Cam, sem er með tæplega 600 þúsund fylgjendur á TikTok, er staddur á Íslandi þessa dagana og hefur hann sýnt frá ferð sinni á síðunni sinni.
Í myndbandi sem hann birti í gær furðaði hann sig á því hvernig Íslendingar geta hafist hér við á veturna þegar myrkrið og kuldinn ræður ríkjum. „Hvernig getur einhver á Íslandi notið þess að sjá enga sól? Ég veit að það er vetur á þessum f-king stað en þegar ég vakna þá er ennþá myrkur,“ segir Cam í myndbandinu.
Hann tekur fram að hann sé búsettur á Balí sem er sólarparadís í augum margra og hann þurfi sína sól. Hana sé ekki að fá á Íslandi þar sem birtan á þessum árstíma vari í aðeins „fjórar klukkustundir“ eins og hann orðar það.
Cam hefur vissulega eitthvað til síns máls en samkvæmt vef Veðurstofunnar er sólris í Reykjavík í dag, 6. desember, klukkan 10:59 og sólarlag klukkan 15:39. Myrkur er skollið á klukkan 16:51.
„Ég finn klakann í æðum mér og mér líður eins og ég sé að breytast í fjandans vampíru hérna,“ segir hann og bætir svo við að honum finnist Íslendingar almennt heldur niðurlútir og fýldir – allavega á þessum árstíma. „Stundum væri gaman að sjá einhvern ókunnugan brosa eða vera hressan eins og ég er alltaf,“ segir hann og hvetur Íslendinga til að brosa og tala meira.
@camhannah_ Why are ya’ll so conceited #iceland ♬ original sound – Cam Hannah | Life Coach