fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fókus

Íslendingar nefna jólakvikmyndirnar sínar – „Árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 7. desember 2024 15:30

Öll eigum við okkar uppáhalds jólamynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Notaleg stund með piparkökum, konfekti og heitu súkkulaði yfir góðri bíómynd er eitthvað sem flest okkar þrá um jólin, ung sem aldin. Flest eigum við okkur líka uppáhalds jólabíómynd, mynd sem við horfum kannski á um hver einustu jól.

DV fór á stúfana og spurði fólk hvað sé þeirra jólamynd og svörin voru fjölbreytt.

 

ELF

„Mér finnst að jólamyndir megi vera svolítið kjánalegar, og Elf er svo sannarlega kjánaleg, en hún er líka að mínu mati skemmtilegasta jólamyndin. Will Ferrell er bráðfyndinn sem Buddy, maður sem var alinn upp hjá jólasveininum og álfunum á Norðurpólnum og lendir í allskonar uppátækjum þegar hann fer að leita að raunverulega pabba sínum í New York. Þetta er ein af fáum jólamyndum sem ég get horft á nokkurn veginn á hverju ári án þess að fá leið á henni, þó að ekki allir í fjölskyldunni séu á sama máli með það.“ – Kári Egilsson, tónlistarmaður.

YOU´VE GOT MAIL

„Uppáhalds jólakvikmyndin mín er You’ve Got Mail. Leikstjóri og handritshöfundur þessa meinfyndna óðs til ástarinnar, kapítalismans og internetsins er uppáhalds pistlahöfundurinn minn, Nora Ephron heitin, en hún skrifaði einnig handrit myndarinnar When Harry Met Sally, sem er skylduáhorf um áramót. Þótt You’ve Got Mail sé ekki eiginleg jólamynd er yfir henni hátíðlegur bragur, enda er hún byggð á jólamyndinni The Shop Around the Corner frá árinu 1940.“ – Sif Sigmarsdóttir, pistlahöfundur.

HOW THE GRINCH STOLE CHRISTMAS

„Þegar Trölli stal jólunum kemur með jólin til mín. Man þegar ég sá teiknimyndina um Trölla í fyrsta sinn í frábærri íslenskri þýðingu í Sjónvarpinu fyrir langa löngu á aðfangadag. Þá var ekki aftur snúið, jól án Trölla eru engin jól!“ – Viðar Eggertsson, leikstjóri.

„Í grunninn er ég nú ekki mikil jólamyndakelling..en ég elskaði Santa Clause með Tim Allen sem krakki og sá Holiday auðvitað svona þrjúþúsund sinnum sem unglingur. Í dag elska ég að horfa á Grinch með börnunum mínum.“ – Birna Pétursdóttir, leikkona.

HARRY POTTER & THE PHILOSOPHER´S STONE

„„Ekki beint jólamynd en ég segi Harry Potter og viskusteinninn. Þótt mér finnist almennt mjög ágætt að horfa á bíómyndir finnst mér ekki gaman að horfa á sömu myndina nokkrum sinnum. Ég vil bara horfa einu sinni og kannski aftur eftir tíu ár ef ég er búinn að gleyma hvernig myndin var. Harry Potter er undantekning. Ég get horft á þær aftur og aftur, þá sérstaklega fyrstu myndirnar. Myndin um viskusteininn er svo rosalega jólaleg og hún var alltaf sýnd á Stöð 2 um jólin þegar ég var lítill. Líka oft fjórða myndin um eldbikarinn en hún er líka rosa jólaleg og góð. Kvikmyndafræðingurinn og samstarfsfélagi minn Jón Þór er alltaf að reyna að fá mig til að horfa á einhverjar svona gamlar myndir, þessi kom út árið 2001 svo það hlýtur að gleðja hann. Það er auðvelt að gleðja þá elsku.“ – Bjarki Sigurðsson, fréttamaður.

HOLIDAY

„Mér finnst hún vera snilld. Það koma jól þó það gangi illa og þó það séu vandræði. Það er svo mikil ást í henni og náungakærleikur.“ – Stása Þorvaldsdóttir, sjónvarpskona.

