Hljómsveitin Hatari hefur nú rofið tveggja ára þögn sína með útgáfu lags. Samkvæmt fréttatilkynningu er þögnin rofin með „óþægilegri nærveru gervigreindar“.
Lagið er innblásið af örvæntingu mannkyns í leit að tengingu í heimi sem er hannaður til að halda okkur einangruðum, sundruðum og einmana, fyrir framan skjáinn. „Skrunandi, svæpandi og æpandi í tómið“.
Lagið heitir Breadcrumbs en þar tæla taktfastir teknó-tónar og tilvistarlegur tómleiki hlustendur með loforði um tengingu, snertingu og von. Lagið er sagt himnasending sem á sama tíma felur í sér varnarorð og býður hlustendum upp í dans á brún hyldýpis.
Hatari og KAKSI leiða saman hesta sína við gerð tónlistarmyndbands sem er framleitt með gervigreind.
„Við höfum skapað landslag lyginnar þar sem allt er leyfilegt. Myndheimurinn býður upp á sambræðslu andstæðna, þar sem dökkt og grimmt mætist mjúkri og bleikri martröð.” segir KAKSI.AGENCY.
„Samstarfið við KAKSI.AGENCY við gerð þessa tónlistarmyndbands fannst okkur rökrétt framlenging á þemu lagsins. Samruni mannlegrar sköpunar og gervigreindar speglar það samspil tengsla og einangrunar sem einkennir okkar stafrænu tilveru,” segir Hatari.“
„Breadcrumbs“ er nú fáanlegt til einkaneyslu á öllum helstu streymisveitum.