Þrátt fyrir krefjandi aðstæður í einkalífinu hefur Hildur Líf gert það gott og er með mörg járn í eldinum Hún starfar í dag sem hönnuður fyrir þjálfara og leikmenn innan NFL-deildarinnar þar sem hún hannar kerfi sem byggjast á víðtækum hjálpargagnagrunni fyrir heilaþjálfun. Þá er hún einnig virk í góðgerðarstarfsemi ytra og vinnur náið með góðgerðasamtökunum Champions For The Homeless.
Hildur segir sögu sína sem sigurvegari og fyrirmynd fyrir dóttur sína, Alyönu.
Hildur Líf er mörgum kunn hérlendis. Hún var rétt skriðin yfir tvítugt þegar hún skaust fram í sviðsljósið og var á allra vörum árið 2011. Hún gat sér gott orð í heimi tísku, sem fyrirsæta, stílisti og förðunarfræðingur, og naut mikillar velgengni í starfi. Hún kynntist síðan bandarískum manni og þau gengu í það heilaga í september 2014 og fluttu til Bandaríkjanna.
„Ég lifði síðan svo kölluðu „trophy wife“ lífi, en þannig leit það bara út út á við,“ segir hún.
Skilnaðurinn var erfiður, reyndi mikið á og að endingu var leyst úr málinu fyrir dómstólum og Hildur fékk forræði yfir dóttur sinni.
Hvað tók við eftir skilnað?
„Ég kem mér bara beint að efninu,“ segir Hildur og hlær.
„Ég fór beint til sálfræðings. Ég mæli eindregið með því fyrir alla. Ég tók hreinsun á fólk, ég lokaði á fullt af fólki. Ég fór aftur á teikniborðið.“
Fyrrverandi maður hennar er mormónatrúar og segir Hildur að umhverfið og viðhorfið gagnvart skilnaði sé öðruvísi úti en heima á Íslandi.
„Ég tók ágætis tíma í að finna sjálfa mig aftur. Ég var búin að vera konan hans í nokkur ár, var í rauninni að lifa hans lífi og líta vel út, gera það sem hann vildi og undir mikilli stjórnun. Það er bara ekki heilbrigt,“ segir Hildur.
Hún fór aftur að sinna ástríðum sínum. „Ég fór aftur að huga að listsköpun, förðunarfræði og að stílisera. Ég fór að vinna í skartgripaverslun og var einnig að hanna skartgripi og sjá um auglýsingar fyrir verslunina. Ég hætti síðan í versluninni og vinn núna sem verktaki og listakona,“ segir Hildur.
Hún sannaði ekki aðeins fyrir sjálfri sér og öðrum í kringum hana hvers megnug hún er, heldur sýndi hún dóttur sinni að allt sé mögulegt ef viljinn er fyrir hendi.
Starf Hildar er áhugavert og spennandi, en það er erfitt að finna íslenskt orð fyrir starfsheiti hennar. Í stuttu máli er um að ræða eins konar heilaleikfimi eða heilaþjálfun. Hún hannar kerfi sem byggjast á víðtækum hjálpargagnagrunni fyrir afreksíþróttafólk og leikmenn í NFL-deildinni. Íþróttamennirnir leysa verkefnið í tölvu, eða samhliða líkamlegum verkefnum, en fer það eftir hönnuninni hverju sinni hvað er verið að þjálfa, eins og hraða, tækni, snerpu, dýpt og svo framvegis. Hildi finnst æðislegt að geta verið skapandi aftur á nýjan leik.
„Mér finnst það gefa mér svo mikið að vera í kringum íþróttir aftur og á sama tíma sinna listsköpun, bara algjör draumur. Svo hef ég verið að vinna mikið fyrir góðgerðasamtökin Champions Of The Homeless, sem Nick Lowery stofnaði,“ segir hún.
Nick spilaði lengst af með Kansas City Chiefs og er sannkölluð goðsögn ytra.
„Hann hefur verið frábær mentor í mínu lífi og hefur hjálpað mér að elta draumana.“
Hildur rifjar upp myrka tíma þegar hún gekk inn í kvennaathvarf og fékk áfall þegar hún sá konurnar og börnin og aðstæðurnar sem þau þurftu að lifa við. Þetta kveikti bál í henni að hjálpa konum og börnum í þessum aðstæðum.
„Margar konur hafa þurft að flýja ofbeldi og það er allt of lítið um aðstoð eða leiðsögn,“ segir hún. Hildi finnst að það mætti búa til betri úrræði fyrir þær konur sem flýja ofbeldissambönd.
