Texti: Svava Jónsdóttir
Bloggarinn María Gomez er spænsk í föðurætt. Sumarið 2023 fór María ásamt fjölskyldu í það sem átti að vera einungins þriggja vikna sumarfrí til þorpsins síns í Andalúsíu þar sem spænsku ræturnar liggja. Liðin voru fjögur ár síðan fjölskyldan hafði farið þangað og er óhætt að segja að þessi örlagaríka ferð hafi valdið miklum breytingum á lífi þeirra. Í göngutúr um litla þorpið einn daginn sá María að hús látinnar frænku sinnar, Gloríu, sem hana hafði lengi langað að kaupa, var nú komið á sölu og varð úr að hún festi kaup á húsinu. Fyrr á þessu ári flutti svo María og fjölskyldan alfarið til Spánar þar sem hún hefur fest kaup á öðru húsi á Spáni og langar að reyna að láta langþráðan draum sinn rætast um ferðaþjónustu á svæðinu.
Foreldrar Maríu skildu þegar hún var fimm ára og fluttu þær mæðgur svolítið snögglega til Íslands og segist María hafa við það misst einhvern part af sér, einhvern hluta, sem hún segist alla tíð síðan hafa saknað mikið. „Ég er bæði útlitslega og skapgerðarlega miklu meiri Spánverji í mér heldur en Íslendingur; ég veit ekki hvort það sé út af því að ég bjó á Spáni í frumbernsku eða hvort það tengist genunum. Þegar ég kom til Íslands á sjötta ári var allt sem ég þekkti Spánn, tungumálið mitt var spænska og spænska fjölskyldan var eina fjölskyldan sem ég þekkti en ég vissi auðvitað hver amma mín á Íslandi og ættingar voru. Sum þeirra höfðu komið í heimsókn til okkar út og mamma talaði reglulega við fólkið sitt í síma en fyrir utan það þá kannski þekkti ég þau ekki eins vel og spænsku fjölskyldu mína. Spænska fjölskyldan mín var mjög náin og við frændsystkinin mörg og öll á svipuðum aldri. Það var mikill samgangur á milli og má segja að ég og sum frændsystkini mín á Spáni höfum verið líkari systkinum en frændsystkinum.“
María segir að áður fyrr hafi það oft reynst henni erfitt að vera frá tveimur löndum, tveimur menningarheimum, og viðurkennir að hún segist finna sjálfa sig meira á Spáni heldur en á Íslandi. „Fyrir mér er Spánn svolítið þar sem hjartað mitt slær. Ég er búin að upplifa söknuð til Spánar frá því ég var krakki og hefur það ávallt verið mér hjartans mál að passa upp á að missa ekki tengslin við fjölskylduna mína á Spáni. Ég held að flutningurinn til Íslands hafi verið mér meira sjokk heldur en ég gerði mér grein fyrir. Í fyrstu átti flutningurinn heim bara að vera stutt jólafrí og fór ég með það í huga til Íslands að ég myndi alltaf fara til baka. Það var því smá skrýtið að allt í einu var lífið sem ég þekkti, tungumálið og fjölskyldan mín bara horfið og allt annað sem ég hafði alist upp við. Ég þurfti að læra að tala íslensku en ég skildi hana að hluta þar sem mamma hafði alltaf talað íslensku við mig en ég svaraði á spænsku. Í fimm ár hitti ég ekki ættingja mína á Spáni en ég var send ein út 10 ára gömul með flugi að hitta föður minn og spænsku fjölskylduna. Ég held ég hafi kannski ekki áttað mig á því almenninlega fyrr en á síðustu árum að flutningurinn heim hafi haft svona mikil áhrif á mig og valdið mér þessum mikla söknuði í hjarta í tengslum við spænska menningarheiminn og ræturnar mínar úti en ég hef alltaf sótt mikið í hann mögulega út af þessu. Ég veit það ekki. Ég hef alltaf haldið fast í þessar spænsku rætur, eldað spænskan mat, reynt að fara reglulega út með börnin mín og hlustað á spænska tónlist og alltaf lagt mitt af mörkum til að halda sambandi við fólkið mitt úti. Ég veit ekki hvort þetta sé svona hjá öllum sem koma frá tveimur löndum en ég upplifði það oft að maður var stundum svolítið klofinn.“
María segir að á æskuárunum hafi það verið henni viðkæmt að vera frá tveimur löndum. „Mér fannst vera erfitt og eitthvað eins og til að skammast mín fyrir að vera öðruvísi heima á Íslandi þar sem voru nær engir útlendingar á þessum tíma. Það voru liggur við allir ljóshærðir og með blá augu og voru -dóttir eða -son en ég var dökkhærð og með brún augu og með eftirnafnið Gomez. Ég fékk reglulega spurningar um hvort ég væri ekki íslensk eða hvort ég væri útlensk. Mér leið oft eins og ég væri utangarðs og byrjaði ég á tímabili að kenna mig við þáverandi stjúpa minn og skrifa mig Þorvaldsdóttur. Ég vildi bara alls ekki vera öðruvísi. Mér fannst ég ekki tilheyra neins staðar 100% og það var erfitt sem barn því að börn og unglingar hafa svo sterka þörf fyrir að vilja falla inn í hóp og tilheyra. Ég vildi helst ekki að neinn vissi að ég væri hálfur Spánverji. Og ég upplifði mig á tímabili eins og ég væri þriðja flokks og var með minnimáttarkennd út af því. Hér á Spáni hefur alltaf verið litið á mig sem Spánverja; þess vegna finnst mér ég kannski finna mig meira hér á Spáni, tilheyra og falla svolítið inn í hópinn.
