Óhætt er að segja að frægðarsól íslensku tónlistarkonunnar Laufeyjar haldi áfram að rísa. Nú er hún orðin stærri en Bítlarnir á tónlistarstreymisveitunni Spotify.
Ein leiðin til að mæla vinsældir tónlistarfólks, alla vega hjá ungu fólki, er að sjá hversu marga mánaðarlega hlustendur þeir hafa hjá sænska streymisrisanum.
Laufey er nú komin með 33,8 milljónir mánaðarlega hlustenda. Þar með hefur hún, allavega tímabundið, náð að skáka sjálfum Bítlunum sem oft eru nefnir merkilegasta hljómsveit sögunnar. En þeir hafa „aðeins“ 33,1 milljón þegar þetta er skrifað.
Laufey á hins vegar enn þá eftir að ná því afreki að koma einu lagi í milljarð hlustanir eins og tvær íslenskar hljómsveitir hafa gert. Það er Of Monsters and Men með lagið „Little Talks“ og Kaleo með lagið „Way Down We Go.“
Mest spilaða lag Laufeyjar er „From the Start“ sem hefur 566 milljónir hlustanir. Það er nú samt ekkert slor.