Hjónin Þórunn Wolfram Pétursdóttir og Mummi Týr Þórarinsson hafa ákveðið að selja samkomuhúsið Gömlu Borg í Grímsnesi, en þar hafa þau haldið heimili undanfarin ár.
Þórunn er að taka við starfi hjá einni af stofnunum Sameinuðu þjóðanna í byrjun næsta árs og ætla hjónin því að flytja til Róm en Þórunn greindi frá þessari ákvörðun í Facebook.
„Hefur þig alltaf dreymt um að búa í gömlu samkomuhúsi og sofa á sviði sem Sigur Rós spilaði á í myndinni Heima? Nú er tækifærið. Við erum að flytja erlendis í jan. og Gamla Borg er föl ef um semst.
Húsið er á Borg í Grímsnesi; skráð einbýlishús, 153 fm2 + 12 fm2 geymsluskúr. Þrjú svefnherbergi. Lóðin er um 2400 fm2. Búið er að girða stóran hluta hennar af með þriggja banda timburgirðingu og planta töluvert mikið af birki, gráelri og fleiri tegundum í lóðina.
Húsið er að mestu í upprunalegu ástandi og heldur afar vel utan um íbúa sína – Vala Matt kom í heimsókn nýverið og gerði salnum og sviðinu góð skil í Ísland í dag á Stöð 2
Áhugasamir geta sent Mumma skilaboð eða tölvupóst (tyr@tyr.is). Við þiggjum gjarnan aðstoð við að dreifa þessari færslu sem víðast. “
Hjónin keyptu Gömlu Borg haustið 2020 eftir að Þórunn heillaðist af söluauglýsingu, en þeim hafði báðum dreymt um að búa í gömlu húsi, jafnvel hlöðu sem þau gætu gert upp sem íbúðarhús. Svo birtist þeim þetta sögufræga hús.
Gamla Borg hefur gegnt mörgum hlutverkum gegnum tíðina. Húsið var upphaflega byggt sem þinghús en varð síðar skóli, dansstaður, bílaverkstæði, kaffihús, samkomustaður og loks heimili. Möguleikarnir fyrir nýjan eiganda eru því margir.
Sjá einnig: Ástin blómstrar á Gömlu Borg í Grímsnesi – „Okkar heimur er hér“