Hin ráðagóða Abby hefur svarað lesendum bandarískra fjölmiðla síðan á sjötta áratug síðustu aldar. Hún hefur verið svo vinsæl að eftir að hin upprunalega Abby, Pauline Esther Phillips, lést árið 2013 tók dóttir hennar, Jeanne Phillips, við keflinu.
Abby tekst á við ýmislegt sem brennur á lesendum hennar og endurspegla svör hennar stundum breytingar í samfélaginu sem fólk hefur ekki endilega áttað sig á. Gott dæmi um þetta er fyrirspurn sem Abby svaraði í dag þar sem ung móðir leitaði ráða eftir að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með tengdaforeldra sína.
„Kæra Abby. Ég og eiginmaður minn eigum yndislega dóttur sem er tæplega tveggja ára. Áður en hún kom í heiminn voru foreldrar mínir og foreldrar manns míns mjög spennt og ræddu mikið um hvernig líf þeirra sem ömmur og afar yrði. Við fundum bara á okkur að þau yrðu svo virkir þátttakendur að það myndi gera okkur hálf geðveik. En annað kom á daginn.“
Unga móðirin útskýrði að foreldrar hennar séu enn útivinnandi og vinna 40 klukkustunda vinnuviku ásamt því að hugsa um fimm ára hálfbróður hennar sem greindist nýlega með einhverfu. Unga móðirin hafði því skilning á því að þau gætu lítið hjálpað til með barnabarnið. Annað ætti þó við um tengdaforeldra hennar.
Tengdaforeldrarnir séu bara alltof uppteknir af sjálfum sér. Þau séu mikið að skella sér tvö í bústað og leggja stund á áhugamál á borð við að kafa og sauma bútasaumsteppi með saumaklúbbnum sínum. Þau hringi reglulega og deili skemmtisögum og spyrji hvernig barnabarnið hefur það.
„Ég veit að hlutverk ömmu og afa hefur breyst. Þau eru nú að upplifa frelsið eftir að hafa alið upp sín eigin börn. Og þau eru ekki ókeypis barnapössun í mínum augum.“
Það valdi þó vonbrigðum hvað þau hafi lítinn áhuga á barnabarninu. Nú sé litla stúlkan að verða tveggja ára og foreldrar ungu móðurinnar komast ekki í afmælið því þau eru föst í vinnu. Þau hafi þó vitað með góðum fyrirvara hvað stóð til en lögðu ekki á sig að redda sér fríi. „Ég er miður mín“ .
Ung móðir leitar ráða út af sjálfhverfum tengdaforeldrum – „Mér finnst eins og við séum bara að ala dóttur okkar upp alein með enga hjálp frá stórfjölskyldunni. Ég er reið að þau séu að missa af þessum dásamlega litla einstakling og að þeim finnist allt annað mikilvægara en barnabarnið. Er ég með óraunhæfar kröfur til þeirra? Er rangt af mér að vera pirruð yfir þessu?“
Abby svarar að tilfinningar séu í eðli sínu hvorki réttar né rangar. Þetta eru tilfinningar og þær byggjast ekki alltaf á sanngirni eða rökhugsun.
„Ég dæmi þig ekki fyrir tilfinningar. En spurðu sjálfa þig hvort reiði sé gagnleg eða hvort hún sé hindrun í samskiptum þínum við foreldra þína og tengdaforeldra. Foreldrar þínir eru að hugsa um barn með fötlun og eru þar að auki í fullri vinnu. Að fyrirlíta þau fyrir að mæta ekki í afmælið til tveggja ára barns er bara tímasóun.
Tengdaforeldrar þínir, burtséð frá því hvað þau sögðu þegar þú varst ólétt, virðast hugsa út frá eigin hagsmunum fremur en hagsmunum barnabarnsins. Er það leiðinlegt? Já, en það þýðir ekki að pirra sig á því og betra er að sætta sig við orðinn hlut og halda lífinu áfram.“
Unga móðirin lýsir hér stöðu sem margir foreldrar kvarta undan. Gjarnan er talað um að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn en margir foreldrar upplifa sig eina á báti, því þorpið er ekki lengur til staðar eða er hreinlega of upptekið til að geta tekið þátt í að ala upp börn annarra.