„Þegar líða fer að jólum fjölgar fréttum sem þessum af eldsvoðum þar sem reykskynjari bjargar mannslífum og kemur í veg fyrir stórbruna,“ segir hann í pistli á Vísi.
Hann bendir á mikilvægi reykskynjara: Tveir eða fleiri reykskynjarar eiga að vera á hverju heimili og best er að hafa þá í öllum rýmum.
„Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki og skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. Það er lang skynsamlegast að hafa reykskynjara í öllum rýmum og ef möguleiki er þá er best að hafa þá samtengda þannig að hljóðmerki komi frá þeim öllum ef eldur kemur upp. Reykskynjarar eiga að minnsta kosti að vera framan við eða í hverju svefnherbergi og á hverri hæð á heimilinu. Staðsetjið reykskynjara í lofti, 30-50 cm frá vegg. Ganga þarf úr skugga um að reykskynjarar heimilisins séu í lagi og skipta um rafhlöður í þeim þegar þeir gefa frá sér hljóðmerki. Líftími rafhlaða er mismunandi og erfitt að alhæfa um endingu þeirra.“
Best er að kanna stöðuna á öllum reykskynjurum heimilisins árlega. Ef reykskynjari er í lagi þá pípir hann þegar það er ýtt á takkann, ef ekki þá þarf að skipta um batterí strax.
„Þegar nýtt batterí er komið í reykskynjarann má svo ekki gleyma að prófa hvort hann virki ekki örugglega,“ segir hann.
Ágúst vekur athygli á því að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fær fleiri útköll vegna elds yfir hátíðarnar miðað við restina af árinu.
„Orsakir elds geta verið margvíslegar en á ársgrundvelli má rekja 21% þeirra til rafmagns og 20% vegna eldamennsku. Þetta beinir sjónum okkar að hleðslutækjum, fjöltengjum og jólaseríum. Gætum þess að ofhlaða ekki millistykki og hlaða rafhlaupahjól fjarri flóttaleið og eldfimum efnum. Förum varlega í eldhúsinu, gleymum ekki pottum eða pönnum á hellu og höfum eldvarnarteppi við höndina,“ segir hann.
Að lokum hvetur Ágúst fólk til að fara varlega. „Förum gætilega með opinn eld og loga þegar við lýsum upp skammdegið. Það getur verið hættulegt að vera með kerti við opinn glugga og nálægt gluggatjöldum eða þurru greni. Þarna er samankomin hin eldfima þrenning : logi, súrefni og brennanlegt efni,“ segir hann.
„Eins og fyrr segir þá er góð regla að byrja aðventuna á því að prófa reykskynjara, láta skoða slökkvitækin okkar og ganga úr skugga um að eldvarnarteppið sé sýnilegt í eldhúsinu. Farið varlega á aðventunni og njótið hennar örugglega með eldvarnirnar í lagi.“