fbpx
Laugardagur 28.desember 2024
Fókus

Vigfús Bjarni þakklátur fyrir lífið eftir hjartaáfall – „Maður gerir sitt besta til að vera í æðruleysi“

Fókus
Föstudaginn 27. desember 2024 12:05

Vigfús Bjarni Albertsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vigfús Bjarni Albertsson prestur segist afar þakklátur fyrir að vera aftur farinn að sinna daglegum störfum eftir að hafa fengið hjartaáfall.

Vigfús, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, hefur í áraraðir unnið við að aðstoða fólk á erfiðustu stundum lífsins. Hann segir áfalla- og sorgarvinnu vera ferli sem oft kalli á mikið hugrekki og heiðarleika.

„Það bilaði ósælaloka og varð hjartaáfall á sama tíma og ég sit uppi með þó nokkuð mikla skerðingu eftir það. En ég er þakklátur fyrir að vera enn starfandi og geta sinnt öllum helstu verkefnum. Maður gerir sitt besta til að vera í æðruleysi, en það er samt ekki eitthvað sem er hægt að þvinga fram. Æðruleysi er auðvitað æskileg niðurstaða þegar fólk fer í gegnum erfiðleika, en það getur tekið tíma að setjast inn í það og ná alvöru úrvinnslu. Maður þvingar ekki fram æðruleysi, en getur hægt og rólega náð því,” segir Vigfús Bjarni, sem sjálfur hefur áratuga reynslu í því að aðstoða fólk við að takast á við erfiða kafla í lífinu.

„Það að vinna úr áföllum og sorg er ferli, en ekki einhver einn viðburður sem er hægt að afgreiða hratt og örugglega. Það er mikilvægt að fara inn í áfallið og vinna í því í stað þess að flýja það bara. En að sama skapi er líka mikilvægt að geta gleymt sér inn á milli og farið út úr því. Ég hef stundum dregið upp þá mynd að áfall sé eins og fjall sem er fyrir framan okkur og þá viljum við bara færa fjallið og labba áfram. En æðruleysi og alvöru áfallavinna er fyrir mér að ganga eitt skref í einu í átt að fjallinu og ekki reyna að færa það til. Áfallavinna er þrítengt ferðalag, þar sem einstaklingurinn þarf að endurskilgreina tengsl við sjálfan sig, tengsl við annað fólk og tengsl við sinn tilgang og æðri mátt. Það þarf mikið hugrekki til að horfast raunverulega í augu við erfiða hluti og mæta þeim. Þá þarf maður að vera heiðarlegur við sjálfan sig og annað fólk og láta grímurnar falla niður.“

Forréttindi að fá að vinna með fólki

Vigfús segir stóran hluta starfa sinna í gegnum tíðina hafa gengið út á að hjálpa fólki að tjá sig og eiga samskipti. Það sé alls ekki sjálfgefið að fólk kunni að eiga samskipti og tjá sig, jafnvel þó að það hafi þekkst í áraraðir.

„Það hefur kannski verið mitt hlutskipti í meira en 20 ár í þessum störfum sem ég hef unnið að hjálpa fólki að tala saman og heyra hvort í öðru. Hvort sem það er sambúðafólk, fjölskyldur eða vinir. Þeim fjölskyldum sem ekki stunda hugsanalestur gengur yfirleitt best! Það að hjálpa fólki að hugsa upphátt hefur oft gert mjög mikið gagn. Það hljómar kannski sjálfgefið að við eigum að tjá okkur, en það er bara oft alls ekki þannig,“ segir Vigfús Bjarni, sem er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með fólki í gegnum erfiðleika stærstan hlutann af sínum starfsferli.

„Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað það hafa verið mikil forréttindi að fá að vinna með fólki þegar það er á erfiðum tímamótum í lífinu. Það gefur mér mikinn tilgang og er virkilega innihaldsríkt í alla staði. Það þarf auðvitað hugrekki til að geta stigið inn í erfiðar aðstæður, en ég tel mig blessaðan mann og sé störfin mín í gegnum tíðina sem mikil forréttindi. Skjólstæðingar mínir hafa kennt mér mikið um sjálfan mig, sem mér finnst mikil gjöf. Í gegnum öll þessi störf með fólki hef ég almennt jákvæða sýn á fólk og fólk er í grunninn magnað og getur farið af mikilli reisn í gegnum gríðarlega erfiðleika.“

„Við þurfum að horfast í augu við okkar eigin skugga”

Í þættinum ræða Vigfús og Sölvi líka um dómhörku og hvernig samfélagið skiptir fólki í gott og vont fólk, en staðreyndin sé sú að veröldin sé ekki jafn svart hvít og margir vilji telja.

„Það er oft horft á hlutina þannig að það sé bara einhver einn vondur aðili sem beri ábyrgð á einhverju slæmu, en ef við förum dýpra og skoðum skugga samfélagsins er myndin oft önnur. Bara í Auschwitz fangabúðunum unnu 20 þúsund Þjóðverjar. Þegar það var farið að leita að nasistunum eftir seinni heimstyrjöldina var byrjað að reyna að finna skrímsli með horn og hala, en þá fannst enginn. Þegar því var breytt yfir í að leita að venjulegum fjölskyldufeðrum komu þeir í ljós hver á fætur öðrum. Ég veit að þetta er ögrandi umræða, en það er gott að spyrja sig áður en maður dæmir aðra hart hvort að maður sjálfur sé fullkominn. Við þurfum að horfast í augu við okkar eigin skugga áður en við förum í að dæma alla aðra.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Vigfús og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nóttin sem aldrei gleymist – Hinn óvænti jólafriður í miðju blóðblaðs og hryllings skotgrafanna

Nóttin sem aldrei gleymist – Hinn óvænti jólafriður í miðju blóðblaðs og hryllings skotgrafanna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Með reynslu af því að keyra við erfiðar aðstæður en smeyk við að gera það á Íslandi

Með reynslu af því að keyra við erfiðar aðstæður en smeyk við að gera það á Íslandi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hvers vegna byrja jólin á Íslandi klukkan sex að kvöldi aðfangadags?

Hvers vegna byrja jólin á Íslandi klukkan sex að kvöldi aðfangadags?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hvað eru Bessastaðakökur?

Hvað eru Bessastaðakökur?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“