Aðfangadagur er á morgun og á mörgum vinnustöðum er unnið til hádegis eða til rúmlega klukkan 1 eða 2 þó að sjálfsögðu séu vinnustaðir þar sem ekki er mögulegt að gefa öllum starfsmönnum frí eftir það. Talsverð umræða er meðal Íslendinga á samfélagsmiðlinum Reddit um hvort að aðfangadagur eigi að njóta sömu stöðu og til að mynda jóladagur og vera að öllu leyti skilgreindur sem hátíðisdagur í lögum og kjarasamningum. Margir virðast sammála því að svo eigi að vera en telja þessa breytingu greinilega ekki vera mjög ofarlega á kröfulista verkalýðshreyfingarinnar við kjarasamningsgerð.
Upphafsmaður umræðunnar er hispurslaus:
„Að þurfa að vinna til hádegis á aðfangadag er glæpur. Afhverju í ósköpunum er aðfangadagur ekki lögbundinn frídagur allan daginn?“
Einn telur að það eigi almennt að vera gefið frí nema kannski í störfum sem eru nauðsynleg fyrir allt samfélagið:
„Eitt af þeim atriðum sem bíður alltaf afgangs í samningnum. Ekki það að ef það er ekki unnið í matvöruverslunum eða nauðsynlegri þjónustu fyrir samfélagið finnst mér venjan að það sé sjálfkrafa frí ef fólk vill.“
Annar þátttakandi í umræðunni er hins vegar ekki sammála því að það sé sjálfsagt að hafa matvöruverslanir opnar fyrri hluta dags á aðfangadag:
„Fólk á líka að vera búið að versla mjólk, gos og nammi fyrir aðfangadag. Það má alveg vera lokað. Og ef það gleymist eitthvað grafalvarlegt má fá lánað frá nágrönnum eða nálægum vinum eða ættingjum ef maður býr ekki svo vel.“
Einn aðili segist alveg til í að skipta út einum frídegi fyrir að hafa frí allan daginn á aðfangadag:
„Ég býð 1. maí í staðinn fyrir þessi „fyrir hádegis“ vinnu á aðfangadag og gamlárs. Það kemur enginn neinu í verk hvort sem er þessa daga.“
Nokkrir þátttakendur benda á að á mörgum vinnustöðum sé nú þegar gefið frí allan daginn á aðfangadag.
Einn aðili sem svarar upphafsmanni umræðunnar bendir honum hins vegar á lausn á ósk hans eftir fríi á aðfangadag:
„Glæpur? Það þarf enginn að mæta til vinnu. Þetta er ekki þrælasamfélag.“