Ég held að margir átti sig ekki á að það getur verið erfitt og stundum flókið að vera ættaður frá tveimur löndum og vita stundum ekki hvorum menningarheiminum maður tilheyrir. Það eru kannski ekki átakanlegir erfiðleikar en samt erfitt fyrir sjálfsmyndina og þá sérstaklega sem barn. Ég held að þeir sem eru ættaðir frá tveimur löndum skilji hvað ég meina. Í dag er ég samt mjög þakklát fyrir að vera ættuð frá tveimur frábærum löndum og finnst mér það vera viss forréttindi sem ég bý að og gefa mér tækifæri sem ekkert allir hafa.“
Árin liðu.
María er fjögurra barna móðir og eignaðist frumburðinn, dóttur, 21 árs og var einstæð móðir í 12 ár. Á þeim tíma lauk María bæði menntaskóla-og háskólanámi í ferðamálafræði en spænsku ræturnar leiddu hana í ferðamálafræðina.
„Ég þurfti að vera útsjónarsöm og redda mér jafnt fjárhagslega og í mörgu öðru; ég þurfti að læra að bora, negla og saga og sjá um nánast öll verk sem venjulega hjónafólk skiptir sín á milli. En ég er þakklát fyrir þessa reynslu og fyrir að hafa þurft að læra að bjarga mér fjárhagslega og almennt í lífinu.“
María segist á þessum árum þó hafa verið dugleg að fara til Spánar og halda sambandi við föður sinn og fjölskyldu þótt hún hafi ekki farið þangað á hverju einasta ári. „Ég hef alltaf haldið góðum tengslum við fólkið mitt á Spáni og haldið fast í þessar spænsku rætur mínar.“ María útskrifaðist árið 2006 í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og vann eftir það meðal annars við miðasölu hjá Flugfélagi Íslands, sem flugfreyja og við að setja upp ferðamálavef sem verkefnastjóri hjá ja.is.
Fyrir utan frumburðinn sem er 25 ára á María þrjú yngri börn sem eru níu, tíu og ellefu ára. Einnig á María þriggja ára barnabarn. „Það er skemmtileg, ákveðin stelpa sem við erum öll alveg ástfangin af.
Á árunum 2013- 2015 var ég bara að eiga börn. Þau fæddust þrjú á rúmum tveimur og hálfu ári þannig að ég var í rúm fjögur ár með ungabarn „non stop“ og fimm ár „straight“ í bleyjuskiptum án þess að fá pásu á milli og tvisvar á þessu tímabili var ég með tvö börn á bleyju þannig að þetta var mjög sérstakt.“
Yngsta barnið var rúmlega eins árs þegar María opnaði heimasíðuna www.paz.is þar sem finna má uppskriftir meðal annars frá Spáni og ýmis ráð varðandi innanhússframkvæmdir og skemmtilegar hugmyndir varðandi innanhússstíl og þar er líka að finna myndir af fallegum heimilum fjölskyldunnar. María hefur verið iðin við að kaupa og breyta húsnæðum í gegnum árin og sýnir hún frá breytingum og framkvæmdum á Instagramsíðu sinni @paz.is og skrifar ýmis ráð með ítarlegum leiðbeingum á bloggsíðunni www.paz.is
Bæði heimasíðan og Instagramsíðan hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár þar sem María er með tryggan fylgjenda- og lesendahóp. „Heimasíðan og Instagramsíðan urðu fljótt minn starfsvettvangur án þess að það hafi nokkurn tímann verið tilgangurinn með stofnun þessara miðla. Ég vissi ekki einu sinni að maður gæti unnið við að vera með Instagram eða blogg þannig að það kom mér svolítið á óvart hvernig það allt fór og er ég er búin að vera í því eiginlega síðan.
Ég er reyndar ekki búin að vera nógu virk síðastliðið ár þar sem tími minn hefur farið í annað og ég hreinlega ekki haft tíma til að pósta né sýna frá. Mér finnst það ferlega leiðinlegt og er alltaf með löngun til að sýna og segja meira frá því sem ég er að stússast í en ég hef orðið vör við mikinn áhuga frá fylgjendum mínum á því sem ég er að gera. Það er því mjög erfitt að hafa ekki meiri tíma til að sinna miðlunum.
Það er kannski líka að hluta til vegna þess að ég var komin með einhverja fullkomnunaráráttu hvað varðaði miðlana og fannst ég alltaf þurfa að pósta áhugaverðu og vel unnu efni og eyddi orðið allt of miklum tíma í að klippa vídeó og vinna myndir til að allt væri sem fullkomnast. Mig er farið að langa að fara bara svolítið aftur í upprunann og hvernig ég póstaði áður en þá bara henti maður inn hráu efni og kom til dyranna eins og maður var klæddur og sagði frá því sem var að gerast hverju sinni án þess að ritskoða sig of mikið eða vera alltaf með fullkomlega unnið efni til að pósta.
