leit lengi á sjálfa sig sem gallaða vöru.
„Mér fannst ég þurfa að bæta upp fyrir það með því að verða afburðamanneskja á öðrum sviðum.“
Nína var næst efst í árganginum þegar hún útskrifaðist úr grunnskóla og var með mikinn akademískan metnað og langaði að verða lögfræðingur. Hún fór í framhaldsskóla en var á sama tíma flutt að heiman, var að leigja íbúð og átti erfitt með að ná endum saman.
„Þetta var rosalega erfitt, það voru fjárhagsáhyggjur sem eiginlega komu rosalega oft í veg fyrir það að ég gæti klárað framhaldsskólanám. Á þessum tíma var umræðan um ójöfn tækifæri engin. Mér fannst allt vera á móti mér,“ segir Nína.
„Síðan greindist systir mín með krabbamein og þetta var áfall sem ég kunni ekki á. Það er enginn sem réttir manni bækling þegar maður fæðist um hvað maður á að gera þegar maður missir ástvin, sérstaklega ekki á þessum tíma.
Systir mín fékk krabbamein og dó 29 ára gömul. Ég var nítján ára og mér leið eins og mér hefði verið hent fram af hengiflugi. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera eða hvernig mér átti að líða. Ég var að rúlla fram og til baka í nokkur ár á eftir, fann ekki tilfinningalegt jafnvægi.“
Á þeim tíma sem Nína var á sveimi í leit að fótfestu flutti hún til Spánar um stund og er kannski besta lýsingin á því martraðakennt ævintýri. Hún segir nánar frá því í þættinum. Eftir að hún kom heim frá Spáni skráði Nína sig í kokkanám en eftir fyrstu önnina tóku vinir hennar hana á tal og sögðu henni að hætta þessari vitleysu og horfast í augu við að hún hataði námið. Nína gekkst við því og segist mjög þakklát fyrir vini sína sem eru hrottalega hreinskilnir þegar hún þarf á því að halda.
Næst fór hún í handritagerð og leikstjórn í Kvikmyndaskóla Íslands. „Þá var ég komin nær því sem var mín hilla. Mig langaði alltaf að skrifa og það var alltaf eitthvað sem ég hafði brunnið fyrir.“
Nína mun aldrei gleyma athugasemd gests í útskriftarveislu hennar, en aðilinn sagði við hana: „Já, flott hjá þér að byrja á svona léttu námi. En hvenær ætlar þú í alvöru nám?“
Í dag veit Nína að námið sem hún var þarna nýbúin að ljúka er alvöru nám og hún dáist að fólki sem hefur stundað það, en á þessum tíma var hún áhrifagjörn og vildi sanna sig. Hún skráði sig í sagnfræði við Háskóla Íslands. Í náminu kynntist hún eiginmanni sínum og fögnuðu þau nýverið ellefu ára sambandsafmæli. Hvorugt er reyndar sagnfræðingur í dag.
Metnaðinn hefur Nínu aldrei skort og lagði hún sig alltaf hundrað og fimmtíu prósent fram, ef ekki meira. Með árunum jókst álagið og endaði hún á spítala í lífshættulegri kulnun með alvarlega blóðeitrun. Þetta var þriðja innlögnin hennar á spítala og um tíma var ekki vitað hvort lyfin myndu virka. Þarna sá Nína allt í einu að það væri möguleiki að hún færi ekki heim aftur, myndi kannski ekki sjá börnin sín aftur.
Horfðu á þáttinn með Nínu hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.
Fylgstu með Nínu Richter á Instagram.