Í kvöld klukkan 18 ganga jólin í garð hér á landi. En af hverju skyldu þau einmitt byrja á þessum tíma sólarhrings? Í mörgum löndum teljast jólin byrja þegar 25. desember rennur upp á miðnætti. Ísland er þó alls ekki eina landið í heiminum þar sem jólin byrja að kvöldi 24. desember. Það á til dæmis við um hin Norðurlöndin.
Sumir Íslendingar sem hafa horft á bandarískar jólamyndir, þar sem jólin byrja á jóladagsmorgun með opnun pakka, hafa eflaust velt því fyrir sér af hverju jólin hér á landi byrja klukkan sex að kvöldi en ekki á miðnætti eins og aðrir dagar.
Einar Sigurbjörnsson, sem var lengi vel prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands en lést 2019, leitaðist við að svara þessu á Vísindavef Háskólans árið 2000. Þótt nokkuð sé um liðið frá því að svar hans var birt verður ekki betur séð en að það sé enn í fullu gildi.
Spurningin sem lögð var fram hljóðaði svo:
„Hvers vegna er hátíðlegast hjá okkur á aðfangadag þegar við opnum pakkana, en á jóladag víða annars staðar?“
Einar svaraði því til að jólin, þegar haldið er upp á fæðingarhátíð Jesú Krists, hefjist formlega á jóladag 25. desember en 24. desember sé lokadagur undirbúnings jólanna, jólaföstunnar. Hann minnir á að 24. desember sé kallaður aðfangadagur af því að þá skuli undirbúningi jólanna lokið og öll aðföng til hátíðahaldsins komin í höfn. Klukkan 18 að kvöldi aðfangadags hefjist síðan jóladagur, þegar svokallað miðaftan rennur upp. Einar útskýrir hvaðan þessi hefð er komin:
„Í þessu fylgjum við Íslendingar fornum sið. Helgidaga- og hátíðahald kristinna manna studdist upprunalega við gyðinglegt tímatal, en hjá þeim hefst dagurinn við sólsetur. Þetta kemur fram í sköpunarsögunni þar sem segir um hvern dag: „Það varð kveld og það varð morgunn …“ Utan gyðinglegs landsvæðis var hins vegar ekki miðað við sólsetur heldur við miðaftan. Þetta er í fullu gildi hjá okkur um jólin.“