„Að baki býr mikill persónulegur vöxtur og styrkur og ég vil nýta það til að valdefla konur í dag. Ég er heppin að fá að gera það í gegnum góðgerðastörf með frábæru fólki. Ég tók áhættu að segja skilið við fyrra líf mitt fyrir frelsi og öryggi. Það var ekki auðvelt, en það hefur gert mig sterkari.“
Hildur viðurkennir að það sé ágætis púsluspil að vera einstæð móðir á vinnumarkaði og með marga bolta á lofti, en hún elski lífið og hver hún er í dag.
Dóttir Hildar, Alyana, er níu ára gömul og hefur náð ótrúlegum árangri í íþróttaheiminum. Hvort sem það er leiklist, fimleikar, dans eða fótbolti, þá skarar hún fram úr.
Alyana, eða Aly eins og hún er kölluð, byrjaði í fimleikum þriggja ára í Gerplu á Íslandi og sýndi fljótt mikla hæfileika í Bandaríkjunum Hún fór síðan í ballett, jazz og samkvæmisdans og var þar sömu sögu að segja. „Við eigum svo skemmtilegar minningar þar sem við æfðum saman í bílskúrnum á milli keppna og fyrir keppnir,“ segir hún.
Aly var að keppa í fimleikum aðra hverja helgi fyrir skilnaðinn og varð sú fjórða besta í fylkinu. Hún þurfti að hætta í íþróttinni en sneri sér í stað þess að dansi og eftir að hafa flogið í gegnum áheyrnarprufurnar í sumar er hún komin í keppnishóp, með eldri stúlkum, frá ellefu til þrettán ára.
Hildur segir að lífið í Arizona sé ljúft. „Það er alltaf logn. Þú vaknar á morgnana og það er svo góð lykt úti. Arizona er mjög hreint og jákvætt og rólegt fylki. Ekki mikið af leiðindum eða drama, fólk heilsar úti á götu,“ segir hún.
Dagarnir byrja rólega hjá Hildi. Hún skutlar dóttur sinni í skólann og fer síðan heim og nýtur sólarinnar aðeins, fær sér kaffi og fer síðan að vinna í tölvunni. „Ég tek mér gott hádegishlé til að finna mér innblástur, taka smá ró. Síðustu tvö ár voru svo erilsöm og finn ég í dag hversu mikilvægt það er að taka tíma fyrir sjálfa mig.
Eftir vinnu og skóla borða mæðgurnar og leggur Hildur mikið upp úr því að gefa dóttur sinni hollan og næringarríkan mat. Þær fara síðan á dansæfingu hjá Aly.
Þetta er fyrsta viðtalið sem Hildur hefur veitt í langan tíma. Fólk hefur haft ýmsar skoðanir á henni um hvernig hún birtist í fjölmiðlum árum áður en Hildur segist lítið kippa sér upp við það.
„Ég kryddaði kannski upp á alls konar í gamla daga en fólki finnst gaman að skipta sér af og slúðra, en það slúðra fáir um eitthvað jákvætt, það er ekki eins áhugavert. Mér var alveg sama um hvað fólki fannst um mig og í dag er mér enn sama,“ segir hún og bætir við að konur, sérstaklega ungar konur, verði oft fyrir barðinu á neikvæðu umtali og athygli í fjölmiðlum.
„Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að gæta að friðhelgi einkalífs míns og dóttur minnar.“
Hildur segir að hún hafi ekki ætlað að ræða um líf sitt opinberlega strax, en henni hafi fundist hún tilneydd til þess.
„Ég ákvað að stíga fram og segja sögu mína í viðtali eftir að annar fjölmiðill reyndi að neyða mig að tala um skilnaðinn minn, en það var bara of mikið. Ég sagði nei sökum alvarleika aðstæðnanna og af virðingu við alla sem koma að málum. Ég er í dag með nálgunarbann á fyrrverandi manninn minn og hef þurft að ganga í gegnum mikið, ég vildi ekki tala um þetta fyrr en ég væri tilbúin. Ég ákvað að taka stjórnina og segja frá því sjálf,“ segir hún.
„Líf mitt snýst um að sjá dóttur mína hamingjusama og blómstra í því sem hún elskar og tekur sér fyrir hendur. Mitt hlutverk er að vera góð fyrirmynd og móðir fyrir hana, það er það sem skiptir mestu máli en ekki eitthvað sem aðrir hafa að segja.“
Að lokum fer Hildur fögrum orðum um móður sína og stuðningsnetið heima. „Aly fær reglulega sendar íslenska bækur frá mömmu, sem er kennari. Hún hefur verið þvílík stoð og stytta að efla íslenskuna hjá henni,“ segir hún.
Hildur segir að stefnan sé að koma heim í framtíðinni en eins og staðan er núna séu þær mæðgur mjög hamingjusamar í Arizona.