Jólin ganga í garð klukkan 18 í kvöld. Landsmenn gæða sér margir hverjir á ýmis konar smákökum um jólin. Margir una sér vel við að baka þær en aðrir láta sér nægja að kaupa smákökur úti í búð. Margs konar tegundir af smákökum prýða borð landsmanna um jólin. Á einhverjum heimilum getur vel verið að ein ákveðin smákökutegund sé í boði. Tegund sem sumir lesendur kannast kannski við en eflaust ekki allir. Þetta er smákökutegund sem ber nokkuð hátíðlegt nafn og því líklega við hæfi að neyta hennar á jólunum. Þetta eru svokallaðar Bessastaðakökur.
Bessastaðakökur virðast hafa verið vel þekktar hér á landi í talsverðan tíma. Finna má nýlegar auglýsingar frá bakaríum þar sem Bessastaðakökur eru auglýstar fyrir jólin.
Í desember 1959 hringdi Morgunblaðið í nokkrar húsmæður í Reykjavík og spurði þær um uppskriftir að bestu kökunum sem þær ætluðu sér að baka fyrir jólin. Voru Bessastaðakökur þær fyrstu sem nefndar voru í þeirri samantekt. Eftirfarandi var haft eftir húsmóður í Austurbænum um Bessastaðakökur:
„Það mesta sælgæti sem ég fæ en þær eru líka dálítið dýrar.“
Vitneskja um tilvist Bessastaðakaka hefur því greinilega verið til staðar í þó nokkurn tíma en misjafnt hefur verið hversu vel uppruni þeirra hefur verið þekktur. Í febrúar 1980 ræddi Dagblaðið við Vigdísi Finnbogadóttur sem þá hafði tilkynnt um forsetaframboð sitt. Blaðamaður og ljósmyndari hittu Vigdísi á heimili hennar og bauð hún þeim upp á „skrítnar hvítar smákökur.“ Sagði Vigdís þá frá því að föðursystur hennar, prestsdætur frá Sauðlauksdal, við sunnanverðan Patreksfjörð, hefðu árum saman gaukað svona kökum að henni. Í frétt blaðsins sagði að kökurnar bæru hvorki meira né minna en heitið Bessastaðakökur. Nafnið væri tilkomið þar sem mikið hafi verið lagt í þessar kökur.
Lesandi hafði snarlega samband við Dagblaðið og greindi frá því að ástæðan að baki nafngiftinni væri ekki alveg svona einföld. Hann greindi blaðinu frá því að móðir Gríms Thomsen (1820-1896) skálds og þingmanns, Ingibjörg Jónsdóttir, hefði bakað þessar kökur þegar hún var húsfreyja á Bessastöðum. Síðan þá hefðu kökurnar verið kenndar við þennan stað sem var með stofnun lýðveldis á Íslandi gerður að heimili forsetans. Á þessum árum bjó fjölskyldan á Bessastöðum þar sem þá var skóli, samnefndur staðnum, sem varð seinna að Menntaskólanum í Reykjavík en faðir Gríms var ráðsmaður í skólanum.
Ári seinna þegar Vigdís var tekin við embætti forseta upplýsti hún í viðtali við Helgarpóstinn að þótt hún hefði gaman af því að elda ætti það sama ætti ekki við um bakstur. Aðspurð hvort hún bakaði þá ekki til jólanna svaraði hún:
„Nei, það geri ég ekki – ekki einu sinni Bessastaðakökur.“
Það er því ljóst að Bessastaðakökur eiga sér meira en 100 ára langa sögu. Mikilvægustu upplýsingarnar um kökurnar eru þó væntanlega um hvers konar kökur er að ræða og hvernig eigi að baka þær.
Árið 2018 ræddi Mbl.is við Vigdísi Finnbogadóttur um Bessastaðakökurnar. Þá vildi Vigdís raunar meina að kökurnar væru upphaflega komnar frá Jakobínu Thomsen, konu Gríms Thomsen.
Það vill því greinilega stundum skolast eilítið til hver uppruni sumra hluta er en Vigdís upplýsti einnig að Bessataðakökurnar hefðu oft verið framreiddar á forsetasetrinu í hennar embættistíð.
Með spjallinu við Vigdísi er birt uppskrift að Bessastaðakökum sem er í meginatriðum eins og elstu uppskriftirnar að kökunum sem birst hafa í dagblöðum.
Bessastaðakökur eru smjörkökur og er uppskriftin er þannig að í henni eru 250 grömm af smjöri, 250 grömm af flórsykri, 250 grömm af hveiti, 1 eggjarauða og saxaðar möndlur eða hnetukjarnar. Samkvæmt áðurnefndri umfjöllun Mbl.is dugar þetta til að fylla tvær bökunarplötur. Lesendum er bent á að smella á tengilinn að ofanverðu hafi þeir áhuga á því að kynna sér uppskriftina nánar og jafnvel spreyta sig á bakstrinum, þótt vissulega sé tíminn orðinn naumur að ljúka honum af fyrir jól.
Að lokum má minnast á að mikilvægasta atriðið við að baka Bessastaðakökur er að byrja á því á að bræða smjörið og láta það síðan storkna. Við það myndast hvítur og mjúkur hluti efst á smjörinu, þarna er um að ræða mjólkurprótín, en þetta þarf að skafa af svo að kökurnar renni ekki út við baksturinn.