fbpx
Laugardagur 22.febrúar 2025
Fókus

Patrik Snær fer yfir frægðina – „Ég er gagnrýnni á sjálfan mig í dag“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 28. desember 2024 17:30

Patrik Snær Atlason Mynd: Helgi Ómarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Patrik Snær Atlason sem flestir þekkja undir listamannsnafninu Prettyboitjokko er gestur Einars Bárðarsonar í nýjasta þættinum af Einmitt, hlaðvarpsþáttaröð Einars. 

Hlaðvarpsþættir Einars eru nú orðnir 86 talsins og hafa verið í framleiðslu í rúmlega tvö ár og þessi þáttur er upphafið að fjórðu þáttaröðinni. Patrik og Einar ræða allt milli himins og jarðar og í þættinum kemur ýmislegt fram sem fólk veit almennt ekki um Patrik. 

Popp stormurinn Prettyboitjokko

Patrik kom sem stormur inn í tónlistarlíf Íslendinga um mitt ár 2023 og hefur stormurinn geisað síðan. Lagið hans Skína var lang stærsta lag þess árs og heldur áfram að vera eitt mest spilaða lag ársins. Lagið var valið lag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í byrjun árs og nýjasti kaflinn í Prettyboitjokko ævintýrinu er ilmvatn sem Patrik hefur verið að undirbúa og hanna í eitt og hálft ár. 

Skírður í höfuðið á ömmu 

„Amma mín heitir Patricia. Jóna Steinunn Patricia Conway. Pabbi hennar var Bandaríkjamaður og ég er skírður í höfuðið á henni,” segir Patrik þegar talið berst að nafninu hans en afi hans er Helgi í Góu sem er landsþekktur athafnamaður. 

„Pabbi hennar var Kani,” segir Patrik í þættinum og bætir við: „Þaðan fæ ég þennan tjokkó lit,” og hlær. 

„Hvurn fjandann er ég að gera hérna?“

Patrik var mjög góður knattspyrnumaður og æfði með Víking. Hann tilheyrði kynslóðinni sem nú er grunnurinn að þessu sigursæla karlaliði Víkings í Bestu deildinni í dag. Þrálát meiðsli urðu þess þó valdandi að Patrik tókst ekki að fylgja því ævintýri alla leið eins og margir sem ólust upp með félaginu með honum. 

„Ég rankaði við mér út á miðjum velli og hugsaði bara: „Hvurn fjandann er ég að gera hérna? Berjast í fjórðu deildar bolta í bullandi meiðslum sem gerðu það að verkum að ég gat ekki gefið meira en 60% í leikinn,” segir Patrik. 

Fór á fulla ferð í djammið

„Þá hætti ég og skyndilega var ég kominn með óendanlega mikinn frítíma sem ég vissi ekkert hvað ég átti að gera við og það kallaði bara á djammið,” segir Patrik. 

Eftir smá tíma á djamminu og sjálfsvorkunn ákvað Patrik að snúa við blaðinu. Hann steinhætti að drekka og ákvað að nýta tíma sinn í annað. Hann velti fyrir sér fatahönnun en endaði í poppmúsik. 

Skína „þema lag kynslóðarinnar” 

Talið berst að laginu Skína og Patrik segir að vinur hans og meðhöfundur í laginu Logi „Luigi” Tómasson hafi verið með það á hreinu á fyrsta degi að lagið yrði risa smellur. 

„Hann var með það á hreinu og þess vegna ákváðum við að bíða aðeins með það og vinna grunninn með tveimur öðrum lögum,” segir Patrik. Svo var sprengjunni varpað mitt sumar 2023. En slíkar vinsældir eru líka áskorun og Patrik segist ekki vera að reyna að semja annað Skína.  

„Ef ég mun einhvern tímann ná að toppa þetta lag, ég er ekki einu sinni að spá í því, ef maður er of upptekinn af því að reyna að toppa það þá stíflast allt og ekkert kemur,” segir Patrik . „Það er þannig að það var svo stórt að ef maður væri mjög upptekinn af þeirri staðreynd þá gæfi maður líklega ekki út lag aftur,” bætir hann við. 

Fer sér hægar í dag 

„Ég er gagnrýnni á sjálfan mig í dag, ég reyni að vera það. Það er ógeðslega auðvelt að gera fínt lag. En ég hef verið svona að finna hvað er mitt sound og 2024 hefur farið í það. Kannski er ég að fara inn í tímabil þar sem ég gef bara út tvö lög á ári,” segir Patrik þegar talið berst að stöðunni og stemningunni hjá honum í dag. 

Ilmur í þróun og prufum í átján mánuði

„Í heildina hefur það tekið um það bil eitt og hálft ár að undirbúa ilmvatnið, glasið, umbúðirnar og allt þetta hefur tekið góðan tíma. Það þarf að vanda þetta allt þannig að þegar varan kemur loksins að þá sé þetta eins og ég sá þetta fyrir mér,” segir Patrik þegar talið berst að ilmvatninu. 

„Svo þegar allt er tilbúið og maður er orðinn ánægður með ilminn. Þá þarf hann að standa í hillu í sex mánuði í stability testing til að vita hvort ilmurinn lifir í blöndunni. Það væri ekki gaman ef fólk væri að kaupa lyktina eftir einhvern tíma tíma úr hillunum og lyktin úr vökvanum væri farin.“

Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Poppstjarnan komin á OnlyFans 66 ára gömul

Poppstjarnan komin á OnlyFans 66 ára gömul
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragnar Freyr læknir: „Allir þessir sjúkdómar verða verri ef svefninn er ekki í lagi“

Ragnar Freyr læknir: „Allir þessir sjúkdómar verða verri ef svefninn er ekki í lagi“