Ég held að með stækkandi fylgjendahóp hafi mér fundist ég þurfa að ritskoða mig meira og passa meira upp á hverju maður er að pósta en það er auðvelt að misstíga sig á svona miðlum og mögulega segja eitthvað rangt eða stuða fólk. Þetta er oft fín lína og síðan þarf auðvitað að huga að og virða einkalíf fjölskyldumeðlima og opinbera ekki líf sitt alveg inn að beini en maður auðvitað velur hvað maður vill opinbera og hvað ekki. En ég hef samt ekki fundið neitt nema jákvæðni, stuðning og fengið falleg skilaboð frá fylgjendum mínum, sem getur oft gefið manni hvatningu og styrk varðandi það sem maður er að gera, og mér þykir mjög vænt um það. Ég er núna að stefna á að vera miklu duglegri og byrja aftur að sýna frá og leyfa fólki að fylgjast með lífi okkar hér á Spáni og því sem við erum að brasa.
Ég fæ líka oft frábær ráð frá fylgjendum mínum á sama tíma og ég er að gefa ráð eða miðla af minni reynslu sem getur síðan mögulega verið hvatning fyrir fólk.“
Fjölskyldan fór í sumarfrí til Spánar í fyrrasumar, sumarið 2023, og heimsótti ættingjana í Lugros. Sú ferð var áhrifarík og breytti lífi fjölskyldunnar allverulega.
„Frá því ég var 17 ára hefur það blundað í mér að gera eitthvað í þorpinu hans pabba, Lugros. Ég á þar stóran ættingjahóp en í mörg ár hefur þorpið verið smátt og smátt að deyja út. Íbúar eru í dag ekki nema rétt rúmlega 200 og flestir aldraðir. Fyrir 30 árum voru yfir 100 börn í þorpsskólanum en í dag eru ekki nema kannski rétt um 15-20 börn í skólanum sem er fyrir þriggja til ellefu ára. Unga fólkið flytur yfirleitt í stærri borgir eftir nám til að finna vinnu og smátt og smátt loka barir, veitingastaðir og búðir í þorpinu en í dag er þar að finna einungis einn bar og eina litla verslun sem er á stærð við hjónherbergi og er einungis opin frá klukkan níu til eitt. Mér finnst þetta svo sorglegt því þetta þorp er svo fallegt og hefur svo mikla sérstöðu að svo mörgu leyti. Það er þekkt fyrir nautin sín og gott vín en á árum áður var þar að finna margar víngerðir, nauta- og geitabúgarða og mikið var um ólífurækt og landbúnað.
Flestir þarna eiga jarðir en eru í raun bara að rækta þær til eigin notkunar og til að gefa ættingjum og nágrönnum uppskeruna og gera sitt eigið vín og ólífuolíu bara til að eiga fyrir fjölskyldumeðlimi og vini. Þorpið er í friðuðum þjóðgarði og frekar einangrað efst upp í Sierra Nevada-fjallgarðinum. Náttúrufegurðin er mikil og þorpið er svo ósnortið af ytri menningaráhrifum þannig að maður eiginlega kemst ekki nær spænskri menningu og siðum en þar. Íbúar halda fast í gamlar hefðir og búa yfir löngu gleymdum uppskriftum í bakstri og matargerð og halda fast í gamla siði sem hafa gengið í gegnum ættliði. Mér finnst þetta vera svo falin perla og ég sé ekkert nema tækifæri og möguleika þar. Ég er með svo margar hugmyndir í hausnum um hvað mig langar að gera þarna til að reyna að leggja mitt af mörkum til að hleypa lífi í þorpið og fá fólk inn í það svo það endi ekki á að deyja út.
Þessa hugmynd hef ég gengið með í maganum frá 17 ára aldri eins og ég sagði en hún kviknaði þegar ég var stödd í þorpinu í nokkra mánuði. Ég sá hús sem var að hruni komið í fallegri gróðsællri laut en í því höfðu amma og afi búið og átt öll börnin sín í nema pabba.
Eitthvað við þetta hús og þorpið kveiktu einhvers konar loga inni í mér. Þá sá ég fyrir mér að reyna að kaupa þetta hús þegar ég yrði fullorðin og breyta því í lítið hótel en þá var ekki komið Airbnb né neitt slíkt. Þessi logi varð til þess að ég ákvað að drífa mig til Íslands eftir að hafa búið hjá pabba á þessum tíma í eitt ár smá týnd í lífinu og vitandi ekkert hvað ég vildi læra eða verða í framtíðinni. En þarna má segja að ég hafi fundið mína framtíðarsýn og dreif ég mig því beint heim að klára stúdent í ferðamálafræði og í beinu framhaldi B.Sc í ferðamálafræði. Síðan ætlaði ég eftir nám að koma til baka og starta einhverju sniðugu í þorpinu. Hugmyndin var alltaf að bjóða Íslendingum upp á skemmtilegar „rural“ ferðir þar sem þeir gætu verið hluti af þorpsbúum; gengið um ólífuakrana, vínekrur og í fallegum fjallgarðinum þar sem fjölbreytt dýra- og jurtalíf má finna og langt í burtu frá sólarstrandamenningunni og þar sem væri friður, fegurð og ró. Eins og einn góður vinur minn orðaði það þá má segja að ég sé búin að vera að sá fræjum með þennan draum að leiðarljósi – fræjum að blómi sem síðan myndi ná að springa út, blómsta og vaxa. Mér fannst það svo falleg myndlíking hjá honum.
