Gleðigjafinn og altmulig-maðurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, hefur sett glæsilegt heimili sitt og fjölskyldunnar í Skerjafirðinum á sölu. Þar hefur Dóri búið undanfarin ár ásamt Magneu Guðmundsdóttur, eiginkonu sinni, og börnum þeirra.
Íbúðin er í reisulegu húsi við Skeljanes en í lýsingu kemur fram að um sé að ræða „sjarmerandi og fallega 132,9 fermetra íbúð“. Hún er fimm herbergja og er fallegt útsýni til suðurs í átt að Öskuhlíð og Bláfjöllum. Þá fylgir íbúðinni tæplega 10 fermetra geymsluskúr á lóðinni sem er ekki talinn með í fermetratölu fasteignarinnar.
Ásett verð fyrir eignina er 108 milljónir króna.