Brandon Thomas Lee segir að móðir hans sé frábær manneskja. Hún var alltaf til staðar fyrir hann og nú geti hann verið til staðar fyrir hana. Brandon hefur starfað sem leikari en undanfarið hefur hann tekið sér sæti á bak við myndavélina sem framleiðandi. Hann ræddi við Variety um nýjasta verkefni Anderson, kvikmyndina The Last Showgirl en leikkonan var nýlega tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir frammistöðu sína í myndinni.
Brandon er einn framleiðandi myndarinnar og segir að tilnefningin skipti fjölskylduna miklu. Hann vonar að myndin marki kaflaskil fyrir Anderson, sem eigi skilið allan heiminn og meira til.
„Þetta er afrakstur langrar vegferðar og mikillar vinnu, þetta er ákveðið hámark af þessari stund sem hún er nú að eiga, sem er bara upphafið“
Pamela Anderson fékk snemma á sig ákveðinn stimpil. Hún var ljóshærð kynbomba sem varð fræg eftir að hún sat fyrir í Playboy og lék í sjónvarpsþáttunum Baywatch. Þetta varð til þess að fólk hélt því ranglega fram að hún væri vitlaus og að hún væri ekkert nema útlitið. Anderson á tvo syni með fyrrverandi eiginmanni sínum, trommaranum Tommy Lee. Eftir að synir hennar komu í heiminn steig hún úr sviðsljósinu til að einbeita sér að uppeldinu. Á síðasta ári ákvað hún að losa sig við kynbombustimpilinn. Hún gaf út endurminningar sínar og steig fram í heimildarmyndinni Pamela, A Love Story sem sonur hennar Brandon framleiddi.
Brandon komst við í viðtalinu þegar hann talaði um mömmu sína og hvað hún átti erfitt uppdráttar í Hollywood. Hún hafi sagt syni sínum að hún myndi ávallt þurfa að sanna sig fyrir fólki sem hefði engan áhuga á því að vita hvaða í henni býr.
Brandon ber mikla virðingu fyrir móður sinni sem kristallast í viðtalinu þar sem hann ræðir hana sem móður sína þegar það á við en kallar hana Pamelu þegar hann ræðir um feril hennar.
„Heimildarmyndin og bókin gáfu Pamelu tækifærið til að segja heiminum sögu sína með sínum hætti. Þegar við fengum tækifærið til að gera þetta þá var það aftast í hausnum á mér að markmiðið með þessum verkefnum var ekki að skapa henni tækifæri – markmiðið var að fá fólk til að skilja og kynnast Pamelu því það er svo mikið af ranghugmyndum um hana og hver hún var. Það hefur haldið aftur að henni hvað varðar tækifærin sem henni hafa boðist.“
Brandon segir að hann hafi tekið slaginn fyrir mömmu sína því hún tók slaginn fyrir hann. „Mitt markmið var að gefa mömmu tækifærin sem hún gaf mér þegar ég var barn. Hún hefði gert hvað sem er fyrir mig. Hún var alltaf til staðar og var mjög góð móðir. Og á einhverjum tímapunkti var komið að mér að vernda hana. Ég vissi snemma að ég átti eftir að vera aðilinn til að taka slaginn fyrir fjölskyldu mína. Það hefði verið auðvelt fyrir okkur, og fyrir mig, að henda saman einhverju plani til að græða á þeirri Pamelu sem fólk taldi sig þekkja. Það hefði þó þýtt að hún yrði óhamingjusöm, þó að hún hefði verið að þéna peninga. Ég vildi bara að hún upplifði að hún hefði möguleika, hvort sem þeir raungerðust eða ekki, á að ná árangri á því sviði sem hún hafði valið sér.“
Brandon tekur fram að á hátindi ferils síns, áður en hún varð móðir, var Pamela þekkt sem kynbomba. Hún var hlutgerð og öll hlutverk sem henni buðust snerust um að geðjast karlmönnum. Hann er því mjög stoltur að þeim hafi tekist að kveða þann draug niður.
„Hún var ekki lengur kyntákn. Hún var manneskja og ég held að fólk sé að sjá hana nú í nýju ljósi. Mér finnst eins og heimurinn sé að kynnast henni upp á nýtt. Mér finnst eins og allir séu að hvetja hana til dáða.“