Ég held að það sé í raun nákvæmlega þannig sem ég hef meðvitað og ómeðvitað kannski verið að stefna að þessari framtíðarsýn minni en námið, allt sem ég hef unnið við og síðan miðlarnir mínir, sem eru smá með spænskum undirtón, eru allt þessi fræ sem ég hef verið að sá til að draumurinn um þorpið mætti einn daginn verða að veruleika. Ég held að flestir fylgjendur mínir viti hver Tita Paz – frænka Paz – er og viti heilmikið um þorpið og svæðið, enda hef ég verið iðin við að segja frá því og gefa uppskriftir úr eldhúsi ömmu, Paz frá Lugros, sem bloggsíðan mín og Instagramsíðan eru kennd við.
Eftir námið tók lífið við og tók aðra stefnu. Ég eignaðist börnin og var í seinni tíð annaðhvort alltaf ólétt eða með barn á brjósti og þetta fór svolítið á bið mætti segja en alltaf var þessi logi, framtíðarsýn, til staðar í sálinni og undirmeðvitundinni.“
Svo fór fjölskyldan til Lugros sumarið 2023 og þá sá María að hús frænku sinnar, Gloríu, var til sölu.
„Það er eins og þessi logi hafi orðið að báli og það varð ekki aftur snúið. Gloría, frænka mín, lést snögglega árið 1995, 33 ára gömul, og húsið hafði síðan staðið autt. Gloría frænka var mér mjög kær en hún og pabbi voru systrabörn. Fyrir utan húsið í lautinni, sem eigendur reyndust síðan ekki hafa viljað selja í gegnum tíðina, var húsið hennar Gloríu hinn möguleikinn sem mig hafði dreymt um að kaupa einn daginn. Á tveimur vikum, eftir að ég fór heim til Íslands eftir þriggja vikna sumarfríið, náði ég að ganga frá öllum gögnum, fá þýðingar, stimpla og ég veit ekki hvað; eitthvað sem tekur vanalega mun lengri tíma að gera. Síðan sneri ég aftur til þorpsins þar sem ég var ein með yngstu börnin tvö í rúma fjóra mánuði. Hugmyndin var þá að nota húsið sem sumarhús þannig að við þyrftum ekki alltaf að vera inn á hjá fullorðinni frænku minni, Paz, sem býr í þorpinu og þannig geta haft meiri möguleika á að koma oftar án þess að finnast maður vera að ryðjast inn á fólk með alla krakkana og því sem því fylgir. En á á meðan ég var þarna í þennan tíma fann ég að ég yrði að gera það sem mig hafði langað að gera síðan ég var 17 ára og byrja smátt með því að hafa Airbnb-gistingu í húsinu.“
Húsið er á tveimur hæðum og er um 180 fermetrar og segir María að kaupferlið hafi verið snúið og þungt og bætir hún við að það hafi verið vegna þess að hún hafi ekki kunnað á skriffinnsluna og kerfið á Spáni sem sé flókið og svifaseint miðað við hvað við á Íslandi erum vön.
María vann marga klukkutíma á dag við framkvæmdir í húsinu, enda búið að standa autt í yfir þrjátíu ár og kominn tími á breytingar og ýmiss konar viðhald til að gera það hæft til útleigu fyrir ferðamenn. Hún segir það hafa gengið ansi brösuglega og er húsið ekki enn tilbúið.
„Ég náði að gera bráðabirgðaíbúð á efri hæðinni eftir að ég hafði áttað mig á því að ég myndi þurfa að dvelja mun lengur í þorpinu með krakkana en í þær þrjár vikur sem við ætluðum upprunalega að vera þar. Þar sem ég var búin að rífa nánast alla neðri hæðina niður og þar með talið eldhúsið bjuggum við við svolítið frumstæðar aðstæður þar sem ég vaskaði upp í bölum og við sváfum á dýnum á gólfinu í ókyntu, ísköldu húsi sem var án einangrunar og hálfopið út á neðri hæðinni en það var oft við frostmark á kvöldin í október og nóvember en okkur leið vel og það væsti ekki um okkur.
Á þessum fjórum mánðum gekk á ýmsu og á meðal þess sem dúkkaði upp á var rotta sem komst inn í húsið, snákur sem birtist út úr vegg sem við vorum að brjóta og termítar sem voru iðandi inni í öllum hurðarkörmum og algjör viðbjóður. En það er búið að henda því öllu út og drepa og gera vörn svo þeir eru ekki lengur til staðar í húsinu.“
Þá fékk María brothamar af fullum krafti í kjálkann en slapp mjög vel með skrekkinn með nokkur saumspor í höku og brákað viðbein.
Hún hafði upphaflega gert ráð fyrir að iðnaðarmenn myndu vinna í húsinu en í ljós kom að það væri eins til þriggja ára bið eftir iðnaðarmönnum á svæðinu.
