Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari.
Hún segir að það sé ein spurning sem veldur fólki miklum kvíða um jólin. Það er: „Jæja… allt klárt fyrir jólin?“
„Þessi spurning sendir rafstraum af kvíða og streitu niður mænuna og grjóthnullungurinn stækkar í mallanum. Því hún minnir þig á „to-do“ listann sem er á þykkt við Ensk-íslensku orðabókina.
Ragnhildur heldur áfram:
„Kvíðinn hvíslar í eyrað á þér glaðhlakkalega: „Þú munt aldrei ná þessu öllu fyrir tuttugustaogfjórða.“ Gólflistarnir eru óþvegnir. Fjórar jólagjafir ókeyptar. Sjö sortir óbakaðar. Parketið óskúrað. Kröfurnar á sjálfið eru út úr kortinu óraunhæfar og aðeins ínáanlegar fyrir geimfara NASA.“
Hún segir marga finna fyrir þörf til að gleðja alla. „Það verður að vera epísk ánægja hjá öllum með gjafirnar sínar. Út um hvert munnvik verða að læðast stunur af kúlínarískri fullnægingu yfir jólamatnum. Vera með vegan valmöguleika fyrir tengdadótturina, glútenfrítt fyrir eiginmanninn, og auka kjöt fyrir mömmu á Ketó. Tvær týpur af desert… fyrir þau sem forðast sykur. Finna spil sem öllum finnst skemmtilegt. Möndlugjöfin fullkomin fyrir alla aldurshópa.“
Sálfræðingurinn bendir á víðtæku áhrifin sem þetta hefur á heilsuna.
„Það er ekki andi jólanna að vera tætt og tjásuð allan desember í kapphlaupi við klukkuna. Sósuð í kortisóli og adrenalíni. Veikara ónæmiskerfi. Styttri þráður. Axlirnar grjótstífar.
Nærð ekki að anda djúpt. Alla daga eins og pandabjörn sitji ofan á brjóstkassanum. Með kvef og hálsbólgu á aðfangadag. Jólamaturinn að brenna við. Húsið í kaos. Krakkarnir að rífast.
Kvíði yfir jólaboðunum. Áhyggjur af Vísareikningnum í janúar. Samanburður við jólamyndir Fríðu vinkonu á Instagram.
Af hverju er mitt jólatré eins og herðatré úr efnalaug með flæktri ljósaseríu, en hennar með litaþema og klippt útúr amerískri bíómynd?“
Ragnhildur segir að jólin séu ekki tíminn til þess að vera endalaust að þrífa eða hafa áhyggjur af ókeyptum gjöfum.
„Settu bara upp meira jólaskraut til að fela rykið. Keyptu bara tilbúið piparkökuhús í Tiger. Rísalamandið er alveg jafn bragðgott úr ópússaðri skeið. Maturinn jafn gómsætur þó dúkurinn sé krumpaður. Félagsskapurinn jafn dýrmætur þó rykló sé í hornum. Það koma alltaf jól,“ segir hún.
„Spurningin er hvort við ætlum að njóta þeirra. Eða vera útbrunnin af streitu í vanlíðan yfir að hafa ekki náð að „klára allt.“ Myllumerkið #nógugott á líklega aldrei betur við en einmitt í desember.“