Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur segir frá því á Facebook-síðunni karlmennskan að hann og eiginkona hans Hulda Tölgyes hafi í nokkrar vikur verið að skipuleggja eins konar gjörning en hann segir markmið gjörningsins hafa verið að endurheimta hugtakið „woke“ undan oki hægrimanna sem hafi haft það að háði og spotti. Þorsteinn segir hins vegar að innsæi þeirra hjóna hafi gefið til kynna að þau væru kannski ekki alveg á hárréttri leið. Morguninn sem gjörningurinn átti að fara af stað kom hins vegar skýringin. Það er menningarnám að vera hvítur og segjast vera „woke.“
Hugtakið „woke“ hefur reynst afar umdeilt í samfélagsumræðunni víða um heim ekki síst í Bandaríkjunum en talsvert hefur borið á því hér á landi. Það hefur enn ekki komið fram nægilega traust og góð íslensk þýðing á þessu hugtaki. Borið hefur taslvert á því að íhaldsmenn noti hugtakið til háðungar þeim sem hafa tjáð sig opinberlega um stöðu ýmissa minnihlutahópa en íhaldsmenn eru margir hverjir ósáttir við að þessi hópur geri í auknum mæli kröfur um að ekki megi segja hvað sem er um fólk sem tilheyri þjóðfélagshópum sem í sögulegu samhengi hafi sætt kúgunum og skerðingu á réttindum sínum.
Það skal tekið fram að þessi örtutta skýring er þó nokkur einföldun á umræðunni um þetta hugtak. Borið hefur nokkuð á því að íslenskir íhaldsmenn noti hugtakið í umræðu hér á landi og beini því að t.d. fólki eins og Þorsteini V. sem hefur til að mynda talað mikið um það sem er oft kallað „eitruð karlmennska“.
Þorsteinn V. hefur verið ósáttur við að hægri menn hér á landi noti hugtakið með þessum hætti og vildi endurheimta það en innsæið sagði til sín:
„Innsæið eða gut feeling í tengslum við mikilvægar ákvarðanir og ekki síst í uppeldi er leiðarstefið í þessum þætti. Tökum dæmi úr okkar lífi þar sem innsæið gefur okkur vísbendingar þrátt fyrir að rökin séu ekki til staðar á þeirri stundu. Eitt dæmi um gut feeling tengist gjörningi sem við vorum búin að plana í nokkrar vikur og fórum næstum alla leið með fyrir helgi. Við vorum orðin pirruð á hvernig hægrið var að misnota og hæðast að „woke“. Eins og það væri hallærislegt að taka afstöðu með mannréttindum, berjast fyrir dýrunum, gagnrýna kynferðisofbeldismenn og sýna samkennd.“
Þorsteinn V. lýsir fyrirætlunum hans og Huldu nánar:
„Við ætluðum að taka woke-ið frá hægrinu og beita því sjálf, til að hæðast að hægrinu. Vorum komin af stað með peysur og prent og búin að fá gott fólk með okkur. En kvöldið áður en allt fór í loftið vorum við með einhverja skrýtna tilfinningu. Skildum það ekki alveg. Fyrr en um morguninn eftir.“
Skýringin á þessari skrýtnu tilfinningu kom hins vegar morguninn eftir það er menningarnám að vera hvítur og segjast vera „woke.“:
„Þar beið mín skilaboð frá samstarfskonu sem benti á að þetta væri á grensunni með að vera misnotkun eða menningarnám, enda á hugtakið sér langa sögu í baráttu svartra í Bandaríkjunum þótt hægrið hafi fyrir löngu tekið það yfir og afbakað. Allavega. Við ákváðum að hlusta á innsæið og allavega fresta þessum gjörningi. Kannski seinna eða aldrei.“
Hluti gjörningsins fór hins vegar í loftið en þær peysur sem Þorsteinn V. minnist á voru auglýstar á Instagram-síðunni Karlmennskan, sem hann heldur úti, en færslunni hefur verið eytt en hér að neðan er skjáskot af henni:
Hvað verður um þessar peysur er því óljóst á þessari stundu.