„Af því þetta er falleg ástarsaga sem endar fallega!!!“ – Mari Jarsk, langhlaupari.

„Það eru til svo margar góðar. Mèr dettur helst í hug Home Alone sem flagship mynd frá því í gamla daga, Christmas Vacation með Chevy Chase var ótrúlega skemmtileg og svo líka The Holiday með Cameron Dias og Jude Law, ég var einmitt svo heppin að vera á settinu á þeirri mynd í Hollywood þegar hún var tekin upp.“ – Ásdís Rán Gunnarsdóttir, fyrirsæta og forsetaframbjóðandi.

LOVE ACTUALLY

„Uppáhalds jólamyndin er Love Actually. Ekki endilega vegna þess að það sé besta jólamynd allra tíma heldur hefur hún tilfinningalegt gildi fyrir mig því árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag.“ – Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur og djákni.

GREMLINS

„Ég safnaði böngsum þegar ég var barn, átti mikið bangsafjall, en enginn þeirra var eins guðdómlega krúttlegur og hann Gizmo, óræða dúlluskrímslið með eyrun upp í loft, brúnn og hvítur, mjúkur með litla bratwurstputta og sakleysisleg stór augu. Eitt af því sem ég lærði þó snemma var að það mátti knúsa hann og kúra með honum, en hann mátti alls ekki blotna eða borða eftir miðnætti. Eins og þau sem þekkja til vita, þá gæti hann fjölfaldast og breyst í skrímsli (regla sem fer reyndar aðeins á skjön við hina guðdómlegu ofneyslu sem maður lærði fljótt að tileinka sér um jólin en það er önnur saga). Síðan ég eignaðist bangsann og sá Gremlins í fyrsta sinn hefur það verið hefð hjá mér að horfa á hana á jólunum. Fáránleg mynd í alla staði, fyndin og hjartnæm og engin sena kvikmyndasögunnar hreyfir eins mikið við mér eftir allan þennan tíma og þegar Gizmo spilar á hljómborðið. HANN ER BARA SVO SÆTUR.“ – Júlía Margrét Einarsdóttir, útvarpskona.

HOME ALONE

„Af því að hún er besta mynd í heimi, betri en Shawshank Redemption, betri en Godfather, betri en Lord of the Rings og Star Wars og miklu betri en Die Hard og Love Actually og Lampoons og það allt, eina myndin sem kemst nærri henni er Home alone 2.“ – Baldur Ragnarsson, tónlistarmaður og hlaðvarpsstjórnandi.

THE HOLDOVERS

„Það var alltaf Christmas Vacation með Chevy Chase en það hefur breyst eftir að ég sá The Holdovers mynd Alexander Payne. Ljúfsár, snilldarlega skrifuð um einmanaleika, vináttu og eftirsjá. Paul Giamatti er stórbrotinn í hlutverki kennara í heimavistarskóla. Giamatti nær álíka frammistöðu og í Sideways. Annað meistaraverk Alexander Payne. The Holdovers er tiltölulega ný mynd og vantar því kannski nokkur ár í viðbót að teljast klassísk jólamynd. Alexander Payne neitar því sjálfur að þetta sé jólamynd en þegar betur er að gáð þá er hún það að mestu leyti. Hlutverkaskipan í myndinni er fullkomin eins og í öllum myndum hans. Þetta er einfaldlega besta jólamynd allra tíma.“ – Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður.

THE MUPPETS CHRISTMAS CAROL

„Skal ekki segja með eftirlætis-jólakvikmynd, en ég sá Jóladraum með Prúðuleikurunum í síðustu viku og hafði gaman af.“ – Þrándur Þórarinsson, myndlistarmaður.