„Ég hélt í einfeldni minni að það yrði ekkert mál að finna iðnaðarmenn þannig að ég byrjaði sjálf að brjóta niður veggi og undirbúa þannig að þeir þyrftu svo bara að byggja upp. Svo komst ég að því að það fengust engir iðnaðarmenn þannig að ég hjakkaðist áfram í að reyna að gera sem mest sjálf. Og þetta ílengdist endalaust. Rafmagnið var ekki frágengið og það var leki og það var alltaf eitthvað nýtt að koma upp á. Og á meðan var ég alltaf að reyna að finna iðanaðarmenn sem ég fann aldrei.“
Slysið hafði áhrif.
„Eftir slysið ákvað ég að láta kyrrt liggja og fór svolítið að reyna að njóta með krökkunum og þorpsins í staðinn fyrir að vera alltaf á fullu. Ég setti þau í þorpsskólann tvo síðustu mánuðina þar sem þau voru á morgnana frá klukkan níu til tvö og á daginn lærðu þau fyrir íslenska skólann þar sem þau voru í fjarnámi. Börnin tvö sem voru með mér úti vildu ekki fara heim til Íslands. Þeim leið rosalega vel hérna. Og það hjálpaði mér að taka ákvörðun um að láta þennan draum frá því ég var 17 ára rætast. En þetta var mjög skrýtinn tími; hann var bæði góður og vondur í senn en ég lærði mikið af þessu og þetta var góður undirbúningur undir það sem ég er að standa í núna en núna finnst mér allt vera auðveldara. Ég skil miklu betur kaupferlið, skriffinnskuna og hvernig ég á að snúa mér í öllu plús það að ég er örugglega 50% betri í spænsku núna heldur en ég var í fyrra.“
María sneri aftur heim eftir hálfs árs veru í Lugros með börnin. Hún fór svo eftir það í tvær stuttar ferðir.
„Það var erfitt að finna sig aftur á Íslandi eftir lífsreynsluna í Lugros og með þessa brennandi þrá í hjarta að komast út og láta þessa langþráðu framtíðarsýn um ferðaþjónustu í þorpinu verða að veruleika. Ég fór út í febrúar á þessu ári og var í tvær vikur aftur í apríl. Ég held að ég hafi svolítið verið að kynda undir áhuga hjá fólkinu mínu að langa að flytja með mér út og láta þetta allt verða að veruleika. Það var ekki hlaupið að því að sannfæra hluta af krökkunum að flytja í lítið, frumstætt þorp á Spáni til að hefja þar nýtt líf svo ég gæti látið minn draum rætast.
Síðan vildi svo furðulega til í seinni ferðinni í apríl að það kom aftur upp svona staða eins og um sumarið þegar ég fann húsið hennar Gloríu fyrir algjöra tilviljun á sölu. Það var eins og örlögin væru að toga eitthvað í mig.
Einn daginn bankaði kona úr þopinu upp á hjá mér, kona sem ég þekkti ögn til, og hún sagðist vilja selja húsið sitt í Lugros. Hún spurði hvort ég gæti hjálpað sér að taka ljósmyndir af því til að setja á sölu. Þegar ég fór á staðinn til að taka myndir komst ég að því að þetta er eina húsið í þorpinu sem er þess eðlis að hægt sé að bjóða ferðamönnum upp á gistingu. Það hafði áður verið með gistleyfi og var byggt þannig að á neðri hæð væri hægt að leigja út tvær litlar íbúðir auk þess sem hægt væri að búa með fjölskyldunni á efri hæðinni. Ég hafði ekki hugmynd um að þetta hús byggi yfir þessum eiginleikum og hefði áður verið einhvers konar „rural hostel“; einhvern veginn hafði það bara farið alveg fram hjá mér.
Þegar ég áttaði mig á því að sá möguleiki væri til staðar að leigja þarna út tvær einingar á Airbnb auk þess að leiga húsið sem við keyptum árinu áður þá bara var ekki aftur snúið. Ég fékk hugmyndina að selja bara allt heima, borga upp húsnæðislán og skuldir, hefja nýtt líf úti og fara á fullt í að byrja í ferðaþjónustu í þorpinu.
Loks var húsið heima sett á sölu og eiginlega bara allt sem maður átti. Ég tilkynnti þessari konu að ég hygðist kaupa húsið og á uppsettu verði sem þykir ansi hátt í þorpinu en myndi teljast grínverð þannig séð heima. Húsið heima á Íslandi var því selt, húsgögnin, bílarnir og í raun næstum allt til þess að kaupa húsið hennar. Allt gekk upp.
Ég hélt í blindni minni og einfeldni kannski að það væri hægt að treysta þessari konu en ég þekki vel til systur hennar og taldi enga aðra ástæðu til annars en að treysta henni, enda vissi ég svo sem að hún fengi aldrei þetta verð fyrir húsið frá neinum Spánverja og það myndi taka hana eflaust mörg ár að selja það því húsin þarna seljast hægt. Hún sagði við mig að það þyrfti ekkert að gera staðfestingarsamning eða innborgunarsamning eins og er oft hérna á Spáni, sem kallast contrato de arras, sem er eins konar bindandi kauptilboð og er gerður á milli einkaaðila án fasteignasölu sem millilið og með innborgunargreiðslu og á að tryggja báða aðila. Á þessu svæði er mjög mikið um að sala og kaup fari bara fram á milli einkaðaila án nokkura milliliða nema þá kannski í mesta lagi lögfræðings ef um einhverjar flækjur eru að ræða.
