Karl Bretakonungur var krýndur vorið 2023, þá tæplega 75 ára að aldri. Skömmu síðar var opinberað að konungurinn glímir við krabbamein. Konungsfjölskyldan hefur lítið tjáð sig um hvernig baráttan við meinið gengur en Donald Trump segir að Vilhjálmur prins hafi sagt sér á dögunum að Karl sé að berjast af öllum mætti.
Karl hefur þurft að hlífa sér og Vilhjálmur prins hefur því tekið á sig mikið af verkefnum föður síns. Svo mikið í raun að slúðurmiðlarnir eru farnir að spá því að Karl muni afsala sér krúnunni til Vilhjálms á næstunni. Þá geti konungurinn hugsað að heilsu sinni og Bretland fengið þjóðhöfðingja sem er hraustur. In Touch Weekly gengur svo langt að spá því að Karl muni stíga til hliðar á nýju ári. Þannig verði Vilhjálmur konungur og eiginkona hans, Katrín, drottning. Heimildarmenn spá því að þessi sögulega tilkynning komi í kringum jólin.
Heimildarmaður sagði við miðilinn að hvíslað sé um þessi áform á götum hallarinnar. „Karl beið þess svo lengi að verða konungur en eins og staðan er núna getur enginn áfellst hann fyrir að sleppa takinu af hásætinu svo hann geti átt sitt ævikvöld í friði.“