fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fókus

Ævintýralegt drama í Hollywood – Kærurnar ganga á víxl með ásökunum um ófrægingarherferð og óboðlega framkomu

Fókus
Mánudaginn 30. desember 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blake Lively hefur um árabil verið ein vinsælasta Hollywood-stjarnan. Sjónvarpsþættirnir Gossip Girl, þar sem hún fór með hlutverk Serena van der Woodsen, skutu henni upp á stjörnuhimininn og þá kom samband hennar, og síðar hjónaband, við leikarann Ryan Reynolds henni rækilega á kortið.

Undanfarna mánuði hefur Lively verið mikið á milli tannanna á fólki og hreinlega verið á barmi slaufunnar. Þetta byrjaði allt með kynningarherferð nýjustu kvikmyndar hennar, It Ends With Us. Myndin byggir á samnefndri bók Colleen Hoover og fjallar um konu og reynslu hennar af heimilisofbeldi. Lively fór með aðalhlutverkið á móti leikaranum Justin Baldoni sem var jafnframt leikstjóri myndarinnar.

Tekin af lífi á samfélagsmiðlum

Þegar kynningarherferðin fór af stað vakti það athygli að Lively mætti ein í viðtöl og á viðburði. Baldoni var hvergi sjáanlegur. Fljótlega fóru slúðursögur á flug. Eitthvað hlaut að hafa komið upp við töku myndarinnar. Baldoni fór svo að mæta í viðtöl og kynnti kvikmyndina með allt öðrum hætti en Lively. Lively var jákvæð í viðtölum og lagði áherslu á að myndin fjallaði um styrkleika konu andspænis erfiðum aðstæðum og kynnti myndina sem rómantíska gamanmynd. Baldoni lagði áherslu á heimilisofbeldi og hversu hræðilegt það er.

Þetta varð til þess að Lively var sökuð um forréttindablindu og fyrir að hafa engan skilning á veruleika kvenna sem búa við ofbeldi. Baldoni var hylltur sem femínísk hetja á meðan Lively var sökuð um að vopnvæða femínisma sér til framdráttar.

Fljótlega voru grafin upp gömul viðtöl og óþægileg augnablik. Fyrst viðtal frá árinu 2016 við norska blaðamanninn Kjersti Flaa. Flaa deildi viðtalinu og sagðist hafa íhugað að hætta í blaðamennsku sökum þess hvað Lively var leiðinleg við hana.

Umræðan á samfélagsmiðlum var hörð í garð Lively og var hún hreinlega tekin af lífi. Sögur fóru á flug um að hún væri díva sem hefði mætt á tökustað með fræga eiginmann sinn sér við hlið og hreinlega reynt að taka yfir framleiðslu myndarinnar og reynt að ýta Baldoni til hliðar. Baldoni hefði ekkert á hennar hlut gert annað en að reyna að gera mynd þar sem fjallað væri á áleitinn hátt um heimilisofbeldi.

Ófrægingarherferð til að leyna eigin framkomu

Nú hefur málið heldur betur undið upp á sig. Lively hefur kært Baldoni og framleiðslufyrirtæki hans fyrir kynferðislega áreitni og ófrægingarherferð. Stefna málsins hefur verið birt opinberlega og telur 80 blaðsíður. Þar er rakið hvernig Baldoni kom fram með óþægilegum hætti við töku myndarinnar. Hann hafi til dæmis ítrekað misboðið Lively með kynferðislegu tali og ítrekað reynt að vaða inn á hjólhýsið hennar á meðan hún var að gefa yngsta barni sínu brjóst. Hann hafi boðið vinum og óviðkomandi á tökustað þar sem Lively var nánast nakin, ítrekað gert athugasemdir um líkama hennar og reynt að fá hana til að leika í fleiri kynlífsenum en hún hafði samþykkt.

Þetta hafi gengið svo langt að Lively og eiginmaður hennar boðuðu til fundar þar sem Baldoni voru lagðar línurnar um hvað væri viðeigandi og hvað ekki.

Samkvæmt stefnunni óttaðist Baldoni að ásakanir Lively yrðu gerðar opinberar svo til að bjarga andliti fékk hann til liðs við sig almannatengsla sem eru sérhæfðir í að ráðskast með opinbera umræðu. Framleiðslufyrirtæki Baldoni sagði Lively að í öllu kynningarefni myndarinnar ætti hún að leggja áherslu á að hér væri á ferðinni rómantísk saga og reyna að gera lítið úr þætti heimilisofbeldis. Umræðan ætti að vera jákvæð. Lively fylgdi þessu í einu og öllu, enda samningsbundin. Baldoni fór svo sérstaklega og lagði sjálfur áherslu á heimilisofbeldið til að láta hana líta illa út.

Lively tókst að komast yfir samskipti almannatenglanna og Baldoni og vísar til þeirra í kæru sinni. Þar má sjá hvernig um skipulagða ófrægingarherferð var að ræða þar sem meðal annars voru fengnir hópar til að hefja neikvæða umræðu um leikkonuna á samfélagsmiðlum. Almannatengillinn notaði eins tengsl við þekkta slúðurmiðla sem samþykktu að taka þátt í aðförinni.