Þegar ég svo tilkynnti henni að allt væri klappað og klárt mín megin frá og búið að selja allt á Íslandi og tilbúið til að koma beint út og fara í kaupsamning kom í ljós að hún vildi fá 160.000 evrur af kaupverðinu í svörtum pening. Ég hélt fyrst að hún væri að djóka, enda vita allir í dag að eftirlit með fjársvikum alls staðar í heiminum er mjög mikið og strangt fyrir utan að það var ekki séns að maður ætlaði að fara að taka þátt í svörtum viðskiptum og hefja nýtt líf í nýju landi sem einhver fjársvikari og glæpamaður,“ segir María og hlær.
„Ástæðan fyrir þessu var sú að þessi kona vildi ekki borga söluhagnaðarskatt af húsinu sínu, sem á Spáni getur oft reynst ansi hár, en þar er sama hversu lengi þú hefur átt húsnæði og búið í því: Þú þarft alltaf að borga háa prósentu í söluskatt af mismuninum af því sem þú kaupir húsið á það ár sem þú kaupir það og selur það þó um tugi ára sé að ræða og kaupmáttur og verð á fasteignamarkaði búið að breytast til muna á þessum árum. Hún vildi sem sagt fá þessa upphæð í svörtu og ef við værum ekki tilbúin í þannig glæpakaup þá áttum við að gjöra svo vel að borga tæpar fimm milljónir í söluhagnaðarskattinn sem henni bar að greiða til ríksins þrátt fyrir að við værum að kaupa af henni húsið fyrir mun hærri fjárhæð en henni gæti nokkurn tímann dreymt um að fá fyrir húsið.
Þarna er því ákveðið að gefa skít í þetta hús en fara samt sem áður út og halda plani þrátt fyrir að standa uppi þannig séð húsnæðislaus og búin að selja allt. Ég stóð uppi með ekkert nema húsið sem ég keypti árinu áður í þorpinu sem var í raun varla húsnæðishæft þar sem það er hálffokhelt og ekki einu sinni með eldhúsi né kyndingu. Byrjað var því á að flytja bara í það hús og finna svo út úr hlutunum. Þannig að við lögðum af stað og fluttum til Spánar 1. ágúst með aleiguna okkar – fjóra kassa og níu ferðatöskur – og vorum eins og sæt lítil sígaunafjölskylda á leið upp í þorpið í sendiferðabíl frá Málaga með aleiguna okkar aftur í.
Svona hófst lífið okkar á Spáni. Við sváfum fimm saman í einu pínulitlu herbergi á vindsængum vaskandi upp í bölum, með hundana okkar tvo að auki sem voru skítandi og ælandi út um allar trissur vegna hitabylgju sem var á Spáni nánast allan ágúst. Þetta var visstævintýri og reyndi allverulega á alla. Svona bjuggum við í einn og hálfan mánuð en ég var ákveðin í að bara leyfa hlutunum að koma til mín.
Ég vildi helst bara finna hús í litla þorpinu mínu, Lugros, og byrja að skoða hús í þorpinu og næsta nágrenni. Því miður fannst ekkert hús í Lugros sem hentaði, en fólk þar var svolítið að biðja um hátt verð fyrir hálfgerða kofa sem voru ekki helmingsins virði af því sem þau voru að biðja um, þannig að það endaði á því að ég fann svaka flotta villu á spotprís sem fest var kaup á í þorpi sem heitir El Bejarín og er um í korters akstursfjarlægð frá Lugros.“
María segir að húsið, sem er vel yfir 400 fermetrar og með sundlaug í garðinum, sé á svæði sem er tengdara öllum samgöngum á svæðinu og er styttra til borgarinnar Granada. Þess má geta að Lugros er í um 1200 metra hæð yfir sjávarmáli en El Bejarín í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli. „Lugros er miklu afskekktara og lengst uppi í fjalli. Húsið var afhent um miðjan september og er maður smátt saman að reyna að vinna í því og gera það ögn nútímalegra og í þeim stíl sem ég er hrifin af.“
Í raun er húsið í góðu ástandi og það þarf í raun ekkert þannig séð að gera en þegar María kaupir hús þá vill hún alltaf breyta þeim að sínum stíl og smekk. „Það fer alltaf út í einhverja klikkun; í hvert skipti sem ég fer út í að kaupa hús verður miklu meira sem þarf að gera en hugmyndin var í upphafi. Það er núna búið að brjóta út úr hurðargötum og taka niður arabíska gifsboga og breyta þeim í hefðbunda andalúsíska boga. Ég ætla samt að reyna að vinna úr efniviðnum sem er til staðar út af því að þetta er mjög gott hús. Þetta er ekki hefðbundið, spænskt hús úr múrsteinum og óeinangrað þar sem getur verið kalt inni heldur er í húsinu gott hitakerfi, ofnar eru á veggjum og húsið, sem var byggt árið 2006, er einangrað. Þetta er svolítið barn síns tíma af því að smekkurinn hér á svæðinu er öðruvísi en ég á að venjast; litadýrðin er önnur en ég er vön. Ég vil hvíta veggi en hér eru veggir til dæmis bláir, gulir og bleikir, gólfefnin eru pylsulitaðar gólfflísar sem eru kaldar og líta út fyrir að vera útiflísar, hér eru karrýgulir veggir í bland við appelsínulitaða viðartóna og ég eiginlega verð alveg „overstimuleruð“ á að vera hérna inni.“ Hún hlær. Þetta er rétt í startholunum en þetta verður vonandi flott heimili þar sem öllum mun koma til með að líða vel.“
Húsið er á rúmlega 800 fermetrar eignarlóð og þar er fyrrnefnd sundlaug, útieldhús og dýrahús – þar sem fyrri eigendur voru með dúfur, hunda og fleira. María segir að ef til vill verði útbúin þar vinnuaðstaða þannig að hún gæti kannski haldið þar matreiðslunámskeið þar sem hún gæti kennt Íslendingum að matreiða spænska rétti frá svæðinu og einnig kennt Spánverjum hvernig eigi að elda íslenskan mat en hún segir að á Spáni sé mikill áhugi á Íslandi. Hún nefnir skúffuköku- og kleinubakstur í þessu sambandi.
