Sophie þykir skera sig nokkuð úr hinni fjölbreyttu flóru fólks á OnlyFans en hún er sannkristin og segist aldrei hafa stundað kynlíf.
„Ég er hrein mey, hrein mey fram á þennan dag,“ sagði hún í viðtali á YouTube-rásinni Kowski. „Ég er kristin og ég veit að það hljómar einkennilega, en ég geri ekki neitt með neinum á OnlyFans-síðunni minni. Það er bara ég,“ segir hún.
Hún virðist eiga sér nokkra dygga aðdáendur og þannig er hún sögð hafa þakkað einum ónafngreindum aðila fyrir stuðninginn í nýlegu myndbandi, en sá mun hafa eytt 4,7 milljónum dollara í að kaupa efni frá henni síðustu mánuði.
Þegar kemur að því að stunda kynlíf segist Sophie vera að bíða eftir hinum eina rétta til að eyða ævinni með. En það er ekki auðvelt að kynnast hinum „eina rétta“ þegar þú vinnur fyrir þér á OnlyFans og nýtur hylli víða.
Hún sagði í viðtali við Jam Press nýlega að margir karlar vildu vera með henni vegna útlits hennar, en ekki vegna þess hvaða manneskju hún hefur að geyma. Það sé aukaatriði í augum sumra.
Þó að Sophie eigi fyrir salti í grautinn þessa dagana hefur það ekki alltaf verið þannig. Hún er alin upp í Tampa á Flórída þar sem fjölskylda hennar þurfti að reiða sig á matarmiða til að geta borðað nægju sína á degi hverjum. Hefur hún sjálf sagt að hún hafi endurgoldið foreldrum sínum með því að greiða niður skuldir hennar eftir að hún sló í gegn á OnlyFans.