Texti: Helgi Magnússon
Árlega koma út bækur um laxveiðiár á Íslandi, mismiklar að vöxtum og gæðum. Bókin DROTTNING NORÐURSINS um Laxá í Aðaldal eftir Steinar J. Lúðvíksson sætir tíðindum enda er hún einstaklega vönduð, yfirgripsmikil og merkileg í alla staði. Vel hefur verið vandað til verksins. Bókin er 340 bls. að stærð, mikið myndskreytt glæsilegum litmyndum en textinn er vandaður og upplýsandi enda ekki við örðu að búast af þeim reynda og farsæla rithöfundi, Steinari J. Lúðvíkssyni.
Ég kom fyrst til veiða í Laxá barnungur með föður mínum, þá 12 ára að aldri. Það var mikil upplifun og ólýsanlegt ævintýri fyrir mig. Faðir minn var þá hluti af veiðihópi sem Jakob V. Hafstein stóð fyrir en ásamt þeim voru í þeim hópi Albert Guðmundsson, Indriði G.Þorsteinsson og Bragi Eiríksson. Þeir tóku gjarnan börn sín með sem fengu þá tækifæri til að upplifa þau undur sem Laxá í Aðaldal var á sjönuda áratug síðustu aldar en á þeim árun var mikil veiði í ánni og stórlaxar mun algengari en síðar varð, eins og Steinar fjallar ítarlega um í bókinni. Jakob ritaði sjálfur merka bók um Laxá í Aðaldal, sem fjallaði ekki síst um umhverfi árinnar og einstaka veiðistaði. Hún hefur elst vel þó meira en hálf öld sé frá útgáfu hennar. Jakob V. Hafstein veiddi stærsta flugulax sem sögur fara af á Íslandi þann 10. júlí 1942 eins og fjallað er um í bók Steinars. Hann vó tæp 37 pund.
Árið 1978 eignaðist ég hlut í Laxárfélaginu í Reykjavík ásamt veiðifélaga mínum og kom þá til veiða að jafnaði tvisvar á sumri þar til botninn datt úr veiðum í ánni. Mér telst til að ég hafi komið til veiða í Laxá í meira en 50 sumur og á því gott með að njóta efnis bókarinnar. Orri Vigfússon fór fyrir veiðihópi okkar og bókarhöfundurinn Steinar J. Lúðvíksson var þar einnig. Ég átti samleið með honum á bökkum Laxár í Aðaldal í áratugi. Steinar var yfirvegaður og laginn veiðimaður sem naut sín vel í því undursamlega umhverfi sem umlykur Laxá.
Það er merkilegt rannsóknarefni hvernig laxveiði hrundi í ánni. Í bók Steinsrs J. er birt tafla yfir veiði í Laxá frá 1941 til 2020. Mest veiddist á svæði Laxárfélagsins árið 1978 alls 2.211 laxar og hrundi niður í 223 laxa árið 2020 þrátt fyrir friðunaraðgerðir sem fólust í fyrirkomlaginu að veiða og sleppa sem óhætt er að segja að hafi mælst misvel fyrir. En eitthvað varð að reyna til að breyta þeirri dapurlegu þróun þegar veiði minnkaði ár frá ári. Mikið er fjallað um orsakir þessarar þróunar í bókinni. Þar er einnig að finna merkileg viðtöl við fjölda manna sem komu við einstaka sögu Laxárfélagsins, einkum bændur og veiðimenn.
Laxárfélagið lifði í 80 ár og Orri Vigfússon var formaður þess í 32 ár, lengur en nokkur annar. Saga hans og félagsins er samofin á þessum tíma og víst er að hann lagði gríðarlega mikið af mörkum til að halda utan um starfsemi Laxárfélagsins. Það gerði hann meðal annars með því að rækta einlægt samband við bændur á bökkum árinnar, leigusalana. Ljóst er að mikil vinátta var með honum og mörgum bændum, ekki síst Laxanmýrarbændum af þremur kynslóðum. Enda er það mikið afrek að sama félag hafi leigt veiðileyfi af sömu veiðiréttareigendum í áttatíu ár.
Á bókarkápu segir um efni bókarinnar:
„Laxá í Aðaldal hefur verið kölluð drottning norðursins. Hún er rómuð fyrir fegurð og fisksæld og er ein af perlum íslenskrar náttúru. Hér rekur Steinar J. Lúðvíksson sögu veiða í ánni, segir frá frægum veiðimönnum og minna þekktum, og deilum um nýtingu hennar. Þá fjallar hann um Laxárfélagið, upphaf þess, starfsemi og endalok, en félagið hafði meginhluta árinnar á leigu í áttatíu ár. Þannig er saga árinnar og félagsins samofin.“
Ég heyrði fyrst Jakob V. Hafstein nota heitið DROTTNING NORÐURSINS um Laxá í Aðaldal. Ekki kæmi mér á óvart þó hann sé höfundur þessa verðskuldaða sæmdarheitis en Laxá í Aðaldal og umhverfi hennar var í algerum sérflokki þegar best lét á síðari hluta síðustu aldar.
Bókin er einstaklega vönduð í alla staði og Steinari J. Lúðvíkssyni til mikils sóma. Í stjörnugjöf verðskuldar hún fullt hús á alla mælikvarða.