Ein fyndnasta kona landsins Edda Björgvinsdóttir leikkona brá sér í heimsókn í verslunina Elley á Seltjarnarnesi og gaf þeim drjúgan hluta af töskusafninu sínu.
„Edda sagði okkur frá því að hún falli alltaf fyrir skemmtilegri tösku þegar hún kíkir erlendis og sé fræg fyrir töskusafnið sitt hjá sinni fjölskyldu,“ segir í færslu á Facebook-síðu Elleyjar ásamt myndum af Eddu með töskusafnið.
„Edda er með hjarta úr gulli en hún hefur meðal annars verið að starfa fyrir og vekja athygli á því ómetanlega starfi sem á sér stað hjá Píeta samtökunum.“
Elley er óhefðbundin og einstök verslun, en verslunin er rekin alfarið í sjálfboðastarfi og rennur allur ágóði sölunnar óskiptur til Kvennaathvarfsins. Konur sem dvelja í Kvennaathvarfinu geta einnig komið í verslunina og fengið fatnað ef á þarf að halda, bæði fyrir sig og börn sín.
Sigríður Marta Harðardóttir, er eigandi Elleyjar og þangað geta allir gefið notuð föt og aðra muni sem síðan eru seld til styrktar Kvennaathvarfinu.
Í frétt RÚV þann 30. júní var greint frá því að frá því verslunin opnaði í byrjun árs 2023 hefði rúmlega sex milljónir safnast. Það er hærri upphæð en framlög allra sveitarfélaganna að Reykjavík undanskilinni. Á aðalfundi Samtaka um kvennaathvarf í apríl síðastliðnum var Sigríður Marta heiðruð fyrir framlag sitt til samtakanna. Hún er stærsti einstaki styrktaraðili þeirra en í fyrra söfnuðust 3,5 milljónir. Í frétt RÚV sagðist Sigríður Marta stefna að því að safna 10 milljónum fyrir árslok.