Sálfræðingurinn og líkamsræktardrottningin Ragnhildur Þórðardóttir, einnig þekkt sem Ragga nagli, segir að samfélagið þurfi að hvetja karlmenn til að sýna og segja frá tilfinningum sínum frekar en að segja þeim að hætta að vera kellingar. Ragga skrifar í nýjustu færslu sinni á Facebook að það sé sorglegt að það sé enn á skjön við samfélagsleg viðmið að sjá karlmann gráta.
„Við þurfum að hvetja menn til að sýna og segja frá tilfinningum sínum. Samfélagið segir þeim að girða sig bara í brók og vera ekki svona mikil kelling.
„Hva… ætlarðu að grenja yfir þessu??“
„Ertu með pung eða píku?“
Geta pabbar ekki grátið spurði drengurinn sem varð að sívinsælu dægurlagi í áttunni. En hið sorglega er að karlmaður sem grætur er því miður ennþá á skjön við félagslega samþykkt norm. 40% karlmanna tala ALDREI um sín innstu mál við neinn.“
Ragga bendir á að karlmenn séu þrisvar sinnum líklegri en konur til að taka eigið líf og samkvæmt sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) eru 80% sjálfsvíga af hendi karlmanna. Karlmenn séu þar að auki þrisvar sinnum líklegri en konur til að verða fíkni í áfengi og eiturefni að bráð og að 75 prósent þeirra sem týnast eða hverfa séu karlmenn.
Það þykir svaka kúl og töff að vera helmassaköttaður og lyfta rosa þungt. Sýna aldrei veikleika. Aldrei svekktur, skúffaður, hræddur, kvíðinn. Alltaf grjótharður. Bísperrtur með kassann fram og hökuna upp. „Já maður….. kjellinn er bara góður“ er sagt á hátíðninni. En á meðan er sálin ein stór brunarúst.
Hugrekki, dug og þor… hefur það ekki þótt „karlmennskutákn“ í gegnum tíðina?“
Ragga telur tíma til kominn að það sé gert kúl og töff að berskjalda sig og segja frá. Það sé hugrakkt að opna sig og það þurfi hugrekki til að gráta og sýna tilfinningar. Karlmennska sé ekki bundin við það að girða sig í brók og sýna aldrei veikleika. Karlmennska sé frekar hugrekki til að vera berskjaldaður og viðkvæmur.
„Karlmennska er ekki einungis að girða sig í brók, vera sterkur og sýna aldrei veikleika. Karlmennska er miklu frekar hugrekkið til að vera berskjaldaður og viðkvæmur. Að sýna og tala um vanlíðan er því merki um karlmennsku.“
Ragga minnir á að karlmenn verða líka einmana, upplifa ofbeldi, upplifa gremju, verða daprir og kvíðnir. Karlmenn þurfi líka að tala um tilfinningar og setja mörk. Karlmenn verða líka bugaðir og þeir verða líka hræddir. Karlmenn þurfi líka að gráta.