Íslenska tónlistarstjarnan Laufey Lín Jónsdóttir hefur heldur betur gert það gott á árinu. Laufey hefur verið afar áberandi nú á aðventunni bæði á strætóskýlum borgarinnar í auglýsingum fyrir 66°Norður sem og að syngja úti í heimi.
Söngkonan vann sem kunnugt er Grammy verðlaunin fyrr á árinu fyrir plötu sína Bewitched og það er búið að vera meira nóg að gera hjá henni síðan þá. Hún fór í tónleikaferðalag um heiminn í kjölfarið og söng meðal annars fyrir framan 7.500 áhorfendur í Jakarta í Indónesíu sem eru stærstu tónleikar hennar hingað til.
Söngkonan hefur sett sinn einstaka svip á jólalagið vinsæla „Santa Baby,“ sem var skrifað af Joan Javits og upprunalega flutt af Eartha Kitt árið 1953. Laufey setti lagið í djass-búning og fékk bandaríska Hollywood leikarann Bill Murray til liðs við sig. Þá hafa tónleikar hennar, sem fóru fram í Hollywood Bowl í Los Angeles í byrjun ágústmánaðar verið sýndir í völdum kvikmyndahúsum nú í desember.
Örvar Amor hittu einnig söngkonuna í hjartastað nú í vetur en hún fann ástina í örmum Charlie Christie. Kærastinn vinnur hjá útgáfurisa í tónlistarbransanum í Los Angeles.