Í dag 19. desember, voru tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna kynntar á Borgarbókasafninu Grófinni. Að verðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Þau eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.
Sjö bækur eru tilnefndar, en alls barst 62 bækur frá 15 útgáfum.
Tilnefndir þýðendur eru:
Árni Óskarsson fyrir þýðingu sína Hnífur: Hugleiðingar í kjölfar morðtilraunar eftir Salman Rushdie, Mál og menning gefur út.
Salman Rushdie lýsir líðan sinni eftir ofsafengna hnífaárás á sig. Hann segir mjög nákvæmlega frá viðbrögðum sínum og óvæntum bataferli. Lýsingar eru oft hárnákvæmar, næstum eins og hann haldi sjálfur á hnífi og sneiði niður lið fyrir lið. Árna tekst ákaflega vel að setja á fallegt mál djúpan sársauka og hugleiðingar höfundarins í kjölfar árásarinnar. Hér er á ferð reyndur rithöfundur og snjall þýðandi.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir fyrir þýðingu sína Saga af svartri geit eftir Perumal Murugan, Angústúra gefur út.
Saga af svartri geit á rætur að rekja til Suður-Indlands og þar er sögusviðið. Aðalpersónurnar eru gömul hjón og örlítil svört geit sem þeim er gefin. Tilvera geitarinnar á eftir að umbylta lífi gömlu hjónanna. Þýðing Elísu Bjargar er blátt áfram, á afar fallegu íslensku máli sem leiðir lesendur á framandi slóðir.
Gyrðir Elíasson fyrir þýðingu sína Undir eplatrénu eftir Olav H. Hauge, Dimma gefur út.
Það hversdagslega og smáa sem verður á vegi skáldsins kveikir oft hugmynd að ljóði sem virðist við fyrstu sýn einfalt og blátt áfram en ef staldrað er við, er margræð merking undir yfirborðinu. Gyrðir Elíasson fer fimum fingrum um verk hins norska skáldbróður síns. Það er mikill fengur í þýðingum Gyrðis sem enn einu sinni beitir sínu einstaka innsæi og orðlist við þýðinguna.
Jóna Dóra Óskarsdóttir fyrir þýðingu sína Hjálparsagnir hjartans eftir Péter Esterházy, Ugla gefur út.
Hjálparsagnir hjartans er óvenjulegt bókmenntaverk. Sagan lýsir harmi höfundar yfir móðurmissi á einstakan hátt. Höfundur dregur lesendur út um víðan völl og kemur þeim á óvart enda býr margt undir. Sagan er allt í senn óhugnanleg, heillandi og nýstárleg. Jóna Dóra Halldórsdóttir þýðir söguna úr frummálinu, ungversku, á fallega íslensku af mikilli kunnáttu og listfengi.
Jórunn Tómasdóttir fyrir þýðingu sína Brotin kona eftir Simone de Beauvoir, Háskólaútgáfan gefur út.
Simone de Beauvoir er þekkt fyrir skrif sín um konur, stöðu kvenna í samfélaginu, hversu viðkvæm hún er á frelsandi tímum á sjöunda áratug síðustu aldar. Jórunni tekst að flytja til okkar heim kvenna og upplifanir á tímum tilvistarkreppu. Þýðingin er fáguð og látlaus.
Þórdís Gísladóttir fyrir þýðingu sína Þessir djöfulsins karlar eftir Andrev Walden, Benedikt bókaútgáfa gefur út.
Þessir djöfulsins karlar lýsir óhefðbundinni fjölskyldu. Skyggnst er inn í heim drengs sem þarf sífellt að kynnast nýjum ástmönnum móður sinnar. Sjónarhornið er einlægt, barnslegt og oft fyndið þótt undir búi djúp og viðkvæm kvika. Þórdís Gísladóttir nær að fanga lágstemmdan anda sögunnar í hlýrri og blæbrigðaríkri þýðingu.
Æsa Guðrún Bjarnadóttir og Sverrir Jakobsson fyrir Risaeðlugengið, Leyndarmálið eftir Lars Mæhle og Lars Rudebjer, Mál og menning gefur út.
Fjörleg og skemmtileg saga fyrir börn úr vinsælum bókaflokki. Æsa Guðrún og Sverrir þýða á vandaða og lipra íslensku og er bókin líkleg til að auka við orðaforða lesenda og hugmyndaheim.
Forseti Íslands mun svo veita verðlaunin í febrúar á næsta ári.
Í dómnefnd sitja Guðlaug Guðmundsdóttir, Jóhanna Jakobsdóttir og Guðrún Tulinius sem jafnframt er formaður nefndarinnar.