fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 22. desember 2024 09:00

Gunnar Máni Arnarson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið hefur gengið á í lífi Gunnars Mána Arnarsonar undanfarin misseri. Fyrst missti hann heimili sitt og fjölskyldu sinnar í Grindavík og hálfu ári síðar missti hann vinnu sína til átta ára vegna eldsvoðans í Kringlunni.

Þrátt fyrir áföllin þá neitaði Gunnar Máni að gefast upp og einn sunnudagsmorgun vaknaði hann með hugmynd í kollinum og lét slag standa. Hann stofnaði kennitölu og opnaði síðan netverslunina Lune.is.

Reksturinn hefur gengið vonum framar og lítur Gunnar Máni björtum augum fram á veginn.

Ætluðu aldrei að flytja

Gunnar og eiginkona hans, Karen Björk Hafsteinsdóttir, eiga þrjá drengi, sex ára, fjögurra ára og tveggja ára. Þau fluttu til Grindavíkur til að setjast þar að og skapa framtíðarheimili fyrir syni þeirra.

„Við fluttum því við vorum að leita að meira plássi og áttum von á þriðja barninu. Gátum nánast skipt á sléttu á íbúð í Hafnarfirði fyrir draumahúsið í Grindavík,“ segir hann.

„Ég er sjálfur með þetta landsbyggðar-DNA í mér eftir að hafa búið bæði á Hvammstanga og Ólafsvík og er ættaður af Hvammstanga og Hólmavík. Mér fannst það alveg geðveikt, að detta inn í svona lítið samfélag og fara í einhverja ró. Ég sá þetta í hillingum, að ala upp börn þarna. Þetta var líka stutt frá hraðanum og geðveikinni í höfuðborginni ef maður þyrfti á því að halda,“ segir hann.

Fjölskyldan fann fljótt að þarna vildu þau festa rætur. „Við ætluðum aldrei að flytja þaðan,“ segir hann en fjölskyldan náði að búa í Grindavík í tvö ár áður en hamfarirnar hófust.

Þeim leið ótrúlega vel þessi tvö ár. „Samfélagið og fólkið, þetta var dásamlegt. Gott skóla- og íþróttastarf, allt upp á tíu.“

Gunnar Máni Arnarson.

Vildu fara aftur

Þau héldu alltaf í vonina um að þau myndu snúa aftur heim en reglulega bárust slæmar fréttir sem settu strik í reikninginn.

„Þetta er búið að vera erfiðasta ár lífs míns,“ segir Gunnar einlægur.

„Við misstum heimili okkar á einni nóttu. Við vorum að keyra niður Ártúnsbrekkuna á leiðinni heim þegar það var hringt í mig og spurt hvort við værum heima. Ég svaraði neitandi og fékk þær fréttir að ég gæti ekki farið heim, þrátt fyrir að það væri það eina sem okkur langaði að gera. Þegar við vorum komin í Garðabæinn fréttum við að Grindarvíkurvegurinn væri kominn í tvennt og þá rann það upp fyrir mér að ég væri ekki á leiðinni heim. Ég brotnaði niður í bílnum með börnin aftur í og vissi ekkert hvað væri fram undan.“

Fjölskyldan hefur verið á hrakhólum síðan. Þau fluttu fyrir stuttu í fjórða skipti á árinu en eru bjartsýn á að þau séu nú loks komin á endanlegan stað. Til þess að bæta gráu ofan á svart missti Gunnar vinnuna sína nokkrum mánuðum seinna í öðrum hamförum.

„Maður var orðinn sjóaður“

Gunnar vann í Macland í Kringlunni. Hann rifjar upp daginn sem hann fékk símtalið um að verslunin sem hann hafði unnið í síðastliðin átta ár stæði í ljósum logum. Hann og fjölskyldan höfðu verið á Víkingahátíðinni í Hafnarfirði og voru drengirnir að skylmast heima með sverð, kærkomin gleðistund eftir alla erfiðleikana.

Macland fór hvað verst úr brunanum og ákváðu eigendur verslunarinnar að opna ekki aftur í Kringlunni. Gunnar missti vinnuna og vissi ekki hvert næsta skref væri.

„Maður var ekki alveg tilbúinn að díla við þetta líka en maður var orðinn sjóaður að glíma við breyttar aðstæður eftir það sem á undan hafði gengið,“ segir hann.

„Ég reyndi að gera allt sem ég gat til að hjálpa til en svo sá ég í hvað þetta stefndi. Ég hugsaði að ég væri búinn að hlaupa í gegnum, bókstaflega, eld og brennisteinn fyrir einhvern annan. Mig langaði að prófa að gera það fyrir sjálfan mig. Ég er búinn að lifa í einhverri almannavarnaóvissu síðan Covid var eiginlega, mig dreymir Víði Reynisson á nóttunni,“ segir hann kíminn og bætir við: „Ég ákvað bara að skapa mína eigin óvissu.“

Einn sunnudagsmorguninn vaknaði Gunnar með hugmynd í kollinum. Hann stofnaði kennitölu og opnaði netverslunina Lune.is. Hann segir að kveikjan af því hafi meðal annars verið viðtal við verkefnastjóra verðlagseftirlits ASÍ um að það væri lítill munur á verðlagi meðal verslana á rafvörumarkaði.

Gunnar Máni Arnarson.

Ótrúleg tilfinning

Með átta ára reynslu að baki sem innkaupastjóri og alhliða starfsmaður ákvað hann að breyta til og stofnaði Lune.is.

Hann er að selja vörur frá þekktum merkjum eins og Apple og Samsung. Hann er einnig með minna þekkt skandinavísk merki. Hann segist leggja áherslu á að versla við innlenda birgja til að tryggja góða þjónustu.

Gunnar stofnaði fyrirtækið í sumar sem hefur farið rólega af stað. Hann segir að það hafi verið ótrúleg tilfinning fyrst þegar hann sá að einhver væri inni á vefsíðunni.

„Fyrstu dagana var maður húrrandi ánægður yfir að það væri einhver á síðunni og ef það kom einhver pöntun. Núna er maður bara að reyna að elta skottið á sjálfum sér og mér finnst enn jafn ótrúlegt þegar einhver frá Bakkafirði pantar, hvernig vissi hann af síðunni?“

Gunnar segir margt spennandi á döfinni á næsta ári hjá Lune.is og hann horfir björtum augum til framtíðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ólétt örfáum vikum eftir að hafa ættleitt ungan dreng

Ólétt örfáum vikum eftir að hafa ættleitt ungan dreng
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslendingar ósáttir – „Bara algjörlega ónýtt drasl og ekki sami jólasjarminn yfir því eins og áður“

Íslendingar ósáttir – „Bara algjörlega ónýtt drasl og ekki sami jólasjarminn yfir því eins og áður“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dóttir Margrétar og Ísaks komin með nafn – Skírnartertan eins og listaverk

Dóttir Margrétar og Ísaks komin með nafn – Skírnartertan eins og listaverk
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin