fbpx
Miðvikudagur 18.desember 2024
Fókus

„Sögurnar eru afar fjölbreyttar en búa allar yfir einhverri óútskýrðri fegurð og hlýju“

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 17. desember 2024 20:55

Illuga Jökulssyni tekst vel upp með verkinu Rétt áðan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árum saman hefur Illugi Jökulsson punktað hjá sér litlar sögur úr íslenskum hversdagsleika sem hann hefur heyrt eða orðið vitni að í dagsins amstri.

Vinir fjölmiðlamannsins á Facebook hafa iðulega notið góðs af þessum hæfileika Illuga til þess að koma auga á hið gráglettna í samskiptum fólks þegar hann hefur birt lítið brot af þessum sögum á miðlinum. Þannig lýsir hann borgarbúum, ungum sem öldnum og ferðamönnum á leið sinni um Reykjavík með sínum einstaka hætti.

Á viðbrögðunum er augljóst að Illugi hreyfir við fólki með þessum sögum enda eiga þær sér iðulega stað í aðstæðum sem allir tengja við, í sundi eða göngutúr niður Laugaveginn. Þá leitar hann oft í eigin æskuminningar  sem eru uppfullar af nostalgíu og hlýju.

Það er því vel að Illugi hefur nú tekið þessar sögur saman í bók, sem nefnist Rétt áðan, sem hann gefur sjálfur út með aðstoð sinna nánustu. Til að mynda sér þjóðargersemin Vera, dóttir Illuga, um umbrot verksins.

Í viðtali við kollega sinn Egil Helgason í Kiljunni á RÚV sagði Illugi að hann væri með bókinni í raun að gefa upp mynd af sjálfum sér og markmiðið hefði verið að bókin væri falleg.

Segja má að Illuga takist ætlunarverk sitt fullkomlega. Sögurnar eru afar fjölbreyttar en búa allar yfir einhverri óútskýrðri fegurð og hlýju, iðulega rammaðar inn með með meitluðum húmor. Meira að segja í nöturlegum aðstæðum skín þessi hæfileiki Illuga í gegn.

Sem dæmi má nefna sögu frá 28. desember 2014 sem hljóðar svo:

Í Þingholtunum rétt áðan gekk ég fram á ungan mann sem var að míga á útidyrahurðina nágranna míns sem snýr út að götunni. „Finnst þér þetta kurteisislegt?“ spurði ég þegar hann hafði lokið sér af. „Já“ svaraði hann og reyndi að bera sig vel um leið og hann gekk burt. Svo staðnæmdist hann og eftir að hafa hugsað sig vanda um hrópaði hann á eftir mér: „En þú, ert þú eitthvað skárri að ana svona inn í líf fólks?“

Það er óhætt að mæla með þessu verki Illuga sem rennur ljúflega í gegn og fyllir hjarta lesandans af notalegum yl og birtu. Og ekki skemma öll brosin fyrir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Er veröldin eins og við þekkjum hana í raun sýndarveruleiki?

Er veröldin eins og við þekkjum hana í raun sýndarveruleiki?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Meghan Markle sagðist valdefla konur með fjárfestingu sinni – Nú er hún sökuð um „fátæktarklám“

Meghan Markle sagðist valdefla konur með fjárfestingu sinni – Nú er hún sökuð um „fátæktarklám“