CHRISTMAS VACATION

„Eina sem mér dettur í hug er Christmas Vacation.. ekki vegna þess að hún sé eitthvert „stórvirki“ í kvikmyndasögunni en ekkert svo slæm heldur. En einhverra hluta vegna dettur hún reglulega inn hjá okkur fyrir jólin – sennilega vegna þess að titillagið er mjög vel heppnað. En svo er þetta líka eins og með tónlist, stundum ná einhver lög sem eru ekkert sérstök (jafnvel frekar leiðinleg) að tengjast einhverjum jákvæðum minningum. Annars hef ég mjög gaman af þessum árstíma án þess að vera mikið fyrir þær hefðir sem kannski flestum þykja mikilvægar. Ég hef td. aldrei farið á jólatónleika [sem er reyndar ekki alveg satt, við Fræbbblar héldum aðventuhljómleikar í Norræna húsinu fyrir tveimur árum]. En fell ansi langt frá þessari skilgreiningu um „jólabarn“. – Valgarður Guðjónsson, tónlistarmaður.

„Skemmtileg jóla-gaman mynd og síðan er ég Chevy Chase aðdáandi.“ – Þorvaldur Gunnarsson, Geisladiskabúð Valda.

IT´S A WONDERFUL LIFE

„Uppáhalds jólamyndin mín er It´s a Wonderful Life með James Stewart. Það hljómar ekki jólalegt að horfa á mynd um mann sem óskar sér þess að hafa aldrei verið til og ætlar sér að stökkva fram af brú á jóladag. En þá mætir gamall maður í svörtum frakka, engill í mannsmynd, sem býður honum að fara í göngutúr í gegnum þorpið og sýnir honum hvernig það væri ef hann hefði aldrei lifað. Þá sér hann að hann hafi haft svo mikil áhrif bara með því að vera til. Hann bjargaði lífi litla bróður síns, konan hans væri óhamingjusamlega gift öðrum manni og börnin þeirra væru ekki til og vondi kallinn í myndinni sölsað undir sig öll viðskiptin í bænum. Hann snarhættir við, hleypur heim og á bestu jól ævinnar. Lærir að meta sitt líf og annarra upp á nýtt. Þetta er mynd um að hvert einasta líf skiptir máli, hefur áhrif á líf svo margra annarra. Jólin eru erfiður tími fyrir svo marga. Þau eru mælistika á okkur, hvernig fjölskylduhagir okkar eru, hversu vinamörg við erum og hversu vel liðin. Það eru ekki allir sem koma vel út úr þessari mælistiku, sumir þurfa að eyða jólunum einir og þau eru erfið fyrir mjög marga. Það liggur í loftinu að allir eigi að vera í sama jólaskapinu klukkan 18 á ákveðnum degi. Þetta er ógerlegt verkefni og ógerlegar kröfur. En mér finnst töfrarnir við jólin vera að allir eru að hugsa það sama á sömu sekúndunni, það er hugsanaflutningur á öðru leveli. Ef þú ert opinn fyrir þessu kraftaverki þá finnur þú fyrir hinum sanna anda jólanna. Um það er þessi mynd og ekki mörgum hefur tekist að klófesta þessa pælingu í bíómynd. Leikstjórinn Frank Capra var snillingur og höfundareinkenni hans voru hinn mannlegi þáttur, kostirnir og gallarnir, en hann matreiðir þetta eins og skemmtiefni. Þessi mynd floppaði þegar hún kom út, fólk fílaði ekki tilhugsunina um að sjá mann sem var að fara að fremja sjálfsmorð á jólunum, en svo leið tíminn og sjónvarpið kom til sögunnar. Það þurfti að fylla það af efni og náð var í gamlar svarthvítar bíómyndir. Þannig náðu It´s a Wonderful Life og Galdrakarlinn í Oz að festa rætur. Í dag geta Ameríkanar ekki haldið jól án þess að horfa á þessar myndir.“ – Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður.