„Þetta er svaka áhætta auðvitað sem maður er að fara út í. Það er ekkert ákveðið hversu lengi maður ætlar að vera hérna úti og standa í þessu. Húsnæðisverð hérna er fáránlega lágt og hefði ég getað keypt fjögur svona um 400 fermetra, sjö herbergja hús með þremur baðherbergjum og með sundlaug í garðinum fyrir verðið sem fékkst fyrir húsið á Íslandi. Það þarf samt eitthvað að fara að gerast með húsið hennar Gloríu í Lugros en það er eins og er bara alveg stopp en ég þarf að fara að byrja á því sem maður fór út í til að byrja með, allavega byrja á að leigja það hús á Airbnb og ef vel gengur þá kannski gera eitthvað meira skemmtilegt. En maður tekur einn dag í einu. Maður er að skoða alls konar hluti,“ segir María og nefnir fleiri möguleika varðandi að reka ferðaþjónustu fyrir utan húsið í Lugros þegar það verður tilbúið og þá einnig í Lugros eða öðrum þorpum á svæðinu.
„Ég held að það sé góður markaður fyrir svona „rural“ túrisma þar sem fólk kemur í lítið þorp þar sem er enginn túrismi og þar sem fólk er í friði. Það eru vínekrur og ólífuekrur á svæðinu og falleg gönguleið sem kallast El Camarate og það tekur um 40 mínútur að aka frá Lugros að skíðasvæðinu í Sierra Nevada, það tekur um 30-45 mínútur að aka til Granadaborgar eftir því hvort ekið er frá Lugros eða þorpunum neðar, 45 mínútur til einu „tropical“ strandlengjunnar í Evrópu, Costa tropical eða Costa Granada, rúman klukkutíma til Almería og tæpan einn og hálfan klukkutíma til Málaga.“ Og á Costa del Sol, Costa Granada og Almería er jú hægt að flatmaga á ströndinni.
„Lugros er á svo flottum stað og býður upp á marga möguleika og hugsunin hjá mér er að hleypa aðeins aftur lífi í þorpið. Ég ætla svo sem ekki að bjarga því en einhver verður að byrja. Eftir að ég sagði frá hugmyndinni minni virðist það hafa ýtt við fólki en ég hef heyrt að nokkrir séu að skoða þann möguleika að leigja hús á Airbnb sem þeir eiga og eru tóm yfir veturinn en þetta eru yfirleitt aðilar sem eru fluttir úr þorpinu í stærri borgir og koma hingað rétt yfir sumartímann í heimsókn. Margir í þorpunum hérna vita ekki einu sinni hvað Airbnb er. Þannig að ég sé ekkert nema tækifæri og möguleika hérna.“
Nýja húsið í El Bejarin var afhent í haust á sama tíma og krakkarnir byrjuðu í kaþólskum, hálfeinkareknum og hálfríkisreknum skóla. „Skólinn er svo strangur að maður hefur þurft að sitja sveittur í marga klukkkutíma á dag við að hjálpa börnunum við heimalærdóminn.
Næstum því allt, það litla sem var tekið með, er ennþá í kössum og ferðatöskum. Það hefur varla verið hægt að gera nokkurn skapaðan hlut við húsið í Lugros til að leigja það út á Airbnb né heldur ekkert í þessu húsi fyrr en fyrir mjög stuttu síðan þar sem kaupsamningur dróst í tvo mánuði og á meðan var bara leigusamningur á húsinu og bannað að byrja á neinum framkvæmdum á meðan. Það var ekki farið í kaupsamning fyrr en mánaðamótin október nóvember svo þetta er allt búið að vera svolítið mikið á „hold“ alltaf og ég orðin frekar óþreyjufull að geta hafist handa á því sem ég kom út fyrir. Þetta er búið að vera rosalegt ferli og alveg brjálæðislega erfitt. Það er frá því ég keypti húsið fyrir ári svolítið allt búið að fara úrskeiðis sem gæti farið úrskeiðis; byrjendaóheppnin virðist svolítið hafa ætlað að elta mig. Ég spyr mig stundum hvort þetta allt sem ég hef stefnt að muni nokkurn tímann verða að veruleika. Hér gerist ekkert auðveldlega en ég er ákveðin í að gefast ekki upp. Þetta er búinn að vera svolítið stór pakki síðasta rúma árið; kannski aðeins stærri en ég gerði mér grein fyrir í upphafi. En ég læt ekki deigan síga; held áfram en kannski ekki eins hratt og ég gerði ráð fyrir í uppphafi.“
Er þetta þess virði?
