fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Guðni segist hafa sært, meitt og stolið: „En ég hef aldrei gert mistök“

Fókus
Mánudaginn 9. desember 2024 10:12

Guðni Gunnarsson er gestur Sölva í nýjasta þætti hans.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Gunnarsson stofnandi Rope Yoga segist hafa sært meitt og stolið, en aldrei gert mistök. Guðni, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir að stór hluti af því sem haldi aftur af fólki sé að það lifi stöðugt í fortíð og framtíð og þess vegna verði engar raunverulegar breytingar.

„Við lifum mörg hver stöðugt í framtíðinni, þar sem eitthvað á að gerast. En af hverju erum við að bíða og eftir hverju erum við að bíða? Þegar við erum föst í framtíðinni og að bíða eftir einhverju augnabliki þar sem allt á að breytast, þá erum við í raun að búa til nýja fjarveru og halda föst í sömu mynstrin. Síðan bíður þú bara og bíður og áttar þig ekki á því að þú ert í raun búinn að vera að bíða eftir sjálfum þér allan tímann. Við erum oft á tíðum eins og fló á skinni og höldum að við séum hugsanir okkar. Það veldur því svo að það er ekki gott að vera í eigin návist og maður verður friðlaus. Það er ekki hægt að flýja hugsanir sínar, en með því að varpa ljósi á þær byrja mynstrin að losna. Stærsta vandamál okkar flestra er viðnámið sem við veitum þjáningu og óþægilegum tilfinningum og þannig verður til kvíði. Með því að hafna því sem er búum við til miklu stærra vandamál en það sem við erum að hafna. Þegar þjáningin verður nógu mikil endar það yfirleitt með því að fólk nær að horfa inn á við og byrja raunverulegar breytingar.”

Ekki eftir neinu að bíða

Guðni segist þess fullviss að mjög mikið af fólki sé þegar byrjað að stíga inn í að taka fulla ábyrgð á eigin lífi og það muni hafa jákvæð áhrif á samfélög:

„Það er ýmislegt sem bendir til þess að það þurfi um 15-20% af mannkyni að breyta um viðhorf og fara úr ótta í ást til þess að það muni eiga sér stað stórfelldar breytingar í heiminum. Þá er kominn krítískur massi af fólki sem mun skapa algjörlega nýjan tíðaranda á jörðinni. Þegar við tökum ábyrgð á okkur sjálfum og vinnum að því að skapa frið og jafnvægi inn á við, þá höfum við jákvæð áhrif á heiminn í kringum okkur. Það er ekki eftir neinu að bíða til að mæta inn í hjartað, leyfa ljósi þínu að skína bjart og vera þannig fordæmi og hafa áhrif á allt í kringum þig,” segir Guðni sem sjálfur nefnir til að mynda mataræði sem eina leið til að hafa áhrif á heilsu. Hann hefur sjálfur undanfarið prófað sig áfram með „Carnivore“-matarræði og ber því vel söguna:

„Ég hef fundið mjög jákvæðar breytingar á þessu mataræði, en það er mikið af sérfræðingum sem fordæma alls kyns hluti án þess að hafa reynslu af þeim sjálfir. Ég hvet fólk til þess að treysta eigin innsæi og prófa sig áfram og finna hvað hentar þér best.“

Aldrei gert mistök

Guðni er mikill talsmaður sjálfsábyrgðar og vinnur meðal annars við að hjálpa fólki að taka fulla ábyrgð á sinni tilveru. Það að verða algjörlega valfær og ábyrgur í eigin lífi sé leiðin til framfara:

„Flest fólk fær nokkur tækifæri á ævinni til þess að breyta lífi sínu algjörlega og ef það tækifæri er notað geta gerst magnaðir hlutir. Við höfum flest einhvern tíma lent á þessum stað þar sem eitthvað verður að breytast og maður er raunverulega tilbúinn að vakna til vitundar. En flestir ná ekki að horfast í augu við það að þurfa að taka fulla ábyrgð á lífi sínu fyrr en þeir eru komnir á botninn. Mistök eru afsökun fyrir því að taka ekki ábyrgð og þess vegna hef ég ekki gert mistök. Ég hef sært, meitt og stolið, en ég hef aldrei gert mistök, af því að ef ég hefði gert mistök sæti ég ekki hérna hjá þér núna. Þú situr uppi með afleiðingarnar af því sem þú hefur gert og getur beðist velvirðingar ef þú hefur meitt eða sært, en þú gerðir það sem þú gerðir og getur ekki breytt því,“ segir Guðni, sem hefur í gegnum tíðina mikið velt fyrir sér tungumálinu og því hvernig við notum það og hvaða orð koma út úr okkur:

„Ef maður notar stöðugt orð sem eru vanmáttug hefur það áhrif á gjörðir okkar. Á því augnabliki sem þú fyrirgefur sjálfum þér að fullu færð þú möguleika á að taka fulla ábyrgð og valda þinni eigin tilvist. Tungumálið okkar er stórmerkilegt fyrirbæri og það hvernig við notum orð hefur áhrif á heila okkar og alla líkamsstarfsemi.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Guðna og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 12 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“