Í skilaboðum sem almannatenglarnir senda á milli sín segir á einum stað: „Þú veist að við getum jarðað hvern sem er. En ég get ekki skrifað það til hans. Ég mun gera það, ég verð mjög hörð.“

Á öðrum stað má sjá almannatenglana fagna því að hafa sannfært fjóra stóra fjölmiðla um að fjalla ekki um ásakanir Lively á tökustað kvikmyndarinnar. „Við erum með fjóra stóra miðla sem hafa samþykkt að hætta við umfjöllun um kvörtunina til mannauðssviðs. Ég held við séum ágæt í þeim efnum sem stendur.“

Á einum stað segir Baldoni sjálfur: „Hey, hvaða herkænsku erum við með fyrir TikTok? Ég vil að þið farið að birta bara færslur af mér að tala um heimilisofbeldi og klippur um hvers vegna þessi kvikmynd er mikilvæg fyrir þá umræðu.“

Baldoni stakk svo upp á því að hann færi að ræða það opinberlega að vera taugsegin þar sem flestar ásakanir Lively í hans garð mætti rekja til þess hversu vandræðalegur hann getur verið í samskiptum og hversu hvatvís hann er.

Almannatengillinn sem er sögð hafa farið fyrir ófrægingarherferðinni, Jennifer Abel, sendi skilaboð á samstarfsfélaga þar sem hún tók fram að hún væri að snæða kvöldverð með blaðamanni sem skrifar fyrir People, Fox, In Touch og US Weekly. „Hún er meðvituð um aðstæður og er vopnuð og tilbúin að birta frétt um að Blake sé að vopnvæða femínisma á öllum sínum miðlum um leið og við gefum henni græna ljósið. Hún hatar Blake, hefur heyrt þessar sögur áður og mun gera hvað sem er fyrir okkur.“

Á öðrum stað segir undirmaður Abel að hún eigi vin hjá Daily Mail sem sé með þeim í liði. Seinna var farið í ófrægingar á samfélagsmiðlum og þótti það takast svo vel að almannatenglarnir fögnuðu því að hafa tekist að gera fólk ráðvillt og koma mikið af ruglandi sögum í loftið. „Í raun svolítið sorglegt því þetta sýnir að við erum með fólk sem virkilega vill hata konur.“
Stefnuna má lesa í heild sinni hér.  Bent er á viðauka á bls 65-66 en þar má sjá reglur sem Baldoni var gert að fylgja á tökustað eftir að Lively fór að líða óþægilega en í stefnunni kemur fram að allar reglurnar megi rekja til framkomu Baldoni.

Boðar aðra kæru sem muni leiða sannleikann í ljós

Baldoni neitar sök og kallar kæruna örvæntingarfulla tilraun leikkonunnar til að bjarga andliti eftir neikvæða umfjöllun. Hann hefur nú sjálfur boðað kæru í málinu sem hann segir að muni leiða sannleikann í ljós og kollvarpa ásökunum Lively. Lögmaður hans sagði við fjölmiðla að stefna þeirra verði sláandi. „Á mínum 30 ára ferli hef ég aldrei séð svona siðlausa framkomu.“

Engu að síður hefur Lively fengið stuðning úr mörgum áttum eftir að hún steig fram, meðal annars frá höfundi bókarinnar sem myndin byggir á. Colleen Hoover segir að Lively hafi verið ekkert nema dásamleg við vinnslu myndarinnar. Leikkonan sé góðhjörtuð, stuðningsrík og þolinmóð. „Takk fyrir að vera nákvæmlega sú sem þú ert, aldrei breytast og aldrei bugast.“

Aðrir leikarar úr myndinni, Jenny Slate og Brandon Sklenar, standa einnig með Lively.

„Sem meðleikari Blake Lively og vinur tilkynni ég stuðning minn á meðan hún leitar réttar síns gegn aðilum sem eru sagðir hafa áformað og framkvæmt aðför að orðspori hennar,“ sagði Slate í samtali við fjölmiðla. „Það sem hefur verið afhjúpað um þessar árásir á Blake er hrottalegt, truflandi og ógnvekjandi. Ég dáist að vinkonu minni fyrir hugrekkið og stend með henni.“

Sklenar deildi stefnunni í málinu og biðlaði til aðdáenda sinna að lesa hana.

Aðrar þekktar leikkonur hafa lýst yfir stuðningi. Til dæmis þær Amber Tamblyn, America Ferrera og Alexis Bledel sem léku með Lively í kvikmyndinni Sisterhold of the Traveling Pants.

Baldoni hefur nú verið sviptur viðurkenningu sem hann fékk í byrjun desember fyrir samstöðu sína með konum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Þetta á eftir að vera miklu stærra en þau halda“

„Þetta á eftir að vera miklu stærra en þau halda“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Flugmaður Play fangar töfrandi sjónarspil úr háloftunum og gefur góð ráð – Svona nærðu flottum myndum af norðurljósunum

Flugmaður Play fangar töfrandi sjónarspil úr háloftunum og gefur góð ráð – Svona nærðu flottum myndum af norðurljósunum
Fókus
Fyrir 6 dögum

Björn Ingi með hlutverk í stórmynd Marvel

Björn Ingi með hlutverk í stórmynd Marvel
Fókus
Fyrir 6 dögum

Heiðrún um hollt mataræði – „Þumalputtareglan mín er einföld, mjög umdeild og klárlega ekki í tísku“

Heiðrún um hollt mataræði – „Þumalputtareglan mín er einföld, mjög umdeild og klárlega ekki í tísku“