„Þar sem ég er fæddur í Keflavík á Suðurnesjum og faðir minn leigði bandarískum barnafjölskyldum íbúðir þá naut ég þess að horfa á bandaríska sjónvarpið, „kana sjónvarpið“ mun lengur en margir aðrir, nærri því allt frá því að ég man eftir mér. Þessi kvikmynd sem er margverðlaunuð sem besta jólakvikmynd allar tíma var sýnd ár eftir ár í mínum uppvexti og er enn sýnd og aðgengileg öllum. Mun aftur horfa. Myndin segir frá góðum manni sem hefur átt erfitt ár þar sem hann lendir í alvarlegri krísu sem hann ræður ekki við. Hann kýs að stökkva fram af hárri brú og enda líf sitt. En þá kemur ýmislegt í ljós á dulúðlegum jólatíma. Verndarengill með húmor virðist vera til staðar og maðurinn fær tækifæri til að endurmeta lífsferil sinn og stöðu sína og hugsa sig um. Þá uppfyllast jólaóskir með krafti kærleikans. Hvað er jólalegra en það? Hann uppgötvar að allra dýrmætustu jólagjöfina er að finna í sjálfri fjölskyldunni, maka, afkomendum og ástvinum. Þegar þetta uppgötvast, upplýsist þá hefur jóla-undur átt sér stað. Besta kvikmyndin.“ – Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur.

HOWL´S MOVING CASTLE

„Ég kýs helst að horfa á kvikmyndir sem gerast í fantasíuheimi. Ef ég ætti þó að nefna sígilda jólamynd, þá myndi ég velja Die Hard. Það er áhugavert að rifja upp heiminn áður en internetið varð jafn aðgengilegt og í dag, sem gefur myndinni ákveðinn fantasíublæ. Annað gott val er Joyeux Noel, áhrifamikil mynd sem gerist á jóladag árið 1914. Í henni leggja hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni niður vopn sín örstutta stund og deila gleðilegum augnablikum saman. Hún segir kraftmikla sögu um mannlega samkennd og von í miðjum hörmungum stríðsins. Hún er byggð á sönnum atburðum og fangar einstaka, friðsæla stund í annars skelfilegum aðstæðum. Að auki mæli ég með japönsku Ghibli-teiknimyndunum, eins og Kiki’s Delivery Service. Þær eru ekki beint jólamyndir en með heillandi tónlist og draumkenndum heimum henta þær fullkomlega á hátíðunum. Ég mæli einnig með Howl’s Moving Castle, töfrandi teiknimynd sem blandar saman ævintýrum, rómantík og galdraheimi – fullkomin fyrir þá sem elska fantasíu yfir hátíðarnar.“ – Karen Kjartansdóttir, stjórnendaráðgjafi.

DIE HARD

„Er eina jólamyndin sem hefur verið framleidd. Tæknilega mætti hún heita „home away from home alone““. – Einar Bárðarson, umboðsmaður.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vala Grand reis upp úr öskunni eftir erfitt tímabil – Menntaði sig fyrir föður sinn heitinn og fann ástina

Vala Grand reis upp úr öskunni eftir erfitt tímabil – Menntaði sig fyrir föður sinn heitinn og fann ástina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – „Guð blessi Breiðholtið“

Vikan á Instagram – „Guð blessi Breiðholtið“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Gretu Salóme og Elvars Þórs hefur fengið nafn

Sonur Gretu Salóme og Elvars Þórs hefur fengið nafn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vinurinn tárast yfir bakstursþætti

Vinurinn tárast yfir bakstursþætti
Fókus
Fyrir 3 dögum

Birti gamla mynd af þjóðþekktum mönnum til að sýna breytta tíma – „Bundu bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn“

Birti gamla mynd af þjóðþekktum mönnum til að sýna breytta tíma – „Bundu bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gamall draugur vakinn upp hjá Gísla Marteini í gærkvöldi – Hvar er Guðmundur?

Gamall draugur vakinn upp hjá Gísla Marteini í gærkvöldi – Hvar er Guðmundur?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Helgi Jean rakst harkalega á vegg miðlífskrísunnar – „Ég gat ekki séð fyrir mér að lífið myndi batna“

Helgi Jean rakst harkalega á vegg miðlífskrísunnar – „Ég gat ekki séð fyrir mér að lífið myndi batna“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Aðdáendur ástralska hjartaknúsarans ekki sáttir – „Hélt að hann væri einn af góðu strákunum“

Aðdáendur ástralska hjartaknúsarans ekki sáttir – „Hélt að hann væri einn af góðu strákunum“