Svava Kristín er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV.
Horfðu á brot úr þættinum hér að neðan eða horfðu á hann í heild sinni hér. Þú getur einnig hlustað á Spotify.
Svava Kristín er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og spilaði með ÍBV. Hún rifjar upp slysið.
„Ég var að fara að skamma bróður minn, sá yngsti kom grátandi alveg brjálaður yfir því að miðjubróðirinn var að stríða honum og ég ætlaði að drífa mig niður og datt. Það var svona bráðabirgðastigi heima, en við vorum tiltölulega nýflutt í annað húsnæði og ég datt á milli hæða og rankaði við mér þar sem öll fjölskyldan var þarna yfir mér. Eftir það náði ég ekkert að koma til baka, bakið fór í hakk,“ segir hún.
„Það er eitt af því sem ég hef þurft að takast á við í minni sjálfsvinnu, að komast yfir að þetta hafi gerst, og það er allt í góðu. En það var vissulega ógeðslega erfitt að þurfa að hætta í íþróttum og ég átti mjög erfitt með það á þessum tíma.“
Svava Kristín var mjög efnileg, bæði í handbolta og fótbolta, og finnst erfitt að hugsa til þess að hún hafi þurft að hætta. Hún veltir því fyrir sér hvort þetta hefði farið öðruvísi hefði þetta gerst árum seinna.
„Ef þetta hefði gerst nokkrum árum síðar þá hefði ÍBV eða þjálfarar eða eitthvað viljað halda utan um efnilegan leikmann og passað að ég færi í sjúkraþjálfun og sjá til þess að þetta gerist og eitthvað svoleiðis, en það var ekkert á þessum árum og það er ekki við neinn að sakast nema auðvitað sjálfa mig að hafa ekki sinnt þessu betur. En verandi þarna 15-16 ára, að þurfa að fara í sjúkraþjálfun sjálf og gera þetta allt, átti enga vini í sportinu, það var rosalega auðvelt að hætta,“ segir hún.
„Þetta hefði ekki þurft að enda svona. Ég lenti ekkert í neinu sem að eyðilagði mig fyrir lífsstíð. Þetta var erfitt á þessum tíma að díla við þetta og það hefði verið gaman ef þetta hefði gerst aðeins seinna, því nokkrum árum síðar var komin akademía og miklu meira verið að pæla í yngri krökkum. Ég datt ekki á réttum tíma,“ segir Svava Kristín kímin.
Svava Kristín hefur þurft að læra að lifa með bakverkjunum en fann vel fyrir þeim þegar hún var ólétt í fyrra. „Ég var hræðileg á meðgöngunni og ég er alltaf í meðhöndlun. Ég á mjög erfitt með að komast yfir þetta. Ég er alltaf að reyna að styrkja þetta en það kemur alltaf eitthvað bakslag,“ segir hún en er þó alltaf jákvæð.
„Ég er bara fín, ég er ennþá að jafna mig eftir meðgönguna og fæðinguna og það allt. Það fór allt svolítið illa verandi veik fyrir, en nei nei, ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað.“
Hlustaðu á þáttinn á Spotify eða öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fylgdu Svövu Kristínu á Instagram.