„Já, þegar ég er vel stemmd finnst mér það,“ segir María og hlær. „Ég spyr mig oft hvern fjandann ég sé að gera og hvað ég er búin að koma mér út í út af því að allir hafa þurft að færa fórnir. Þetta er rosa erfitt á köflum fyrir suma krakkana. Það koma góðir dagar og slæmir dagar. Þau eru svolítið tvístruð af því að partur af þeim vill vera hérna á meðan hinn vill það ekki þannig að þetta er búið að taka líka svolítið á að því leytinu til. Ég skil alveg að það sé erfitt að vera rifinn upp frá öllu sem maður þekkir, enda búin að upplifa það sjálf sem barn. Mér líður stundum eins og ég sé að fara fram á of mikið. Þau kunna ekki spænsku og eiga erfitt með að aðlagast menningunni hérna og hugarfarið hér er svo allt annað. Þannig að ég er búin að vera svolítið með allt á herðum mér og bera þungann og ábyrgðina svolítið þar sem mér finnst ég líka svolítið bera ábyrgð á að þetta muni allt fara vel, krökkunum líða vel og að allt gangi upp.
Þegar maður segist ætla að flytja til útlanda sér fólk það í hyllingum. En þetta er náttúrlega miklu meira en að segja það. Þetta er brjálæðislega töff – að aðlagast, koma öllum inn í hlutina og fóta sig í byrjun, vera með lítið og sama sem ekkert stuðningsnet á staðnum og þurfa að læra svolítið allt upp á nýtt. Þetta er rosalega stór, mikill og erfiður pakki. Þetta er ekki bara dans á rósum eins og maður kannski heldur þegar maður segist upphátt vera að flytja til útlanda. En þetta er samt líka flott og þroskandi reynsla held ég fyrir alla. Og ég trúi því að börnin muni búa að þessu ævinlangt, sérstaklega ef þau ná tungumálinu.
Skriffinnskan hérna er eins og ég veit ekki hvað. Stofnanir tala ekki saman. Maður er hlaupandi með gögn á milli stofnana; allt tekur endalausan tíma og mér líður stundum eins og ég sé að drukkna. Það er að mörgu að huga þegar maður er að skrá sig alveg upp á nýtt inn í nýtt land þar sem maður er ekki til í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu né neins staðar í kerfinu en það mun einhvern tímann taka enda og vonandi róast. En þrátt fyrir allt kemst ég alltaf að þeirri niðurstöðu að ég veit að einhvern tímann verður þetta þess virði. Hvenær veit ég ekki. En ég held alltaf í þá von og föstu trú að það verði. Og ég er bara einbeitt á að það skuli einhvern tímann verða. Ég veit að það mun gerast en það er kannski lengra í það en ég hélt. Ég er oft búin að heyra setninguna „bueno, poco a poco“ eða „smátt og smátt“ – samanber „þetta reddast“ – og ég held að maður verði svolítið bara að taka þetta á þeim hugsunarhætti, hugsa þetta á tempói Spánverjanna.“
Faðir Maríu lést fyrir nokkrum árum og erfði hún jarðirnar hans í Lugros.
„Mig langar til að gera eitthvað með þær; þar eru ólífutré, þar voru áður líka vínekrur og akur og heilmikið sem maður getur farið að rækta. Svo það er ansi margt sem maður er með í hugmyndabankanum og langar að gera hérna.“
Hvert er plan B?
„Maður getur alltaf komið til baka. Ég reyni að fara varlega í þetta. Passa upp á fjárhagslegt öryggi; að éta ekki upp peninginn eða að hann brenni upp svo maður komi ekki til baka slypp og snauð. Ef þetta gengur ekki er alltaf hægt að snúa til baka án þess að þurfa að byrja kannski upp á nýtt ef maður stendur rétt að hlutunum.
En lífið er stutt og maður verður líka að að þora að taka áhættu. Ég nenni ekki að lifa lífi þar sem ég þori engu og alltaf hrædd um að það gæti allt farið á versta veg. Þá myndi maður staðna og gera ekki neitt. Maður þarf að þora að taka áhættu án þess þó að ana ekki áfram út í í hluti sem falla síðan um sjálfa sig. Maður þarf að vera vel upplýstur og skoða hlutina vel og taka yfirvegaðar og vel ígrundaðar ákvarðanir.“
Það er í Granada-héraði þar sem fjallageitur, villisvín og refir lifa sem er orðið heimavöllur Maríu Gomez. Og það er þar sem hitinn færir roða í kinn á sumrin og eplakinnar á veturna þegar kalt er – jafnvel frost.
Spánn er ævintýralandið í suðri sem María elskar og þar sem hjartað hennar slær en hún er þó ekki að berjast við vindmillur eins og Don Quijote þótt allt hafi ekki gengið eins og vonir stóðu til í upphafi.
„Ég held að framtíðin sé björt og ég vona að það muni koma að því að ég geti boðið Íslendingum upp á að koma og sjá og upplifa þetta fallega svæði og þorpið mitt sem mér þykir svo óendanlega vænt um.“