Tónlistarmaðurinn Elton John hefur enn ekki endurheimt sjónina eftir alvarlega augnsýkingu. Hann greindi aðdáendum sínum frá þessu á sunnudaginn þegar hann kom fram á hátíðarsýningu söngleiksins The Devil Wears Prada.
„Ég hef ekki náð að mæta á allar forsýningarnar því eins og þið vitið, þá hef ég misst sjónina. Svo það er erfitt fyrir mig að horfa á sýninguna. En ég elska að hlusta á hana, og vá hvað hún hljómaði vel í kvöld,“ sagði Elton sem samdi tónlistina fyrir söngleikinn.
Elton sagði í viðtali í síðustu viku að blindan væri að hafa áhrif á störf hans. Hann blindaðist á hægra auga í júlí eftir að hann fékk sýkingu. Hann segir að sjónin á vinstra auganu sé ekki upp á marga fiska. Hann heldur enn í vonina um að fá sjónina til baka.
„Ég er á batavegi en þetta er hægur bati og það mun taka tíma áður en ég get séð aftur með sýkta auganu.“