Hún ræðir um þetta í pistli á Eyjunni.
Sjá einnig: Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
„Ég hætti að neyta áfengis haustið 2012 og það er sennilega það eina skynsamlega sem ég hef gert um dagana því ég er fráleitt skynsemisvera. Áralangt þunglyndi hvarf eins og dögg fyrir sólu, ég fór að sofa vel um nætur, léttist um 10 kíló, lærði að standa með sjálfri mér en hef reyndar síðan ekki getað falið atferli mitt á bak við áfengisneyslu sem nýtur verulegrar velþóknunar og skilnings í samfélagi okkar. Það sem kannski er bagalegast við að hætta að drekka er sumsé það að maður situr uppi með alsgáðan sjálfan sig, minningar kýrskýrar og undanbragðaleiðum fækkar talsvert,“ segir hún.
Steinunn Ólína nefnir kannabis í þessu samhengi og segir að á meðan áfengi er löglegt þá er kannabis, lyf sem margir nota í lækningaskyni, ólöglegt. Hún hefur sjálf persónulega reynslu af kannabis en hún notaði það fyrir tíðarverkjum og virkaði það vel.
„Ég náði að finna á eigin skinni áður en ég datt úr barneign hvað kannabis er frábært tíðaverkjalyf og hvað lítið þarf af lækningalyfinu til að draga úr ömurlegum tíðakrömpum og aldrei fann ég til nokkurrar vímu eða fíknar af þess völdum.
Ég notaði kannabis sem lyf þá 1-2 daga mánaðarins sem voru verstir og þurfti ekki að bryðja íbúfen, paracetamol eða kódeinlyf eftir það.“