Það vakti mikla athygli á dögunum þegar greint var frá því að Jay-Z, réttu nafni Shawn Carter, hefði verið sakaður um að nauðga þrettán ára stúlku árið 2000.
Konan, sem nú er á fertugsaldri, heldur því fram að Jay-Z og Sean Combs hafi nauðgað henni í gleðskap eftir MTV Video Music-verðlaunahátíðina sem haldin var í New York þetta ár.
Alex Spiro, lögmaður Jay-Z, ræddi við fjölmiðla fyrir utan höfuðstöðvar Roc Nation, afþreyingarfyrirtækis Jay-Z, í gær. Þar benti hann á að nokkur atriði í framburði meints fórnarlambs stæðust engan veginn.
Sjá einnig: Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“
Í fyrsta lagi hafi konan haldið því fram að meint brot hafi átt sér stað í gleðskap eftir hátíðina í „stóru hvítu húsi með U-laga heimreið“. Bendir Spiro á að myndir hafi sýnt bæði Jay-Z og Combs skemmta sér á næturklúbbi fram eftir nóttu eftir hátíðina.
Þá segist konan hafa laumað sér út um glugga á heimili sínu í Rochester og húkkað sér far hjá vini sínum, sem nú er látinn, til New York þar sem verðlaunahátíðin fór fram. Bendir Spiro á að það hefði tekið hana fimm klukkustundir að aka frá heimili sínu að hátíðinni og hún hefði þurft að yfirgefa heimili sitt klukkan þrjú þennan dag.
Konan mun einnig hafa haldið því fram að hún hafi horft á hátíðina á svokölluðum jumbotron-ská, risaskjá sem vísar í allar áttir, fyrir utan hátíðina. Hún hafi svo vingast við bílstjóra limmósínu sem ók henni að húsinu þar sem meint brot áttu sér stað. Athugun hafi þó leitt í ljós að enginn risaskjár var fyrir utan bygginguna þar sem verðlaunahátíðin fór fram.
Loks hafi konan haldið því fram að hún hafi lagt á flótta eftir nauðgunina og hringt í föður sinn frá bensínstöð skammt frá staðnum þar sem brotin áttu sér stað og beðið hann um að sækja sig. Bendir Spiro á að faðir hennar minnist þess ekki að hafa ekið frá Rochester til New York til að sækja dóttur sína þetta kvöld.
„Þetta átti sér aldrei stað,“ segir Spiro.
Jay-Z hefur staðfastlega neitað því að hafa gert nokkuð rangt þetta kvöld og sakað lögmann konunnar, Tony Buzbee, um tilraun til fjárkúgunar.